sunnudagur, febrúar 26, 2012

Daglegt líf: Vetrarfrí

Löng helgi er að baki. Ég fór í vetrarfrí á fimmtudaginn og föstudaginn var. En það er nú einhvern veginn þannig að þegar ég kemst í frí þá er það beintengt fríi Signýjar og Hugrúnar þannig að það nýtist ekki beinlínis sem frí. Signý var í fríi þessa sömu daga og Hugrún var að auki í fríi á föstudaginn. Tíminn nýttist hins vegar ágætlega sem óhefðbundin samverustund. Við fórum í sund og rúntuðum um í strætó. Ég komst að því að leið 15 er hinn þarfasti þjónn. Sú leið fer krókaleið um Vesturbæinn, upp á Hlemm, síðan á Grensás (Skeifan og Góði hirðirinn biðu þar eftir okkur) auk þess að fara alla leið upp í Ártún. Mér sýndist hann meira að segja fara alla leið upp í Mosfellsbæ. Það var vel þess virði að eyða drjúgum tíma í strætó þó það hafi verið pínu stressandi að þurfa að nýta skiptimiðann til baka. Strætó er það dýr að maður tímir ekki að splæsa á alla fjölskylduna tvær ferðir. En sem rúntur og tilbreyting er þetta einfalt og skemmtilegt.

Hápunktur vetrarfrísins hlýtur þó að teljast leikhúsferðin á undraheima Oz. Við sáum leiksýninguna "Galdrakarlinn í Oz" og skemmtum okkur stórvel. Vigdís sá sér reyndar ekki fært að mæta en í staðinn fengum við Fannar Örn með okkur. Hann er svo traustur í að sinna og fylgjast með stelpunum að ég náði að njóta mín vel á sýningunni, sem ég held að þau þrjú hafi líka gert. Sýningin er mjög lífleg, litrík og fjörug. Það er mikið sungið og dansað og ég tók eftir fullt af lögum í leikverkinu sem voru ekki í upprunalegu bíómyndinni frá 1939. Ætli þau hafi verið samin sérstaklega fyrir þessa sýningu af íslensku hæfileikafólki? Hvað sem því líður var þýðingin á lagatextunum alveg til fyrirmyndar. Við keyptum leikskrána og hún geymdi nokkur textabrot. Við Hugrún og Signý dunduðum okkur eftir á við að syngja nokkra lagstúfa á íslensku. Ég legg áherslu á þetta vegna þess að þær eru nú orðnar vanar ensku útgáfunni af sögunni. Þær áttu myndina á DVD og þekktu hana vel. Íslenski textinn var því frískandi fyrir okkur öll.

Svo ég grípi einhvers staðar niður þá er söngur huglausa ljónsins svona á íslensku:

Sumt er ekki hægt að æfa
því ég fæddist algjör skræfa
og vinn ekki á því bug
nú ég skelf eins og hrísla
væri ljón en engin mýsla
ef ég hefði enhvern dug


eða heilalausa fuglahræðan:

Gæti spekúlerað stundum
á engja-útifundum
um frostrós sem að fraus
Gæti velt öllum vöngum
valið rétt svör frá röngum
ef ég heila hefð´í haus.

Og hvernig hljómaði svo tinmaðurinn, sem var svo tómur að innan?

Væri blíður, væri bljúgur
og einkar skáldadrjúgur
við ástarljóðakver.
Já, ég væri svo ljúfur
að mér hændust turtildúfur
ef ég hjarta hefð´í mér.


Stök snilld!

Engin ummæli: