mánudagur, febrúar 27, 2012

Uppákoma: Búningadrama

Annars byrjaði vetrarfríið eiginlega á miðvikudaginn, á öskudag. Þá fóru Signý og Hugrún að sjálfsögðu prúðbúnar og uppklæddar í skólann. Það var hins vegar ekki vandræðalaust. Signý ætlaði sér að vera draugur. Við fundum lak - ljósbleikt (henni líkaði það sérlega vel). Við dunduðum okkur við það kvöldið fyrir að klippa göt á réttum stöðum og sauma saman annars staðar. Morguninn átti bara eftir að gera hana náföla í framan með farða. Ég brá mér hins vegar á leik og gerði hana enn myndrænni og setti tanngarða með svörtu og hvítu umhverfis munninn þannig að hún yrði pínu draugaleg undir búningnum líka. Svolítið eins og beinagrind eða uppvakningur. Hún var virkilega flott og mætti þannig í skólann en því miður þá var hún feimin við að láta sjá sig svona. Eitthvað efins um sig. Vinkonur hennar birtust í nornabúningum og prinsessufötum og hrifust af henni og skelltu meira að segja upp úr við að sjá "tennurnar". En Signý var svo viðkvæm að henni fannst allir vera að hlæja að sér, en ekki með sér. Við svo búið grét hún úr sér allan farðann og ég þurfti að eyða að minnsta kosti kortéri í að hugga hana, fjarlægja "andlitið" og eyða öllum verksummerkjum. Þetta var ægilega viðkvæmt allt saman en sem betur fer virtist hún hafa notið sín í skólanum eftir þetta því hún var bara ánægð með sig þegar ég sótti hana seinna um daginn.

Hugrúnarvandi var hins vegar allt annar. Hún ætlaði að vera "Hello Kitty". Sú hugmynd var svo einföld að við eyddum engu sérstöku púðri í að undirbúa. Hún átti "Hello Kitty" peysur og grímu. Það eina sem þurfti að gera var að lita andlitið hvítt með sama farða og notaður var á Signýju. Vandinn var hins vegar sá að þetta var of borðleggjandi þannig að við ræddum ekkert nákvæmlega hvernig búningurinn átti að vera. Þegar á reyndi virtist hún svo hafa allt aðrar hugmyndir um búninginn sem hún vildi vera í. Hún vildi ekki grímuna, fyrir það fyrsta, og hún vildi láta mála Hello Kitty í andlitið. Síðan vildi hún eindregið mæta í skólan í kjól en ekki peysu. Hello Kitty hugmyndinn féll því um sjálfa sig þar með því að morgni dags höfðum við ekki tíma til að útfæra hugmyndina. Hún gaf sig ekki og var ákveðin við að vera ósátt við það sem við höfðum fram að færa. Þá datt Vigdísi snilldarráði í hug. Hvers vegna ekki að vera bara indversk prinsessa? Við eigum búningana enn þá frá því um árið og þeir hafa ekki verið mikið notaðir! Hún var sko til í það. Og þannig reddaðist dagurinn, á meðan ég fór með Signýju í skólann sinn (með allri þeirri dramatík sem því fylgdi) græjaði Vigdís Hugrúnu. Svo var hún sótt sérstaklega.

Að sjálfsögðu þurfti ég að hringja í vinnuna og melda mig tuttugu mínútum of seinan þann daginn :-)

sunnudagur, febrúar 26, 2012

Daglegt líf: Vetrarfrí

Löng helgi er að baki. Ég fór í vetrarfrí á fimmtudaginn og föstudaginn var. En það er nú einhvern veginn þannig að þegar ég kemst í frí þá er það beintengt fríi Signýjar og Hugrúnar þannig að það nýtist ekki beinlínis sem frí. Signý var í fríi þessa sömu daga og Hugrún var að auki í fríi á föstudaginn. Tíminn nýttist hins vegar ágætlega sem óhefðbundin samverustund. Við fórum í sund og rúntuðum um í strætó. Ég komst að því að leið 15 er hinn þarfasti þjónn. Sú leið fer krókaleið um Vesturbæinn, upp á Hlemm, síðan á Grensás (Skeifan og Góði hirðirinn biðu þar eftir okkur) auk þess að fara alla leið upp í Ártún. Mér sýndist hann meira að segja fara alla leið upp í Mosfellsbæ. Það var vel þess virði að eyða drjúgum tíma í strætó þó það hafi verið pínu stressandi að þurfa að nýta skiptimiðann til baka. Strætó er það dýr að maður tímir ekki að splæsa á alla fjölskylduna tvær ferðir. En sem rúntur og tilbreyting er þetta einfalt og skemmtilegt.

