Nú fer að líða að áramótum. Í leiðinni rennur upp dagurinn sem upprunalega var áætlaður fyrir fæðinguna. Við erum enn á mínus-tíma, svo að segja. Þó það skipti engu máli eftir um það bil ár hefur það eitthvað að segja þegar maður metur hreyfi- og skynþroska fyrstu vikurnar.
Við erum ákaflega sátt við tímasetninguna hjá þeirri litlu. Eftir á að hyggja bankaði hún upp á á besta hugsanlega tíma. Núna þegar áramótin eru að renna í gegn finnst mér tímabært að skoða fæðinguna aðeins í þessu samhengi.
1) Hún fæddist á Lúsíumessu, 13. desember. Sá dagur á sér skemmtilega sögu. Við Vigdís sjáum í hendi okkar hvernig aðventan kemur til með að markast af kertaljósum þann daginn ásamt piparkökum.
2) Tímasetningin 7.46 var hreint afbragð. Það væri gaman að geta vakið þá litlu á afmælisdaginn sinn akkúrat á fæðingarstundinni, um kortér í átta.
3) Hún fæddist nógu snemma í desember til að geta braggast fyrir jól og farið með okkur í boðin milli jóla og nýárs og haldið með okkur sín fyrstu jól (þó hún hafi sofið þau mestmegnis af sér).
4) Hún fæddist líka nógu seint til að við gætum undirbúið fæðinguna. Við vorum rétt nýbúin að kaupa allan þann búnað sem til þurfti, eins og skiptiborð og annað slíkt, þegar hún lét vita af sér.
5) Vegna aðstæðna í samfélaginu rétt eftir fæðingu (jólaerill) hentaði tímasetningin okkur sem fjölskyldu mjög vel. Tiltölulega fáir sáu sér þess kost að heimsækja okkur fyrr en eftir jól og við nutum fyrir vikið mjög friðsælla stunda saman þrjú fram að jólum. Það má segja að sú litla hafi þjófstartað jólunum okkar með tilheyrandi friði og ró.
6) Að lokum: Ef maður hugsar fram á við þá er það að halda afmæli ellefu daga fyrir jól bara nokkuð passlegt; þ.e.a.s. það rennur ekki saman við sjálf jólin. Hún gæti jafnvel náð í skottið á bekkjarfélögunum áður en skóla er slitið og náð að halda afmælisveislur eins og aðrir krakkar. Það hefði ekki getað gerst milli jóla og nýárs.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli