miðvikudagur, júní 29, 2005

Fréttnæmt: Bíltúr um Suðurland

Áður en ég held áfram frekari bloggskrifum má ég til að tjá mig um skemmtilegt ferðalag sem við Vigdís fórum í um síðustu helgi ásamt hluta af fjölskyldu hennar. Við fórum á tveimur jeppum í sunnudagsbíltúr um sunnan- og vestanvert landið, með meginviðkomu á Þingvöllum. Það hljómar mjög rútínerað og hefði líklegast orðið það ef við hefðum ekki valið okkur óhefðbundnar krókaleiðir allan daginn. Við byrjuðum sem sé á því að aka inn Hvalfjörðinn og áður en við náðum botni hans þræddum við leið þaðan gegnum fallegan dal í átt til Þingvalla. Ég man ekki hvað leiðin heitir en ég fann þó kort á netinu sem sýnir hana vel. Þessa leið hafði ég aldrei farið áður og undraðist eiginlega mjög yfir því að hún skuli ekki vera fjölfarnari enda geysilega falleg (víður dalur, stórskornar fjallshlíðar). Okkur Vigdísi leið eins og í útlöndum - sólin skein og eftir vætutíð undanfarna daga skörtuðu vel vökvaðar grasivaxnar hlíðar sínu fegursta. Þegar við komum á Þingvöll ákváðum við að gera smá nestisstopp og fórum í hvarf norður fyrir svæðið, svonefnda Uxahryggjaleið en hún leiðir mann inn í algjörar óbyggðir. Þar nestuðumst við dágóða stund og nutum útsýnis á fjallahringinn þar sem Skjaldbreið blasti við okkur, enn með snævi þakta kollhúfu. Eftir þetta var leiðinni heitið suður að Selfossi og fórum við vestur með Þingvallavatni, hinn góðkunnuga Grafning (sem ég hafði ekki farið í meira en áratug). Ég heillaðist mjög af fegurð þessarar leiðar líka. Grafningurinn liggur gegnum þröngan en aflangan og hlykkjóttan skorning svo það var ævintýri líkast að þræða sig þar gegn. Vegurinn var frábær og skemmtilegur yfirferðar. Hvað er maður eiginlega að gera með að fara stystu leið á milli borgarinnar og Þingvalla þegar afkimarnir bjóða upp á svona veislu? Eftir stutt ísstopp á Selfossi fórum við áfram suður á við, yfir brúna við Eyrarbakka og heim Þrengslin. Ég tók eftir því hvað gróðurþekjan hafði tekið mikið við sér síðan ég bjó á Suðurlandi (fyrir um 5 árum). Lúpínan er búin að ná sterkri rótfestu og þekur Árborgina meira eða minna. Hér áður fyrr blasti bara við berskjaldað sléttlendið. Viðbrigðin eru mikil. Þrengslin fannst mér hins vegar söm við sig, fáfarin og yfirgefin, en góð tilbreyting. Við náðum heim þægilega lúin rétt fyrir sjöfréttir eftir þennan aldeilis fína sunnudagsbíltúr.

föstudagur, júní 24, 2005

Fréttnæmt: Saga úr náttúrukyrrð

Þrátt fyrir flutningana síðustu tvo daga tók ég mig til á miðvikudaginn og fór í útivistargöngu með Jóni Má. Við höfðum farið fyrir viku síðan upp Esjuna og fundið þá á leiðinni til baka áhugaverðan vegslóða sem lá inn dal sem hvorugur okkar hafði kannað. Það varð því úr að við heimsóttum Esjuna á ný og skoðum sérstaklega þennan slóða. Veltum því reyndar fyrir okkur hvort ekki væri áhugavert að leggja Esjuna fyrir okkur og kanna hana frá öllum hliðum í sumar! Sjáum til. Vegslóðinn reyndist okkur vel, beindi okkur langleiðina að Móskarðshnjúkum og bauð meira að segja upp á athyglisverðan hliðarslóða upp á myndarlega hæð undir rótum fjallhryggsins. Þangað ókum við og gengum síðan restina upp hlíðina. Við röbbuðum um heima og geima, eins og gengur, en hápunkturinn var þó vafalaust gljáfægður hringur sem Jón skartaði. Hann og Margrét trúlofuðu sig um síðustu helgi. Þau voru víst stödd á lítilli eyju á Breiðafirði. Staðurinn var vel við hæfi enda eru þau bæði miklir náttúruunnendur. Aðstæður gátu satt að segja ekki verið betri því á meðan þau innsigluðu sambandi sitt sveimuðu hafernir yfir þeim, mitt í kyrrðinni. Frábært! Til hamingju, Jón og Margrét! Vonandi reynast ernir öflugir sem tákn um gæfu!

Upplifun: Útsýni úr Fellahverfi

Síðustu tveir dagar hafa verið ansi erilsamir. Sverrir, bróðir Vigdísar, var að flytja og ég var til aðstoðar ásamt öðrum. Þetta var geysilega mikil búslóð og margar ferðir milli hverfa. Hann flutti upp í Hólahverfi. Húsið er mjög vel staðsett innan hverfis, á jaðrinum með útsýni yfir borgina. Ég gerði mér leik úr því að telja upp helstu kennileitin af svölunum. Til marks um frábært útsýnið þá sjást þaðan sex kirkjur: Hallgrímskirkja, Seltjarnarnesskirkja, Breiðholtskirkja, Garðabæjarkirkja, Háteigskirkja og Bústaðakirkja. Við grínuðumst með það að hann gæti haft fjölbreytta bænastund á svölunum sex daga vikunnar.

mánudagur, júní 20, 2005

Upplifun: Pictionary

Fórum í stutta bústaðaferð um helgina. Þar var spilað "Pictionary", spil sem við Vigdís reyndar eigum en höfum aldrei lagt okkur fram um að spila. Spilið reyndist stórskemmtilegt, miklu skemmtilegra en mig minnti (Ég gæti alveg hugsað mér að leggja þessa spilamennsku fyrir mig). Í spilinu er skipt í lið þar sem annar teiknar og hinn giskar á orð sem koma upp úr bunkanum. Þetta þekkja menn nú. Nema hvað, meðspilarinn minn, Toggi (kærasti Ásdísar, systur Vigdísar) var skemmtilega kokhraustur. Okkur gekk vel framan af og hann var fljótur upp á lagið með að ögra mótspilurunum okkar "þetta er rúst! Þetta er RÚST!". Svo var mikið hlegið, að sjálfsögðu. Á endanum fór spilið hins vegar svo að við skíttöpuðum á endasprettinum. Þá voru góð ráð dýr. Til að halda andlitinu ákáðum við að skilgreina spilamennskuna sem "sjálfsrúst".

föstudagur, júní 17, 2005

Pæling: Verslunarleiðangraþreyta

Við skruppum i Kringluna í gær. Vigdís leitaði en fann ekkert. Ég keypti mér hins vegar létt sumarföt, tvær skyrtur og sumarjakka. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að birgja sig upp af góðum fötum. Það sló mig hins vegar, burt séð frá þessu, var hvað ég var fljótur að þreytast í Kringlunni. Það endar nú yfirleitt með því að maður yfirgefi klasann orkulítill. Í þetta skiptið hélt ég hins vegar að við myndum hafa það af því við mættum til leiks óvenju tilbúin. Við vorum búin að borða staðgóðan hádegismat, vorum léttklædd í sumarblíðunni og byrjuðum strax á því að sötra kaffi undir öðrum rúllustiganum. Eftir rúmlega hálfan tíma fór maður samt að finna fyrir þreytu og var orðinn örmagna eftir einn og hálfan. Hvað veldur? Ég hafði um tíma ekki annað að gera en velta þessu fyrir mér og komst að eftirfarandi niðurstöðu:

1) Marmaragólfið er miskunnarlaust, bæði rennislétt og hart. Það er eðlilegast fyrir liðamótin að stigið sé niður á misjafnt undirlag, jafnvel eilítið mjúkt og fjölbreytt. Þetta veldur hins vegar miklu álagi á mjög afmarkaðan hluta liðamótanna, alltaf á sama stað. Kemur fram sem vægur verkur.

2) Við hreyfum okkur löturhægt, öðruvísi en við erum vön. Þar sem við höldum stöðugt aftur af okkur hleðst upp spenna í líkamanum með tímanum.

3) Ef maður er mikið að kaupa verða hendurnar hangandi þungar og því fylgir álag á herðar.

4) Loftið sem við öndum að okkur er staðið og þungt. Enginn vindur til að fríska mann við. Ekkert svalt loft.

5) Við sjáum ekki neitt lífrænt eða óreglulegt í umhverfinu. Þetta er lýjandi fyrir hugann sem endurnærist í náttúrulegu umhverfi. Rafræn lýsing er alls ráðandi á kostnað sólargeislanna úti við sem varla ná að gægjast inn fyrir.

6) Öll áreiti eru til þess fallin að góma athyglina. Rétt eins og á listasafni með of mörgum myndum þá mettast athyglinn eftir ákveðinn tíma.

7) Fólksfjöldinn sem oftast mikill í verslunarmiðstöðvum. Endalausum augnaráðum ókunnugra maður þarf að mæta til að rekast ekki á fólkið í þröngum salarkynnunum. Einkarýmið verður fyrir stöðugu aðkasti.

8) Yfirleitt er tónlist stöðugt í gangi og sjaldgæft að hún höfði til manns. Maður getur ekki einu sinni skipt um tónlist eða slökkt á henni. Ef manni líkar tónlistin er ekki heldur hægt að hækka í henni. Hún bara suðar í bakgrunni.

Sum af þessum atriðum eiga líka við um aðra staði. Verslunarmiðstöðvar eru hins vegar þeirrar náttúru að samræma þau öll í einum polli. Klasar eru ekki endilega slæmir staðir. Þar er hægt að afgreiða marga hluti á mjög skömmum tíma. Það er bara svo vont að ílendast þar (klukkutími er nóg fyrir mig). Ég held að málið sé að mæta til leiks eins markvisst og hægt er svo maður geti flúið af hólmi um leið og þreytan læðist að.

fimmtudagur, júní 16, 2005

Fréttnæmt: Meðgangan. Hjartsláttur.

Við fórum í hefðbundna skoðun í gær til að ganga úr skugga um hvort ekki væri allt gott að frétta úr leginu. Við fengum víst ekki snemm-sónar eins og ég hélt heldur var bara hlustað eftir hjartslætti. Fyrir tveimur vikum var of snemmt að heyra nokkuð. Legið víst á stærð við greip þessa dagana. Reyndar veit ég ekki, eftir á að hyggja, ekki hvort átt er við greipaldin eða grip handarinnar (10 sm.) en það gildir víst einu. Við heyrðum skýran og stöðugan hjartslátt, 160 slög á mínútu, svo það er heilmikið í undirbúningi. Á næstu vikum og mánuðum fara hlutirnir að gerast hratt.

mánudagur, júní 13, 2005

Daglegt líf: Lokadagur í skólanum og smíðavinna í hjáverkum.