Hápunktur vetrarfrísins hlýtur þó að teljast leikhúsferðin á undraheima Oz. Við sáum leiksýninguna "Galdrakarlinn í Oz" og skemmtum okkur stórvel. Vigdís sá sér reyndar ekki fært að mæta en í staðinn fengum við Fannar Örn með okkur. Hann er svo traustur í að sinna og fylgjast með stelpunum að ég náði að njóta mín vel á sýningunni, sem ég held að þau þrjú hafi líka gert. Sýningin er mjög lífleg, litrík og fjörug. Það er mikið sungið og dansað og ég tók eftir fullt af lögum í leikverkinu sem voru ekki í upprunalegu bíómyndinni frá 1939. Ætli þau hafi verið samin sérstaklega fyrir þessa sýningu af íslensku hæfileikafólki? Hvað sem því líður var þýðingin á lagatextunum alveg til fyrirmyndar. Við keyptum leikskrána og hún geymdi nokkur textabrot. Við Hugrún og Signý dunduðum okkur eftir á við að syngja nokkra lagstúfa á íslensku. Ég legg áherslu á þetta vegna þess að þær eru nú orðnar vanar ensku útgáfunni af sögunni. Þær áttu myndina á DVD og þekktu hana vel. Íslenski textinn var því frískandi fyrir okkur öll.

Svo ég grípi einhvers staðar niður þá er söngur huglausa ljónsins svona á íslensku:

Sumt er ekki hægt að æfa
því ég fæddist algjör skræfa
og vinn ekki á því bug
nú ég skelf eins og hrísla
væri ljón en engin mýsla
ef ég hefði enhvern dug


eða heilalausa fuglahræðan:

Gæti spekúlerað stundum
á engja-útifundum
um frostrós sem að fraus
Gæti velt öllum vöngum
valið rétt svör frá röngum
ef ég heila hefð´í haus.

Og hvernig hljómaði svo tinmaðurinn, sem var svo tómur að innan?

Væri blíður, væri bljúgur
og einkar skáldadrjúgur
við ástarljóðakver.
Já, ég væri svo ljúfur
að mér hændust turtildúfur
ef ég hjarta hefð´í mér.


Stök snilld!

föstudagur, febrúar 24, 2012

Fréttnæmt: Áföll í byrjun árs

Undanfarnar vikur hafa verið mjög óvenjulegar að mörgu leyti. Ýmis áföll hafa dunið yfir í fjölskyldunni, bæði nær og fjær, þannig að mann hefur sett hljóðan. Þetta eru íhugulir tímar sem fá mann til að endurmeta lífið, bæði rútínu hversdagsins og lífið í stærra samhengi. Stundum er erfitt að koma orðum að því sem er viðkvæmt - en þeir sem til þekkja vita hvað ég á við.

sunnudagur, febrúar 12, 2012

Upplifun: Afmæli ömmu Vilhelmínu

Það er nú eitt og annað sem ég náði ekki að skrifa um í síðasta mánuði annað en tónleikarnir sem ég minntist á síðast. Öll stórfjölskyldan átti til að mynda mjög eftirminnilega samverustund í síðustu viku mánaðarins í tilefni af því að hundrað ár voru liðin frá því amma Vilhelmína fæddist (26. janúar). Hún fæddist á því merkilega ári 1912 sem sumir vilja meina að marki endalok tímabils sem einkenndist af einfeldni og sakleysi ("The Age of Innocence"). Fram til 1912 trúðu Vesturlönd statt og stöðugt á framfarir og að tækninýjungar og aukin þekking muni leiða til farsældar. Fyrsta flugvélin hafði nýlega hafið sig til flugs og bílar voru farnir að vera algengur farkostur. Bjartsýni einkenndi hugarfar tímabilsins. Mannkyn hafði loks kannað allar álfur heimsins og spannað heiminn þveran og endilangan með dramatískum leiðöngrum. Suðurpóllinn var loksins "sigraður" árið 1911. Bretar voru herrar heimsins og siðprýði þeirra og fágun var táknmynd um vald þeirra. Þeir töldu sig hafna yfir tilfinningalegt hömluleysi á sama hátt og þeir töldu náttúruna sér undirgefna. Þeir voru drottnarar heimsins. En einmitt þegar framförum mannanna virtust engin takmörk sett sökk Titanic. Það var árið 1912. Þetta var mikið áfall og eiginlega óskiljanlegt. Hvað sögðu þeir? "En þetta átti ekki að vera hægt!" Þetta var fyrsti stóri atburðurinn sem kallaði á gagngert endurmat á hugmyndum manna um lífið og tilveruna. Stuttu seinna skall fyrri heimsstyrjöldin á með skotgrafahernaði sínum og gerði út af við alla rómantískar hugmyndir manna um stríð. Listamenn um allan heim brugðust við af miklu vægðarleysi. Þeir höfnuðu öllum klassískum gildum og helltu sér út í algjöra tómhyggju: Atómskáld komu fram sem settu fram ljóð án ríms, tónskáld sömdu "tónlist" með engri melódíu, samansettri af nótum í furðulegu og merkingalausu tómarúmi og málarar hættu að herma eftir veruleikanum og helltu sér út í óhlutbundna list (abstrakt). Vesturlönd voru í siðferðislegri tilvistarkreppu um langt skeið upp úr 1912.

Einmitt þá var amma nýfædd.

Við héldum upp á daginn á mjög einfaldan hátt. Afkomendur ömmu (pabbi, bræður hans og börn) komu saman á grafreitnum og lögðu þar friðarkerti og blóm. Það var enn gríðarmikill snjór á þeim tíma og við þurftum að hafa mikið fyrir því að finna legsteininn undir farginu. Sem betur fer var ég með skóflu í bílnum. Svo fórum við öll saman upp í Perlu og fengum okkur þar rjúkandi súpu eða eitthvað annað girnilegt. Mætingin var gríðarlega góð og stemningin var frábær. Snjóbrynjan lá með mjög dramatískum hætti utan á glerhjúp Perlunnar og gerði umhverfið mjög framandi og tilkomumikið. Ekki skemmdi fyrir heiður næturhiminn með tignarlegt tunglið ásamt Venusi og Júpíter hangandi yfir okkur. Við þessar aðstæður var gaman að spjalla við ættingja og vini. Þetta var skemmtileg samkoma.

föstudagur, febrúar 03, 2012

Tónleikar: Valgeir sextugur

Ég hef rétt nýlokið við að laga hið "snöggsoðna yfirlit ársins 2011" sem ég gerði í byrjun janúar. Þar sagðist ég ekki hafa farið á tónleika á árinu, en það var ekki rétt. Ég fór á tónleika með Svart-hvítum draumi, rokksveitinni hans doktors Gunna. Tónleikarnir voru bara ekki nógu eftirminnilegir, satt best að segja. Svo fór ég líka á óperu, sem strangt til tekið getur flokkast undir tónleika, en ég upplifði meira sem leiksýningu. Ég bætti því við færslu um leiksýningar og í leiðinni bætti ég við færslu um áramótaþátt Hljómskálans, sem var mér eins og opinberun.

En talandi um tónleika þá gerði ég mér lítið fyrir og fór á afmælistónleika Valgeirs Guðjónssonar um daginn. Mér áskotnuðust tveir miðar á síðustu stundu og lét hann Jón Má græða á því, enda hafði hann stuttu áður gefið í skyn að hann gæti hugsað sér að skella sér ef ég ætlaði. Það hafði selst upp á skömmum tíma eftir umfjöllun um Valgeir í fjölmiðlum og við misstum upphaflega af miðum en einhvern veginn náði ég að kippa í spotta með því að hringja í rétt númar, fór í einhvers konar pott og fékk miða á lágu verði en undarlegum stað. Við sátum til hliðar við sviðið í sætunum sem skilgreind eru sem kórsæti. Þar upplifðum við okkur sem hluta af starfsmannahópnum af því við horfum frá hlið og inn á sviðið. Hljómurinn á þessum stað var ekki sérlega góður. Hann var dempaður og vantaði tilfinnanlega alla skerpu. Talmál var svolítið bælt og rokkhljómur eins og á bak við gluggatjöld. Hins vegar fengum við frábæra sýn á sviðið og þar bakatil sátu flytjendur við dekkað veisluborð á meðan þeir voru ekki í aðalhlutverki, eins og í alvöru afmælisveislu, og gæddu sér á veisluföngum. Maður sá á þeim Diddú, Agli, Jóni Ólafs (þúsundþjalasmið) hvernig þau fíluðu tónlistina eins og þau væru stödd í löngu tímabæru partíi. Diddú var eitt sælubros. Svo lyftu þau upp míkrófonunum öðru hvoru, ýmist sitjandi eða stóðu virðulega upp og kyrjuðu eftir því sem við átti, á meðan Valgeir stóð fremst á sviðinu með ýmsum meðflytjendum. Stemningin var þrusugóð. Það er óhætt að segja. Valgeir sló stöðugt á létta strengi, sérstaklega þegar babb kom í bátinn, strengur slitnaði eða eitthvað þvíumlíkt. Þá er hann í essinu sínu. En annars stóðu lögin upp úr, allar þessar gersemar sem hann hefur samið í gegnum tíðina, hryggjarstykkið úr katalóg Stuðmanna auk perla fyrir Diddú, Spilverkið og fleiri. Eftir tónleikana komst ég að því að hann samdi tónlistina fyriri "Hrekkjusvínin" eins og hún lagði sig þó raddir Spilverksins hafi hljómað allt um kring. En þvilík lagaveisla. Það sem kom mér hvað mest á óvart var innkoma Diddúar. Þegar hún söng "Stellu í orlofi" (sem ég hef aldrei haldið upp á hingaði til) gerði hún það með slíkum bravúr að ég fékk gæsahúð. Það var eins og hún væri sjálf á nostalgíutrippi og hefði lengi þráð að synga þessi lög aftur. Svo var flutningur Spilverksins hálfum tónleikum seinna (Diddú, Valgeir og Egill) alveg magnaður. Svo að ekki sé minnst á hápunkta Stuðmanna....þau endurómuðuð lengi lögin.