fimmtudagur, febrúar 17, 2011

Uppákoma: 75 ára afmæli pabba

Í dag var merkilegur dagur í fjölskyldunni. Pabbi varð 75 ára gamall. Við héldum upp á daginn í Blikanesinu, þar sem Bryndís systir ásamt manni sínum, Ásbergi. Mamma var með ekta "mömmumat" og bauð á þriðja tug ættingja í huggulega kvöldmáltíð. Þetta var allt mjög afslappað og enginn átti von á neinni óvæntri uppákomu. Pakkarnir sátu þægir úti í horni og fólk spjallaði saman rólega þegar stórsöngvararnir Davíð og Stefán mættu á svæðið. Þeir vinna við það að koma fram af minnsta tilefni, tveir saman, hvort sem það eru tónleikar, þorrablót, afmæli eða aðrar uppákomur. Með sínar hljómmiklu raddir vöktu þeir mikla lukku og brugðu auðvitað á leik inni á milli, eins og þeim er einum lagið. Lögin snertu öll pabba, sem talaði um það eftir á að þetta hefðu allt verið "uppáhalds lögin sín". Sérstaklega var hann hrifinn af uppklappslaginu, sem var titlað sem "óskalag". Það var "Day-o", sem sló í gegn á heimsvísu í flutningi Harry Belafonte árið 1960. Óskalagið hitti í vel í mark í afslöppuðum flutningi þeirra félaga, og svo kvöddu þeir kurteislega og héldu út í myrkrið. Gestirnir sátu eftir með bros á vör enda magnað að heyra þessar raddir í frábærum hljómburði hússins í Blikanesi. Dagurinn endaði svo á rólegu nótunum með úrvals ís og öðrum eftirréttum úr smiðju mömmu. Þegar við loks tygjuðum okkur heim um níuleytið voru allir sammála um að veislan hefði heppnast vel í alla staði. Hún var bæði heimilisleg og afslöppuð í bland við hið óvænta.

1 ummæli:

Begga frænka sagði...

Þetta var æðislegt og þeir voru svo skemmtilegir.
Pabbi var svo glaður og naut þessa í botn.
Maturinn hennar mömmu æðislegur eins og alltaf...
Frábært !!!