Vigdís var upptekin við að gefa dóttur okkar að drekka. Ég sat álengdar og forvitnaðist: "Tekur hún eitthvað?" Hún er nefnilega tiltölulega nýfarin að gera móðurmjólkinni góð skil og fyrstu dagana höfðum við svolitlar áhyggjur af því hvað hún drakk lítið. Vigdís svaraði spurningu minni á nokkuð tyrfinn hátt: "Hún tekur það sem hún á". Ég veit raunar ekki almennilega hvað hún meinti með þessu svari en eftir nokkra umhugsun áttaði ég mig á því að hún hefði ekki getað svarað þessu betur. Móðurmjólkin er í rauninni það eina í þessum heimi sem tilheyrir barninu og engum öðrum. Hún er til staðar einungis til að svala þorsta barnsins og er því fyrsta raunverulega "eign" barnsins. Í ljósi þess er svolítið skrýtið að tala um að móðirin sé stöðugt að "gefa og gefa" á brjósti. Hvernig getur móðirin gefið það sem þiggjandinn þegar á? Eflaust finnst okkur að mjólkin tilheyri móðurinni af því hún er staðsett inni í henni. Ég er hins vegar á því að það gefi athöfninni öllu dýpri merkingu ef tungutakið tekur mið af tilgangi mjólkurinnar frekar en staðsetningu.
Ef maður heldur áfram á þessari braut mætti reyndar allt eins halda því fram að móðirin, eins og hún leggur sig, og reyndar foreldrarnir báðir, séu fyrst og fremst til staðar fyrir barnið. Tilgangur foreldranna var að geta þetta barn. Við tilheyrum því afkomendum okkar, en ekki öfugt. Í því felst kannski meginmunurinn á ábyrgð og eign.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli