miðvikudagur, desember 07, 2005

Matur: Bökunarhagræðing

Eftir baksturinn um síðustu helgi hefur litla eldhúsið okkar verið undirlagt alls kyns hráefni til baksturs á borð við hveiti, sykur, kakó, kókosmjöl, ýmsa dropa, hnetupoka og fjölda kryddegunda. Ástæðan er sú að ég ætlaði mér alltaf að bæta tveimur áhugaverðum tegundum við sarpinn og vissi að ef ég myndi ganga frá öllu þessu dóti áður en að því kæmi væru ansi góðar líkur á að ég myndi aldrei láta slag standa. Ég ímyndaði mér að eitthvert kvöldið í vikunni gæti nýst vel til að hrista þetta fram úr erminni. Þegar á reyndi nennti ég hins vegar engan veginn að sinna þessu á kvöldin eftir vinnu og hafði hreinlega ekki "lyst" á því, hálf syfjaður og saddur, að hafa bökunarlykt í íbúðinni rétt fyrir svefninn. Ég var orðinn þreyttur á að horfa upp á þetta "ókláraða verkefni" mæna á mig í hvert skipti sem ég gekk fram hjá eldhúsinu þannig að setti ég mér afarkosti. Annað hvort myndi ég baka þessar tvær sortir í kvöld (og ganga frá í kjölfarið) eða ég myndi einfaldlega ganga frá öllu óbökuðu og sjá svo til seinna með framhaldið. Lendingin var hins vegar einhvers konar málamiðlun milli þessara möguleika sem á óvæntan hátt opnaði mér nýja sýn. Hvers vegna ekki að ganga frá því sem ég ætla ekki að nota og skilja hitt eftir? Eða, ef maður gengur örlítið lengra, hvers vegna ekki að skoða uppskriftirnar núna og sjá hvort ég gæti ekki hent öllum þurrefnunum í sitt hvort lokaða ílátið og þannig gengið frá öllu? Þessi lending þótti mér algjört afbragð. Hveitinu, sykrinum, kakóinu, kryddtegundunum og öllu því sem ekki hét mjólk, egg, vanilludropar eða smjör setti ég í ísbox, lokaði og geymdi áfram eins og hvert annað þurrefni. Ég sá í hendi mér hversu auðvelt það yrði seinna meir, með þessari aðferð, að "henda í" nokkrar hrærur um leið og maður sér uppskriftina og geyma jafnvel dögum saman (rétt eins og hvert annað þurrefni) og taka ekki fram fyrr en á hentugum bökunardegi. Þessi hagræðing fannst mér á lúmskan hátt mjög hvetjandi.

Engin ummæli: