mánudagur, febrúar 27, 2012

Uppákoma: Búningadrama

Annars byrjaði vetrarfríið eiginlega á miðvikudaginn, á öskudag. Þá fóru Signý og Hugrún að sjálfsögðu prúðbúnar og uppklæddar í skólann. Það var hins vegar ekki vandræðalaust. Signý ætlaði sér að vera draugur. Við fundum lak - ljósbleikt (henni líkaði það sérlega vel). Við dunduðum okkur við það kvöldið fyrir að klippa göt á réttum stöðum og sauma saman annars staðar. Morguninn átti bara eftir að gera hana náföla í framan með farða. Ég brá mér hins vegar á leik og gerði hana enn myndrænni og setti tanngarða með svörtu og hvítu umhverfis munninn þannig að hún yrði pínu draugaleg undir búningnum líka. Svolítið eins og beinagrind eða uppvakningur. Hún var virkilega flott og mætti þannig í skólann en því miður þá var hún feimin við að láta sjá sig svona. Eitthvað efins um sig. Vinkonur hennar birtust í nornabúningum og prinsessufötum og hrifust af henni og skelltu meira að segja upp úr við að sjá "tennurnar". En Signý var svo viðkvæm að henni fannst allir vera að hlæja að sér, en ekki með sér. Við svo búið grét hún úr sér allan farðann og ég þurfti að eyða að minnsta kosti kortéri í að hugga hana, fjarlægja "andlitið" og eyða öllum verksummerkjum. Þetta var ægilega viðkvæmt allt saman en sem betur fer virtist hún hafa notið sín í skólanum eftir þetta því hún var bara ánægð með sig þegar ég sótti hana seinna um daginn.

Hugrúnarvandi var hins vegar allt annar. Hún ætlaði að vera "Hello Kitty". Sú hugmynd var svo einföld að við eyddum engu sérstöku púðri í að undirbúa. Hún átti "Hello Kitty" peysur og grímu. Það eina sem þurfti að gera var að lita andlitið hvítt með sama farða og notaður var á Signýju. Vandinn var hins vegar sá að þetta var of borðleggjandi þannig að við ræddum ekkert nákvæmlega hvernig búningurinn átti að vera. Þegar á reyndi virtist hún svo hafa allt aðrar hugmyndir um búninginn sem hún vildi vera í. Hún vildi ekki grímuna, fyrir það fyrsta, og hún vildi láta mála Hello Kitty í andlitið. Síðan vildi hún eindregið mæta í skólan í kjól en ekki peysu. Hello Kitty hugmyndinn féll því um sjálfa sig þar með því að morgni dags höfðum við ekki tíma til að útfæra hugmyndina. Hún gaf sig ekki og var ákveðin við að vera ósátt við það sem við höfðum fram að færa. Þá datt Vigdísi snilldarráði í hug. Hvers vegna ekki að vera bara indversk prinsessa? Við eigum búningana enn þá frá því um árið og þeir hafa ekki verið mikið notaðir! Hún var sko til í það. Og þannig reddaðist dagurinn, á meðan ég fór með Signýju í skólann sinn (með allri þeirri dramatík sem því fylgdi) græjaði Vigdís Hugrúnu. Svo var hún sótt sérstaklega.

Að sjálfsögðu þurfti ég að hringja í vinnuna og melda mig tuttugu mínútum of seinan þann daginn :-)

Engin ummæli: