þriðjudagur, desember 13, 2005

Fréttnæmt: Fæðing

Eftir langa og erfiða nótt (þann þrettánda desember) fæddist dóttir okkar klukkan fjórtán mínútur í átta. Fæðingin gekk hægt fyrir sig lengst af, með tilheyrandi verkjum, en eftir skilvirka mænurótardeyfingu um sexleytið fóru hlutirnir að gerast hraðar. Sjálf fæðingin gekk hratt fyrir sig undir það síðasta. Litla krílið vældi ámátlega en blíðlega, gjóaði augunum í kringum sig og virtist síðan líða bara vel. Hún kom vel út úr helstu prófunum hjá fæðingarlækni og virðist vera heilbrigð. Að sögn Vigdísar er hún talsvert líkari mér og það er ekki laust við að ég kannist við ættarsvipinn hjá litlu dömunni. Vigdísi tókst að setja hana fljótlega á brjóst og virtist sú litla kunna ágætlega til verka eftir svolitlar þreifingar. Ég tók mig hins vegar til og klæddi hana í föt og tókst það ágætlega.

Þyngd: 2870 g.
Hæð: 47,5 sm.
(ca. 11 til 12 merkur)

Ég fór heim í dag rétt fyrir hádegi og sofnaði værum blundi (og leyfði mér að taka alla síma úr sambandi). Rumskaði ekki fyrr en um sexleytið og það kom mér talsvert á óvart hvað ég hafði sofið. Þá var búinn að vera þó nokkur gestagangur hjá Vigdísi og fólk farið að undrast um mig. Ég var því með seinni skipunum þegar ég kom aftur upp á deild en var í staðinn með mæðgunum fram eftir kvöldi. Það virðist fara vel um þær báðar þegar ég yfirgaf þær með semingi rétt fyrir ellefu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega til hamingju með litlu dóttirina Steini og Vigdís : )