föstudagur, desember 30, 2005

Pæling: Tímasetning fæðingarinnar

Nú fer að líða að áramótum. Í leiðinni rennur upp dagurinn sem upprunalega var áætlaður fyrir fæðinguna. Við erum enn á mínus-tíma, svo að segja. Þó það skipti engu máli eftir um það bil ár hefur það eitthvað að segja þegar maður metur hreyfi- og skynþroska fyrstu vikurnar.

Við erum ákaflega sátt við tímasetninguna hjá þeirri litlu. Eftir á að hyggja bankaði hún upp á á besta hugsanlega tíma. Núna þegar áramótin eru að renna í gegn finnst mér tímabært að skoða fæðinguna aðeins í þessu samhengi.

1) Hún fæddist á Lúsíumessu, 13. desember. Sá dagur á sér skemmtilega sögu. Við Vigdís sjáum í hendi okkar hvernig aðventan kemur til með að markast af kertaljósum þann daginn ásamt piparkökum.

2) Tímasetningin 7.46 var hreint afbragð. Það væri gaman að geta vakið þá litlu á afmælisdaginn sinn akkúrat á fæðingarstundinni, um kortér í átta.

3) Hún fæddist nógu snemma í desember til að geta braggast fyrir jól og farið með okkur í boðin milli jóla og nýárs og haldið með okkur sín fyrstu jól (þó hún hafi sofið þau mestmegnis af sér).

4) Hún fæddist líka nógu seint til að við gætum undirbúið fæðinguna. Við vorum rétt nýbúin að kaupa allan þann búnað sem til þurfti, eins og skiptiborð og annað slíkt, þegar hún lét vita af sér.

5) Vegna aðstæðna í samfélaginu rétt eftir fæðingu (jólaerill) hentaði tímasetningin okkur sem fjölskyldu mjög vel. Tiltölulega fáir sáu sér þess kost að heimsækja okkur fyrr en eftir jól og við nutum fyrir vikið mjög friðsælla stunda saman þrjú fram að jólum. Það má segja að sú litla hafi þjófstartað jólunum okkar með tilheyrandi friði og ró.

6) Að lokum: Ef maður hugsar fram á við þá er það að halda afmæli ellefu daga fyrir jól bara nokkuð passlegt; þ.e.a.s. það rennur ekki saman við sjálf jólin. Hún gæti jafnvel náð í skottið á bekkjarfélögunum áður en skóla er slitið og náð að halda afmælisveislur eins og aðrir krakkar. Það hefði ekki getað gerst milli jóla og nýárs.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Fréttnæmt: Vigtunarsaga

Ljósan kom í heimsókn til okkar í dag og staðfesti að sú litla væri mikið að þyngjast. Þetta eru afar ánægjuleg tíðindi fyrir okkur Vigdísi því það má segja að mest öll okkar athygli og umstang undanfarnar tvær vikur hafi farið í að tryggja það að dóttir okkar nærist vel þannig að öll líkamsstarfssemin fari almennilega af stað, svo að segja. Eins og þeir vita sem lesið hafa bloggið að undanförnu þá fæddist dóttir okkar nokkuð fyrir tímann og hafði undirgengist meðgöngueitrun (sem þýðir að hún þurfti að þola skert næringarflæði undir það síðasta). Hún var því bæði frekar lítil og skorti þennan veglega fituforða sem flest börn fæðast með. Rúmlega ellefu merkur.

2870 gr.

Síðan byrjaði hún á því að léttast, eins og börn gera fyrst í stað. Þau fæðast víst öll með litla sem enga matarlyst og nærast fyrst og fremst á eigin forða í nokkra daga og léttast því óhjákvæmilega. Það er ekki fyrr en á tíunda degi sem reikna megi með því að börn nái fæðingarþyngd sinni aftur (og stækki hratt í kjölfarið). Þegar við útskrifuðumst (á fjórða degi) var hún vigtuð öðru sinni.

2655 gr.

