þriðjudagur, desember 27, 2005

Fréttnæmt: Stafræn myndavél

Öll tókum við upp pakka um jólin. Við Vigdís tókum upp fleiri pakka fyrir hönd dóttur okkar en til okkar sjálfra, sem við var að búast, enda snúast jólagjafirnar að mestu um þau yngstu. Það varðar hins vegar þessi bloggskrif mín að mér áskotnaðist svakalega fín stafræn myndavél (Sony DSC-T5). Réttlætingin fyrir þeirri gjöf var aðallega sú að ég gæti hér með tekið reglulega myndir af dóttur minni - frá upphafi. Sú tilhugsun var ákaflega mikið í anda jólanna og veitti ég rausnarlegri gjöf viðtöku í þeim anda (annars hefði mér reynst erfitt að þiggja svo stóra og dýra gjöf). Við eigum sannarlega eftir að mynda hana í bak og fyrir. Reyndar vorum við byrjuð á því. Ég mætti semsagt með gamaldags filmuvél upp á fæðingardeild og það gekk mjög vel. Ég hætti eflaust ekki í þeim bransa en þar sem filmuframköllun er rándýr (tvær filmur = 4000 kall) ákvað ég að notast við stafræna vél í bland. Skólinn lánaði mér eina slíka í fríinu (þau fá þá að fylgjast með í leiðinni). Það vill svo skemmtilega til að vél skólans er í sömu framleiðslulínu og sú sem ég fékk, bara eldri útgáfa. Ég get því brattur byrjað að taka myndir á þess nýju. Í leiðinni hlakka ég óneitanlega til að skreyta bloggið og heimasíður mínar með ljósmyndum á næstu misserum.

Engin ummæli: