miðvikudagur, október 27, 2010

Daglegt líf: Bangsar, spil og leikföng

Í morgun fóru Signý og Hugrún með bangsa í leikskólann í tilefni af hinum alþjóðlega bangsadegi (aldrei hafði ég heyrt minnst á hann áður). Signý fór með Albert bangsa (sem er mjög klassískur í útliti) en Hugrún tók með sér lemúrinn sinn (augnstórt tuskudýr, tæknilega séð ekki "bangsi" því hann er af apakyni, sem lengi vel gekk undir heitinu "ugla" þar til ég benti á að hann var með langt röndótt skott). Þeim fannst mjög gaman að fá að taka uppáhaldsbangsana sína með og Signý vildi endilega að ég kæmi því á framfæri við fóstrurnar að hún vildi fá að taka hann með sér alltaf.

Það vill svo sérkennilega til að dagurinn var einhvern veginn undirlagður þessu þema bernskunnar; bangsar, spilir og leikföng. Ég var einmitt í dag með fyrirlestur í vinnunni um spil og hvernig þau nýtast í kennslu. Í kjölfarið var ég með sýningu á námsgögnum í spilaformi ásamt vinnufélaga mínum, smíðakennaranum Bjarna, sem hefur með sinni færni náð að gera óljósar hugmyndir áþreifanlegri. Þetta eru sem sagt kennslugögn sem við höfum í samvinnu búið til á undanförnum árum. Í stuttu máli sagt gekk kynningin ákaflega vel og voru flestir á því að þetta væri mikil innspýting í kennslufyrirkomulagið þar á bæ.

Tímasetningin á þessari spilakynningu var tilviljun og kannski ekki svo merkileg sem slík. Hins vegar fór ég eftir vinnu hugsunarlaust á bókasafnið á Seltjarnarnesi (var bara á leiðinni út í búð) og tók tvær vídeóspólur fyrir Signýju og Hugrúnu (spólurnar getum við haft fram yfir helgi). Önnur þeirra var Toy Story ("Leikfangasaga"). Lengi hefur staðið til að sýna þeim þessa frægu teiknimynd en ég hef alltaf frestað því. En ég lét loksins verða af því í dag. Það var ekki fyrr en eftir á að ég áttaði mig á því að þetta bar akkúrat upp á bangsadaginn og fannst það vel við hæfi.

laugardagur, október 23, 2010

Gullmoli: Löggurnar í maganum

Nú þegar tölvumálin eru komin í eðlilegt horf get ég með lágmarks fyrirhöfn bloggað um hversdagslega hluti jafnóðum. Núna í morgun datt til dæmis gullmoli út úr munni Hugrúnar. Þær systur voru að horfa á Einu sinni var... lífið sem fjallar um líkamsstarfssemi mannsins. Umfjöllunarefnið er persónugert með þeim hætti að hvítu blóðkorninn eru her hvítklæddra vera og bakteríurnar eins konar innrásarher. Öll líkamsstarfsemin er sett undir þetta sama stækkunargler og sýnir þannig flókinn veruleikann á aðgengilegan hátt. Eða hvað? Signý spurði mig í morgun: "Pabbi, af hverju eru löggur í maganum?" Ég átta mig sjálfur oft ekkert á því sem er verið að útskýra í þáttunum og sýndi henni fullan skilning með því að reyna ekkert að útskýra það frekar. Sagði bara: "Þetta er bara grín" þannig að hún þyrfti ekkert að hafa áhyggjur af "löggunum í maganum". En þá fann Hugrún sig knúna til að útskýra þetta frekar: "Signý, það eru bara börn í maganum!".

þriðjudagur, október 19, 2010

Fréttnæmt: Ný tölva

Jæja, ég nú blogga ég af nýrri tölvu. Gerði mér lítið fyrir og keypti í gær eina netta Macbookfartölvu. Segi kannski ekki að ég hafi "gert mér lítið fyrir" því ég keypti mér notaða tölvu, þriggja ára gamla, á þriðjungsverði (miðað við nýja í dag). Var lengi með þetta í maganum. Ég lá yfir spjallsíðum Maclantic og fann þar þessa frábæru tölvu. Það er svo sem ekki hlaupið að því að kaupa hluti á þessum netmarkaði, áhættan er meiri að sjálfsögðu, svo ég setti það fram sem skilyrði að tölvan kæmist í gegnum "skoðun". Þeir hjá Apple bjóða upp á fría ástandsskoðun á tölvum eftir lokun á fimmtudögum. Frábær þjónusta hjá þeim. Tölvan reyndist pottþétt að mestu og aðeins smáræði sem þurfti að athuga. En Þvílíkur unaður að nota hana! Allt annað en borðtölvan. Þetta er svona eins og að bera saman skriðdreka og reiðhjól. Stundum þarf maður bara að fara út í búð, ef þið skiljið hvað ég á við, og þá er gott að eiga reiðhjól. Stóra borðtölvan mín mun áfram þjóna mér sem allsherjar "Jukebox" með sín hundruð gígabæti af tónlist. Einnig verður hún stórtæk sem gagnageymsla, ef til vill, og líklega notuð í ýmiss konar vinnslu (myndræna) og í að hýsa ljósmyndasafnið okkar. Hins vegar er þessi netta tölva notuð í allt þetta einfalda eins og að tékka á vefsíðum, skrifa tölvupóst og blogga. Nú hefur maður enga afsökun lengur. Á meðan hin tölvan fer í viðgerð (hún er enn mjög óáreiðanleg fyrir utan það að vera fyrirferðarmikil og hávær) get ég notið þess að "fúnkera" með þessa mér til halds og trausts. Þetta er ekkert annað en bylting fyrir allt heimilishaldið.

fimmtudagur, október 14, 2010

Daglegt líf: Friðarganga

Okkur varð starsýnt á forsíðu Fréttablaðsins í morgun. Þar mátti sjá "Friðargöngu" leikskólabarna þrammandi niður Skólavörðustíginn. Fremst í flokki fóru krakkar úr Vesturborg. Reyndar sést Signý ekki en þær Hugrún þekktu nokkra af vinum sínum. Hugrún vaknaði á undan Signýju og var fljót að nafngreina andlitin og sýndi svo Signýju sem pírði gegnum svefndrukkin augun. Þeim þótti þetta merkilegt, að sjálfsögðu. Ekki voru síðri viðbrögðin í leikskólanum sjálfum og nokkrir krakkar valhoppuðu af kæti.

Þau fór sem sagt í gær í þessa Friðargöngu og til marks um það kom Signý heim með föndrað skilti sem á stóð "Allir vinir". Sumir höfðu skrifað "Við viljum frið" og eitthvað í þeim dúrnum. Þegar við Signý komum yfir á deildina hennar Hugrúnar, með skiltið, vildi sú litla umsvifalaust eignast svona skilti líka. Hún varð mjög ósátt um stund. Ég veit ekki hvort Signý var að reyna að hugga systur sína þegar hún sagði við hana: "Stundum fæ ég frið frá þér".

Þetta má skilja á ýmsa vegu :-)

þriðjudagur, október 05, 2010

Netið: Landmælingar Íslands

Ég var að uppgötva frábæra síðu Landmælinga Íslands. Þar er gagnvirkt kort sem er stillanlegt á ýmsan máta. Það sem í fljótu bragði er praktískast við vefinn, og gerir hann umsvifalaust nothæfan fyrir mig frá degi til dags, er möguleikinn á að draga línu hvert sem er um kortið fá út reiknaðan þann fjölda kílómetra sem línan spannar. Frábært þegar maður vill átta sig á gönguleiðum og hlaupaleiðum í nágrenni við sig.

Upplifun: Heimildamyndir og hreyfimyndagerð

Hinni alþjóðlegu kvikmyndahátíð er nýlokið. Ekki var maður duglegur að sækja sýningar en fór þó á eina heimildarmynd í Norræna húsinu rétt fyrir helgi. Hún hét "Earth Keepers" og fjallar hún um leit fyrrum öfgafulls aðgerðarsinna að raunhæfum lausnum fyrir framtíð Jarðar. Hún er ólík flestum öðrum myndum um umhverfismál að því leyti að hún fyllir mann von frekar en örvæntingu. Margar lausnanna eru mjög áhugaverðar og einfaldar. Ekki meira um það hér (skoðið þó vefsíðuna). Hins vegar var einnig mjög áhugaverð barnamyndasýning Norræna hússins sem rúllaði daglega milli tvö og fjögur. Þetta var um það bil hálftíma prógramm (5 myndir) sem sýnt var stöðugt þannig að hver sem var gat komið hvenær sem er á þessum tíma og sest í hálftíma. Sniðugt fyrirkomulag sem vonandi verður eins að ári. Signý og Hugrún höfðu mjög gaman af þessu og kíktu svo niður í kjallara með mér þar sem kennd var hreyfimyndagerð (sem á ensku kallast "stop motion"). Sú kvikmyndagerð gengur þannig fyrir sig að tekin er mynd, ein í einu með vél sem er vel skorðuð (og hreyfist þar af leiðandi ekki á milli ramma). Myndefnið er síðan hreyft á milli rammanna þannig að augað skynjar hreyfingu þegar myndaröðin er sýnd (eða "spiluð"). Svona eru leirkallamyndirnar og margar brúðumyndirnar gerðar (hver man ekki eftir "Klaufabárðunum" frá Tékklandi?). En þetta er líka hægt að nota á svo margt, eins og teikningar (sem þróast ramma fyrir ramma) og fólk (sem virðist fyrir vikið hreyfa sig öðruvísi en það annars gæti). Það vill svo til að myndirnar á barnamyndasýningunni voru allar af þessari gerð, og sú eftirminnilegasta er til sýnis á Youtube. Hún heitir "Sorry I´m Late" og er mikill innblástur.