Þetta leit ekkert illa út svo sem en okkur fannst hún hins vegar óþægilega lystarlítil dagana eftir heimkomu. Fyrsta sólarhringinn drakk hún nánast ekkert og við gerðum okkar ítrasta til að smygla nokkrum dropum af tilbúinni mjólk úr apótekinu með hjálp plastskeiðar, bara til að hún fengi einhverja næringu. Það sem vakti meiri áhyggjur var það að hún skilaði nánast engu þvagi í bleiurnar sínar, hvað þá kúk. Það var merki um að hún væri einfaldlega ekki að fá það sem hún þurfti. En þetta skánaði sem betur fer örlítið á öðrum og þriðja degi. Hún fór þá að líta við móðurmjólkinni, en stopult. Þegar ljósan kom í sína fyrstu heimsókn til okkar, viku eftir fæðingu (20. des.) var hún vigtuð aftur.

2750 gr.

Hún var semsagt að þyngjast þrátt fyrir allt. Okkur létti talsvert við þetta. Síðan hefur leiðin verið upp á við. Sú litla virðist um þetta leyti hafa komist yfir byrjunarörðugleikana og náð að átta sig á hvernig hún þarf sjálf að bera sig eftir björginni. Hún sótti dag frá degi af sífellt meiri krafti í mjólkina góðu. Hugsanlega fór jólamaturin svona vel í hana, maður veit það svo sem ekki, en hún var farin að þamba daginn út og inn, á milli þess sem hún svaf vært. Síðan á aðfangadag hefur meira að segja borið á lítilli krúttlegri undirhöku þar sem áður var magur hálsinn. Núna vorum við Vigdís orðin spennt fyrir fá úr því skorið hvort hún væri loksins komin yfir fæðingarþyngdina því í dag kom ljósan öðru sinni í heimsókn. Hún skilaði nýrri og skýrri niðurstöðu.

3000 gr.

Þar með er dóttir okkar formlega komin á næsta stig vaxtaskeiðsins. Hún þarf ekki lengur að vera í sömu "gjörgæslu" og hingað til, ef svo má að orði komast. Við þurfum ekki að vekja hana lengur sérstaklega og samviskusamlega á 2-3ja tíma fresti allan sólarhringinn til að fylgjast með þvaglosun og gefa henni að drekka. Hún má fara að kalla á eftir mjólkinni sjálf og drekka nokkurn veginn eins og henni lystir í hvert skipti. Það eru mikil þægindi í því. Nú má búast við að hún fari að stækka markvisst og hratt enda eru allra minnstu fötin eru þegar orðin of lítil.

Fréttnæmt: Stafræn myndavél

Öll tókum við upp pakka um jólin. Við Vigdís tókum upp fleiri pakka fyrir hönd dóttur okkar en til okkar sjálfra, sem við var að búast, enda snúast jólagjafirnar að mestu um þau yngstu. Það varðar hins vegar þessi bloggskrif mín að mér áskotnaðist svakalega fín stafræn myndavél (Sony DSC-T5). Réttlætingin fyrir þeirri gjöf var aðallega sú að ég gæti hér með tekið reglulega myndir af dóttur minni - frá upphafi. Sú tilhugsun var ákaflega mikið í anda jólanna og veitti ég rausnarlegri gjöf viðtöku í þeim anda (annars hefði mér reynst erfitt að þiggja svo stóra og dýra gjöf). Við eigum sannarlega eftir að mynda hana í bak og fyrir. Reyndar vorum við byrjuð á því. Ég mætti semsagt með gamaldags filmuvél upp á fæðingardeild og það gekk mjög vel. Ég hætti eflaust ekki í þeim bransa en þar sem filmuframköllun er rándýr (tvær filmur = 4000 kall) ákvað ég að notast við stafræna vél í bland. Skólinn lánaði mér eina slíka í fríinu (þau fá þá að fylgjast með í leiðinni). Það vill svo skemmtilega til að vél skólans er í sömu framleiðslulínu og sú sem ég fékk, bara eldri útgáfa. Ég get því brattur byrjað að taka myndir á þess nýju. Í leiðinni hlakka ég óneitanlega til að skreyta bloggið og heimasíður mínar með ljósmyndum á næstu misserum.

