miðvikudagur, desember 07, 2005

Pæling: Líkamsklukka tamin

Enn er allt tíðindalaust af Vestur(-bæjar)vígstöðvunum. Ég kom dasaður heim úr vinnu í ljúft atlætið heima við, borðaði eitthvað létt og steinsofnaði svo tiltölulega fljótt yfir sjónvarpinu. Mér skilst að ég hafi meira að segja hrotið um stund. Þetta er þá þriðji dagurinn í röð sem ég sofna svona vært um miðjan daginn og vakna endurnærður tuttugu mínútum seinna eins og ekkert hafi í skorist. Það er ólíkt mér. Yfirleitt er ég ómögulegur eftir svona kríu og berst því við syfjuna með einhverjum hætti, jafnvel þó ég þurfi að hrista hana af mér skokkandi um nágrennið. Mér finnst ég ekkert vera neitt óvenju þreyttur þannig að þessi nýja svefnrútína kemur svolítið flatt upp á mig. Mér dettur eiginlega helst í hug að einhvers staðar undir niðri sé ég farinn að búa mig undir nýja svefnrútinu, að geta sofnað auðveldlega hvenær sem tækifæri gefst. Nýbakaðir foreldrar eru víst oftar en ekki ósofnir langtímum saman. Vigdís er vön vaktavinnu og því að næla sér í kríu hvenær sem er. Viðbrigðin fyrir mig við að vaka heilu og hálfu næturnar og þurfa svo að sofa á daginn yrði líklega meiri fyrir mig. Nema undirmeðvitundin nái að stilla og temja líkamsklukkuna með góðum fyrirvara, eins og mig grunar að sé að gerast.

Engin ummæli: