þriðjudagur, desember 27, 2005

Fréttnæmt: Vigtunarsaga

Ljósan kom í heimsókn til okkar í dag og staðfesti að sú litla væri mikið að þyngjast. Þetta eru afar ánægjuleg tíðindi fyrir okkur Vigdísi því það má segja að mest öll okkar athygli og umstang undanfarnar tvær vikur hafi farið í að tryggja það að dóttir okkar nærist vel þannig að öll líkamsstarfssemin fari almennilega af stað, svo að segja. Eins og þeir vita sem lesið hafa bloggið að undanförnu þá fæddist dóttir okkar nokkuð fyrir tímann og hafði undirgengist meðgöngueitrun (sem þýðir að hún þurfti að þola skert næringarflæði undir það síðasta). Hún var því bæði frekar lítil og skorti þennan veglega fituforða sem flest börn fæðast með. Rúmlega ellefu merkur.

2870 gr.

Síðan byrjaði hún á því að léttast, eins og börn gera fyrst í stað. Þau fæðast víst öll með litla sem enga matarlyst og nærast fyrst og fremst á eigin forða í nokkra daga og léttast því óhjákvæmilega. Það er ekki fyrr en á tíunda degi sem reikna megi með því að börn nái fæðingarþyngd sinni aftur (og stækki hratt í kjölfarið). Þegar við útskrifuðumst (á fjórða degi) var hún vigtuð öðru sinni.

2655 gr.

Þetta leit ekkert illa út svo sem en okkur fannst hún hins vegar óþægilega lystarlítil dagana eftir heimkomu. Fyrsta sólarhringinn drakk hún nánast ekkert og við gerðum okkar ítrasta til að smygla nokkrum dropum af tilbúinni mjólk úr apótekinu með hjálp plastskeiðar, bara til að hún fengi einhverja næringu. Það sem vakti meiri áhyggjur var það að hún skilaði nánast engu þvagi í bleiurnar sínar, hvað þá kúk. Það var merki um að hún væri einfaldlega ekki að fá það sem hún þurfti. En þetta skánaði sem betur fer örlítið á öðrum og þriðja degi. Hún fór þá að líta við móðurmjólkinni, en stopult. Þegar ljósan kom í sína fyrstu heimsókn til okkar, viku eftir fæðingu (20. des.) var hún vigtuð aftur.

2750 gr.

Hún var semsagt að þyngjast þrátt fyrir allt. Okkur létti talsvert við þetta. Síðan hefur leiðin verið upp á við. Sú litla virðist um þetta leyti hafa komist yfir byrjunarörðugleikana og náð að átta sig á hvernig hún þarf sjálf að bera sig eftir björginni. Hún sótti dag frá degi af sífellt meiri krafti í mjólkina góðu. Hugsanlega fór jólamaturin svona vel í hana, maður veit það svo sem ekki, en hún var farin að þamba daginn út og inn, á milli þess sem hún svaf vært. Síðan á aðfangadag hefur meira að segja borið á lítilli krúttlegri undirhöku þar sem áður var magur hálsinn. Núna vorum við Vigdís orðin spennt fyrir fá úr því skorið hvort hún væri loksins komin yfir fæðingarþyngdina því í dag kom ljósan öðru sinni í heimsókn. Hún skilaði nýrri og skýrri niðurstöðu.

3000 gr.

Þar með er dóttir okkar formlega komin á næsta stig vaxtaskeiðsins. Hún þarf ekki lengur að vera í sömu "gjörgæslu" og hingað til, ef svo má að orði komast. Við þurfum ekki að vekja hana lengur sérstaklega og samviskusamlega á 2-3ja tíma fresti allan sólarhringinn til að fylgjast með þvaglosun og gefa henni að drekka. Hún má fara að kalla á eftir mjólkinni sjálf og drekka nokkurn veginn eins og henni lystir í hvert skipti. Það eru mikil þægindi í því. Nú má búast við að hún fari að stækka markvisst og hratt enda eru allra minnstu fötin eru þegar orðin of lítil.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er gott að heyra að sú litla er farin að þyngjast, ég skil vel að ykkur sé létt við það.

Það er ekki aðeins gott fyrir hana sjálfa heldur einnig fyrir ykkur. Áhyggjurnar og það að þurfa að vekja barnið á þriggja tíma fresti hljóta að hafa verið ansi lýjandi.