mánudagur, desember 26, 2005

Daglegt líf: Jólaboð með litlu jóladísinni

Vonandi eru lesendur bloggsins búnir að hafa það náðugt um jólin enda nóg fyrir þeim haft. Við Vigdís upplifðum sannarlega óvenjuleg jól enda var athygli allra á litlu stúlkunni okkar. Bæði hún og Vigdís höfðu ekki farið út úr húsi síðan við komum heim þann sextánda og þangað til við höfðum okkur upp í Breiðholt á aðfangadag. Þar tókum við upp pakka og borðuðum jólamat ásamt foreldrum mínum og tveimur systkinum (og börnum). Í gær og í dag fórum við í tvö önnur jólaboð. Á jóladag var það til mömmu Vigdísar og systkina en í dag til pabba hennar og fjölskyldu. Þetta var því mikil maraþontörn sem við fórum í gegnum á þessum þremur dögum. Það var náttúrulega talsverð fyrirhöfn að undirbúa dóttur okkar í hvert skipti en það var vel þess virði því hún var öllum mikill gleðigjafi. Mest allan tímann svaf hún vært eða teygði úr sér og opnaði á meðan annað augað stöku sinnum. Brosti svo inn á við í einskærri vellíðan. Menn höfðu það stöðugt á orði að hún ætti eftir að vera rólyndisstúlka. Við vonum svo sannarlega að það gangi eftir enda ekkert nema friður og ró í kringum hana enn sem komið er.

fimmtudagur, desember 22, 2005

Pæling: Fyrsta raunverulega "eignin"

Vigdís var upptekin við að gefa dóttur okkar að drekka. Ég sat álengdar og forvitnaðist: "Tekur hún eitthvað?" Hún er nefnilega tiltölulega nýfarin að gera móðurmjólkinni góð skil og fyrstu dagana höfðum við svolitlar áhyggjur af því hvað hún drakk lítið. Vigdís svaraði spurningu minni á nokkuð tyrfinn hátt: "Hún tekur það sem hún á". Ég veit raunar ekki almennilega hvað hún meinti með þessu svari en eftir nokkra umhugsun áttaði ég mig á því að hún hefði ekki getað svarað þessu betur. Móðurmjólkin er í rauninni það eina í þessum heimi sem tilheyrir barninu og engum öðrum. Hún er til staðar einungis til að svala þorsta barnsins og er því fyrsta raunverulega "eign" barnsins. Í ljósi þess er svolítið skrýtið að tala um að móðirin sé stöðugt að "gefa og gefa" á brjósti. Hvernig getur móðirin gefið það sem þiggjandinn þegar á? Eflaust finnst okkur að mjólkin tilheyri móðurinni af því hún er staðsett inni í henni. Ég er hins vegar á því að það gefi athöfninni öllu dýpri merkingu ef tungutakið tekur mið af tilgangi mjólkurinnar frekar en staðsetningu.

Ef maður heldur áfram á þessari braut mætti reyndar allt eins halda því fram að móðirin, eins og hún leggur sig, og reyndar foreldrarnir báðir, séu fyrst og fremst til staðar fyrir barnið. Tilgangur foreldranna var að geta þetta barn. Við tilheyrum því afkomendum okkar, en ekki öfugt. Í því felst kannski meginmunurinn á ábyrgð og eign.

mánudagur, desember 19, 2005

Sjónvarpið: Flóðafólkið

Ég sat í kvöld með litlu dóttur okkar Vigdísar í fanginu og horfði á áhrifamikla heimildamynd um eftirlifendur hamfaranna í Acheh-héraði í Indónesíu. Lítið var staldrað við sjálfan hamfaradaginn en í staðinn var eftirleikurinn skoðaður þeim mun betur. Athyglisvert var að fylgjast með fólki reyna eftir fremsta megni að þrauka andlega, reyna að byggja upp nýtt líf á rústunum (einn bjó í hálfu húsi á meðan annar sat uppi með skipsflak í þakinu). Í þættinum var einnig var gaumgæfilega farið í saumana á friðarferli stríðandi aðila í fjallahéruðunum (sem í þrjá áratugi hafa barist fyrir sjálfstæði Acheh frá yfirvöldum í Djakarta). Einn hermaðurinn var sérstaklega í brennidepli þar hann hafði verið við víglínuna frá upphafi stríðsins, síðan hann var þrettán ára. Hann fylgdist gaumgæfilega með friðarferlinu gegnum konu sína sem vann á akri í frjósömum dalnum. Þau notuðu til samskiptanna nákvæmlega eins GSM-síma og við Vigdís eigum (þetta er lítill Nokia-heimur). Samningaviðræður eru sem sagt að nást í gegn, einhvers staðar í Finnlandi, á meðan okkar maður berst enn fyrir málstaðnum í fjallahéruðunum, en vonast ásamt konu sinni eftir friði. Nokkrum dögum fyrir undirskriftina verður hann svo fyrir banvænni byssukúlu. Þessar hörmungar horfði ég á gaumgæfilega og dóttur mína til skiptis og fannst mjög átakanlegt að upplifa hvað það getur verið stutt öfganna á milli.

laugardagur, desember 17, 2005

Fréttnæmt: Heimkoman

Nú er litla fjölskyldan loksins komin heim í fyrsta skipti eftir rúmlega þriggja sólarhringa dvöl á spítalanum. Ég var náttúrulega sjálfur heima allar nætur og vann þar að auki í skólanum fram yfir hádegi (tek ekki frí fyrr en eftir áramót enda stutt í jólafrí hvort eð er). Ég eyddi því kvöldunum eins og þau lögðu sig með Vigdísi og litlu dömunni (sem er svo óskaplega pen og kurteis og lítil). Þetta er auðvitað búið að vera mjög lýjandi tími. Ég er reyndar svo heppinn að hafa getað sofið vel á nóttunni en hins vegar hef ég ekkert hvílst á daginn og er líkamlega mjög lúinn eftir langar stöður (var um tíma með ferlega strengi upp eftir fótleggjunum aftanverðum). Ég get þó varla ímyndað mér hversu þreytt Vigdís hlýtur að vera eftir þessa þrekraun sem fæðingin er, þennan blóðmissi sem fylgir henni, háan blóðþrýsting, stöðugar undirliggjandi áhyggjur og allt of grunnan og óreglulegan svefn (meðal annars vegna umgangs). Það fór reyndar að öðru leyti vel um Vigdísi og litlu dömuna okkar enda starfsfólk deildarinnar ákaflega alúðlegt og hjálplegt. Hún upplifði sig í mjög traustum og öruggum höndum. Engu að síður hafði Vigdís sofið frekar illa og var heimkoman því nokkuð langþráð.

Einmitt núna finnst mér því tímabært að þakka öllum fyrir hvatningarorðin og góðu hugsanirnar sem okkur hafa borist, bæði hér á síðunni og annars staðar. Við erum fyrst núna, um það bil sólarhring eftir heimkomu, að ná áttum. Það er svo ótrúlega auðvelt að gleyma að borða og hvílast þegar lífið umturnast á skammri stundu. Við höfum nú hvílst mjög vel heima, þrátt fyrir að hafa þurft að vaka hálfa fyrstu nóttina, enda ákváðum við strax við heimkomu að fresta öllum gestakomum um sinn og sinna okkur sjálfum eins vel og við gátum. Á morgun, sunnudag, megum við líklega eiga von á allra nánustu aðstandendum í stutt innlit. Fljótlega eftir helgi getum við síðan farið að taka markvisst á móti öðrum vinum og vandamönnum, ef allt gengur áfram að óskum.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Fréttnæmt: Fæðing

Eftir langa og erfiða nótt (þann þrettánda desember) fæddist dóttir okkar klukkan fjórtán mínútur í átta. Fæðingin gekk hægt fyrir sig lengst af, með tilheyrandi verkjum, en eftir skilvirka mænurótardeyfingu um sexleytið fóru hlutirnir að gerast hraðar. Sjálf fæðingin gekk hratt fyrir sig undir það síðasta. Litla krílið vældi ámátlega en blíðlega, gjóaði augunum í kringum sig og virtist síðan líða bara vel. Hún kom vel út úr helstu prófunum hjá fæðingarlækni og virðist vera heilbrigð. Að sögn Vigdísar er hún talsvert líkari mér og það er ekki laust við að ég kannist við ættarsvipinn hjá litlu dömunni. Vigdísi tókst að setja hana fljótlega á brjóst og virtist sú litla kunna ágætlega til verka eftir svolitlar þreifingar. Ég tók mig hins vegar til og klæddi hana í föt og tókst það ágætlega.

Þyngd: 2870 g.
Hæð: 47,5 sm.
(ca. 11 til 12 merkur)

Ég fór heim í dag rétt fyrir hádegi og sofnaði værum blundi (og leyfði mér að taka alla síma úr sambandi). Rumskaði ekki fyrr en um sexleytið og það kom mér talsvert á óvart hvað ég hafði sofið. Þá var búinn að vera þó nokkur gestagangur hjá Vigdísi og fólk farið að undrast um mig. Ég var því með seinni skipunum þegar ég kom aftur upp á deild en var í staðinn með mæðgunum fram eftir kvöldi. Það virðist fara vel um þær báðar þegar ég yfirgaf þær með semingi rétt fyrir ellefu.

mánudagur, desember 12, 2005

Fréttnæmt: Fæðing er farin af stað

Við Vigdís kíktum til ljósmóðurinnar upp úr hádegi í dag. Vigdísi hafði liðið mjög vel frá því við kíktum til hennar síðast. Núna kom ljósan hins vegar einbeitt til baka með þvagsýnið hennar því þar hafði greinst mikil eggjahvíta, sem er einn af mögulegum undanförum fæðingar. Við rétt höfðum ráðrúm til að skjótast heim en snöruðumst þaðan beint á meðgöngudeild. Eftir nánari skoðun og alls kyns sýni, og frekar stutta legu, er orðið nokkuð ljóst að héðan munum við ekki fara tvö ein.

laugardagur, desember 10, 2005

Matur: Jólahlaðborð hins lifandi manns

Í dag snæddum við Vigdís ásamt tengdó af jólahlaðborði Lifandi manns, eða "Maður lifandi" eins og staðurinn heitir. Það kom mér á óvart að þau skyldu bjóða upp á fisk og kjöt, en það var hvort tveggja lífrænt ræktað og svolítið öðruvísi (grafið lamb, marineraður fiskur og svoleiðis). Megnið af krásunum var hins vegar grænmeti. Ekki bara baunir. Fyrir tæpar 3000 kr. get ég ekki annað en mælt með þessu (sérstaklega á laugardagseftirmiðdegi þannig að maður getur borðað fyrir daginn). Ég spái því hér sé á ferðinni hefð í uppsiglingu.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Matur: Bökunarhagræðing

Eftir baksturinn um síðustu helgi hefur litla eldhúsið okkar verið undirlagt alls kyns hráefni til baksturs á borð við hveiti, sykur, kakó, kókosmjöl, ýmsa dropa, hnetupoka og fjölda kryddegunda. Ástæðan er sú að ég ætlaði mér alltaf að bæta tveimur áhugaverðum tegundum við sarpinn og vissi að ef ég myndi ganga frá öllu þessu dóti áður en að því kæmi væru ansi góðar líkur á að ég myndi aldrei láta slag standa. Ég ímyndaði mér að eitthvert kvöldið í vikunni gæti nýst vel til að hrista þetta fram úr erminni. Þegar á reyndi nennti ég hins vegar engan veginn að sinna þessu á kvöldin eftir vinnu og hafði hreinlega ekki "lyst" á því, hálf syfjaður og saddur, að hafa bökunarlykt í íbúðinni rétt fyrir svefninn. Ég var orðinn þreyttur á að horfa upp á þetta "ókláraða verkefni" mæna á mig í hvert skipti sem ég gekk fram hjá eldhúsinu þannig að setti ég mér afarkosti. Annað hvort myndi ég baka þessar tvær sortir í kvöld (og ganga frá í kjölfarið) eða ég myndi einfaldlega ganga frá öllu óbökuðu og sjá svo til seinna með framhaldið. Lendingin var hins vegar einhvers konar málamiðlun milli þessara möguleika sem á óvæntan hátt opnaði mér nýja sýn. Hvers vegna ekki að ganga frá því sem ég ætla ekki að nota og skilja hitt eftir? Eða, ef maður gengur örlítið lengra, hvers vegna ekki að skoða uppskriftirnar núna og sjá hvort ég gæti ekki hent öllum þurrefnunum í sitt hvort lokaða ílátið og þannig gengið frá öllu? Þessi lending þótti mér algjört afbragð. Hveitinu, sykrinum, kakóinu, kryddtegundunum og öllu því sem ekki hét mjólk, egg, vanilludropar eða smjör setti ég í ísbox, lokaði og geymdi áfram eins og hvert annað þurrefni. Ég sá í hendi mér hversu auðvelt það yrði seinna meir, með þessari aðferð, að "henda í" nokkrar hrærur um leið og maður sér uppskriftina og geyma jafnvel dögum saman (rétt eins og hvert annað þurrefni) og taka ekki fram fyrr en á hentugum bökunardegi. Þessi hagræðing fannst mér á lúmskan hátt mjög hvetjandi.

Pæling: Líkamsklukka tamin

Enn er allt tíðindalaust af Vestur(-bæjar)vígstöðvunum. Ég kom dasaður heim úr vinnu í ljúft atlætið heima við, borðaði eitthvað létt og steinsofnaði svo tiltölulega fljótt yfir sjónvarpinu. Mér skilst að ég hafi meira að segja hrotið um stund. Þetta er þá þriðji dagurinn í röð sem ég sofna svona vært um miðjan daginn og vakna endurnærður tuttugu mínútum seinna eins og ekkert hafi í skorist. Það er ólíkt mér. Yfirleitt er ég ómögulegur eftir svona kríu og berst því við syfjuna með einhverjum hætti, jafnvel þó ég þurfi að hrista hana af mér skokkandi um nágrennið. Mér finnst ég ekkert vera neitt óvenju þreyttur þannig að þessi nýja svefnrútína kemur svolítið flatt upp á mig. Mér dettur eiginlega helst í hug að einhvers staðar undir niðri sé ég farinn að búa mig undir nýja svefnrútinu, að geta sofnað auðveldlega hvenær sem tækifæri gefst. Nýbakaðir foreldrar eru víst oftar en ekki ósofnir langtímum saman. Vigdís er vön vaktavinnu og því að næla sér í kríu hvenær sem er. Viðbrigðin fyrir mig við að vaka heilu og hálfu næturnar og þurfa svo að sofa á daginn yrði líklega meiri fyrir mig. Nema undirmeðvitundin nái að stilla og temja líkamsklukkuna með góðum fyrirvara, eins og mig grunar að sé að gerast.

mánudagur, desember 05, 2005

Sjónvarpið: Plitvice-þjóðgarðurinn

Í kvöld var sýndur í Ríkissjónvarpinu fræðsluþáttur um Plitvice-þjóðgarðinn sem staðsettur er einhvers staðar í norðurhluta fyrrum Júgóslavíu. Þetta var mjög flottur þáttur um ótrúlega heillandi landssvæði á jaðri álfunnar okkar. Þar finnst óvenju fjölbreytt dýralíf (skógarbirnir, gaupur, gráúlfar, villisvín og fiskotrar svo maður nefni helstu spendýr). Jarðfræðin er hins vegar algerlega einstök með skógi vöxnu stallalandslagi þar sem kalkvötn fossa hvert ofan í annað. Þátturinn var mér talsverð opinberun því þetta svæði hafði ég aldrei heyrt nefnt á nafn. Ég held að Plitvice sé frekar lítt þekkt svæði utan Balkanskaga enda reyndust heimildir um hann vera af afskaplega skornum skammti. Ég fann þó fyrir rest eina vandaða heimasíðu.

Daglegt líf: Litlu jólin 2005

Við héldum uppteknum hætti í gær og færðum heimili okkar í enn frekari jólabúning. Í þetta skiptið snerist umstangið um jólalykt og nett matarboð. Vigdís óttaðist nefnilega að fá ekki tækifæri til að borða hangikjöt þessi jólin (sem er víst lítið sniðugt á meðan brjóstagjöf stendur yfir) svo hún hristi fram úr erminni eitt lítið og nett jólaboð. Hangikjöt var soðið dágóða stund á meðan ég keypti, sauð og skrældi kartöflur. Sirrý tengdó bjó til hvítan jafning. Við þrjú hjálpuðumst að en fleiri kíktu í heimsókn og ýmist önduðu að sér jólunum eða tóku til matar síns. Minnti mann á litlu jólin, eins og þau eru haldin í skólum landsins. Ég sting upp á þessu sem hefð fyrir komandi fjölskylduár. Um að gera að teygja aðventuna svolítið.

Í dag kíktum við Vigdís til ljósunnar og allt virðist vera með felldu. Stúlkan er eitthvað að reyna að skorða sig en nær því líklega frekar illa þar sem hún flýtur í svo myndarlegri "sundlaug", eins og þær kölluðu það. Hún vonaðist til þess að fæðing gengi í garð fyrir jól en benti okkur þó á að taka því rólega fram að næstu helgi. Fram að þeim tíma myndi dóttir okkar vera meðhöndluð með aukinni varfærni, þó svo að allt líti mjög vel út. Sjáum hvað setur. Kannski eigum við drjúga viku eftir. Að minnsta kosti virðist Vigdísi líða mjög vel þessa stundina.

Við fórum eftir þessa heimsókn niður í bæ og keyptum okkur mat á "Næstu grösum", svona til að vega upp á móti saltinu í gær. Vigdís er sérlega viðkvæm þessa dagana og taldi sig sjá skýran mun á bjúgmyndun eftir matarboðið. Ég er að sama skapi lítið hrifinn af kjöti (enda lét ég aðeins upp í mig þunna flís á móti meðlætinu) og hafði því líka geysilega gott af heilsufæðinu. Eftir gómsæta magafylli færðist yfir okkur þessi líka mikla værð og um miðjan dag sofnuðum við mjúklega út frá þægilegri hugleiðslutónlist. Þar með hafði læknisráðinu um hvíld verið framfylgt mjög samviskusamlega.

laugardagur, desember 03, 2005

Matur: Maraþon smákökubakstur

Í dag eyddum við Vigdís kvöldinu heima hjá okkur í félagsskap Bjarts og Jóhönnu (ásamt Friðriki litla). Hugmyndin var að hafa það huggulegt saman og baka smákökur, sem tókst með ágætum. Okkur tókst, með öðrum orðum, að baka fjórar sortir en gátum samt gefið okkur tíma til að panta pítsur og horfa á fréttir saman á milli sorta. Þar sem fjórar sortir eru frekar mikið nú til dags finn ég mig knúinn til að greina frá því hvað það var sem gerði gæfumuninn í þrönga eldhúsinu okkar í Granaskjólinu. Í fyrsta lagi ákváðum við að hafa vaktaskipti þannig að tveir til þrír slökuðu á í stofunni á meðan restin af mannskapnum renndi í nýja skúffu. Oftast þurfti ekki nema einn í einu til að sinna úttektunum, eins og við kölluðum ofnskammtana. Þær Vigdís og Jóhanna höfðu um margt að ræða enda barneignir allsráðandi á báðum bæjum þessi misserin. Við Bjartur tókum því að okkur eldhússtörfin og hituðum kjallaraíbúðina með ofninum þar sem hann var opnaður í sífellu. Hitt atriðið sem ég vil gjarnan greina frá sem úrslitahagræðingu í þessum vel heppnaða jólabakstri er að gestir okkar mættu nefnilega með heimatilbúið deig fyrir tvær sortir. Þær runnu því löðurmannlega gegnum ofnskúffuna á meðan fyrirhafnarlítið var hrært í hinar. Hagræðingin mæltist ákaflega vel fyrir og var stefnt á að hafa sama háttinn á að ári ef sams konar bakstur ber að höndum, jafnvel hafa allt deig tilbúið fyrirfram og hafa það svo náðugt í jólalyktinni.

Nú bjóðum við sem sagt upp á jólasmákökur og með'ðí á aðventunni, - fyrir þá sem eiga leið hjá: piparkökur, spesíur, hnetusúkkulaðismákökur (Gestgj. 11/2004) og döðludrauma (Mbl-matarsérrit 5/2005). Þær tvær síðastnefndu eru óhefðbundari en spesíurnar og piparkökurnar, en einnig í hollari kantinum, enda báðar úr haframjölsdeildinni. Önnur er bragðbætt með sykri, döðlum og kókosmjöli en hin með dökku súkkulaði, grófu hnetusmjöri og þykku sýrópi. Eftir þessu hnossgæti er þess virði að falast. Sá sem á heima í útjaðri Reykvískrar byggðar og á af þeim sökum nokkuð erfitt með að keyra vestur fyrir KR-völl þarf hins vegar ekki að örvænta. Í Hafnarfirðinum má finna nákvæmlega eins kökur :-P (sleikjútumkall). Gleðilega aðventu.

fimmtudagur, desember 01, 2005

Fréttnæmt: Meðgöngukvillar magnast upp

Ég rumskaði af ákaflega værum svefni um tvöleytið í nótt og fann að Vigdís var eitthvað að brölta. Hún bar sig aumlega og kvartaði undan sárum verki. Legið var óvenju hart og barnið hreyfði sig alls ekki neitt. Í svefnrofunum fór ég að kynna mér lýsingar á þessum kvillum á netinu. Við höfðum af þessu talsverðar áhyggjur og til greina kom að hringja strax upp á spítala og bera stöðuna undir sérfræðinga. Hins vegar sjatnaði sársaukinn örlítið með tímanum og Vigdísi fannst hún verða vör við lítilsháttar hreyfingar, sem var sannarlega huggandi tilhugsun, svo við ákváðum að hvíla okkur aftur eftir um tveggja tíma andvöku. Um tveimur tímum síðar finn ég hins vegar að hún er aftur vöknuð og er sárþjáð. Klukkan var rúmlega sex og þetta virtist ekkert vera að batna svo við brunuðum beint upp eftir í læknisskoðun. Þar undirgekkst Vigdís ýmsar prófanir, blóðprufu, sírita og ómskoðun. Ekkert grunsamlegt kom í ljós. Allt benti til þess að ýmsir fylgikvillar meðgöngunnar hafi þarna lagst á eitt með sársaukafullum afleiðingum en án þess að gera neinn skaða. Eftir þriggja tíma dvöl á litlu hljóðlátu herbergi og samskipti við tvo lækna ásamt jafnmörgum ljósmæðrum (við komum einmitt rétt fyrir vaktaskipti að morgni) fórum við heim og sváfum úr okkur áhyggjufulla nóttina. Ég mætti sem sagt ekkert til vinnu þann daginn. Seinna um daginn þurftum við svo að koma aftur í tékk til að tryggja að allt líti áfram eðlilega út. Það má því segja að dagurinn hafi byrjað snemma í nótt og hafi allt að kvöldmat verið undirlagður umstangi, áhyggjum, svefnleysi og að því er virðist verulegum sársauka í tengslum við meðgönguna. Þetta er væntanlega forsmekkurinn að því sem við komum til með að upplifa eftir um það bil mánuð. Það jákvæða við þetta allt saman er að við fengum að sjá litlu stúlkuna okkar í óskýru gömlu sónartæki, kynntumst deildinni svolítið og áttum afar jákvæð og traust samskipti við fjöldann allan af fólki á fæðingardeildinni. Við erum meira að segja byrjuð að leggja nöfnin á minnið.

Athugasemd: Skilnaðarþátturinn "Nei"

Í Fréttablaðinu í dag birtist óborganleg grein Þórarins Þórarinssonar þar sem hann tjáir sig á sérstaklega lipran og beinskeyttan hátt um viðhorf sitt til raunveruleikaþátta undir yfirskriftinni "Við tækið: Skilnaðarþátturinn Nei" (bls. 56). Hann nær utan um innihald þessa sjónvarpsefnis með hugtakinu "tilfinningaklám" og byrjar umfjöllinina á Piparsveininum (Bachelor-num). Þar gera blessaðir þátttakendurnir gera sig "skælbrosandi að hórkörlum og -kerlingum í hverri viku". Síðan vindur hann sér í sama hug að Brúðkaupsþættinum "Já" þar sem hundruðum þúsunda er sólundað í "leiksýningu sem verður merkingarlaus innan nokkurra mánaða eða ára þegar grámyglulegur hversdagsleikinn hefur skolað burt undirstöðum ástarinnar og hjónabandsins". Að lokum stingur hann upp á bitastæðara efni: Skilnaðarþættinum "Nei" sem hann gefur í skyn að gæti orðið almennilegt drama í ótal mörgum þáttum þar sem deilurnar og átökin ná sífellt nýjum hæðum. Manni bregður svolítið við að lesa þennan kalda pistil en hann er snilldarlega skrifaður og því miður óneitanlega raunsær.