Svakaleg veðurblíðan í dag, maður. Við slúttuðum með pompi og pragt í vinnunni með því að borða saman í hádeginu og fórum svo saman í keilu. Það var ekki ýkja vinsælt að dvelja inni við í glampandi sólinni en það var bót í máli að leikurinn var ekki svo langur. Á morgun fer ég hins vegar aftur í vinnuna, eiginlega á eigin vegum. Þannig er að ég hef undanfarna daga verið uppteknari af því að nýta smíðakennarann í hörgul en að skila af mér skýrslum og taka til í stofunni. Með völundarhjálp hans er ég í óða önn að gera upp antík-mublu frá fjórða áratugnum sem eitt sinn geymdi gamaldags hljómflutningstæki. Ekta gamaldags græjuskápur. Þetta er óskaplega spennandi vinna. Ég sé fyrir mér vínylplöturnar þarna inni bak við glerhurð og græjurnar sjálfar luktar bak við smekklega renniloku. En sjón er sögu ríkari, - þegar þar að kemur. Á morgun verð ég sem sé bæði að sinna skýrslugerð, tiltekt og ýmsu snatti í tengslum við húsgagnið góða. Vonandi skín sólin bara ekki of skært á meðan.

sunnudagur, júní 12, 2005

Sjónvarpið: Vídeó. Sideways.

Við Vigdís höfðum það huggulegt í gær yfir vínberjum og Camembert-osti og horfðum á vídeó. Ég fann myndina á netinu, gegnum kvikmyndir.is, og fannst það bráðsniðugt. Í stað þess að rölta bæði af stað gat ég bara smellt á "nýjustu myndböndin" og lesið mig gegnum hinar og þessar umfjallanir og borið nokkra álitlega titla undir Vigdísi, mætt svo markvisst á staðinn og leyft Vigdísi að kúra áfram undir teppi (maður vill helst að hún hafi það sem huggulegast á meðgöngunni). Nema hvað, mér leist vel á nokkrar myndir, eins og t.d. Garden State, Without a Paddle, Finding Neverland og svo þessari sem ég tók Sideways. Frábær mynd. Alveg frábær. Eins konar gamanmynd, þ.e.a.s. maður veltist ekki beinlínis um af hlátri yfir stanslausu gríni heldur byggir myndin upp mjög djúpstæða samúð með sögupersónum sem við fylgjumst með takast á við grátbroslegt hlutskipti sitt (með misjafnlega góðum árangri). Þetta er hálfgerð ferðasaga þar sem tveir félagar (annar grunnhyggið kyntröll og hinn bölsýnn rithöfundur) reyna að njóta síðustu frjálsu viku sinnar saman áður en annar þeirra giftir sig (kyntröllið). Myndin er ótrúlega vel leikin og snertir mann djúpt. Sjálf tilvistarkreppan er í aðalhlutverki í myndinni (kannski ekkert ósvipað Elling eða About Schmidt) og hún virkar bæði mjög raunveruleg og nærtæk, enda eru leikurinn og persónusköpunin verulega eftirminnileg. Svo er handritið ótrúlega vel skrifað og ófyrirsjáanlegt þannig að manni finnst atburðarásin nánast eiga sér stað fyrir framan mann. Ég er nefnilega fyrir löngu búinn að fá dauðleið á því að horfa á fyrirsjáanlegar "framleiðslu"myndir, geta sett mig í stellingar strax í byrjun mynda og standa svo upp að þeim loknum engu nær. Slík "afþreying" tekur yfirleitt frá mér orku. Frekar hvíli ég mig.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Fréttnæmt: Stór tíðindi úr Granaskjóli

Það er til lítils að draga það mikið lengur. Ég er búinn að vera ýmist þögull eða tala í gátum undanfarnar vikur. Við Vigdís eigum von á barni. Við komumst að því fyrir um það bil mánuði síðan. Mér fannst ekki tímabært að skrifa neitt um það á bloggsíðunni fyrr en nánasti fjölskylduhringurinn hafði fengið tíðindin. Svo er þetta víst pínulítið viðkvæmt tímabil fyrstu þrjá mánuðina eða svo. Núna er hún sem sagt kominn um það rúmlega tvo mánuði á leið (eða rétt tæpa þrjá, - fer eftir þvi hvernig það er talið) og fóstrið ætti fljótlega að vera orðið nægilega traust í sessi til að hægt sé að reikna með að hlutirnir gangi upp. Vigdis fór í skoðun í síðustu viku og fer aftur í næstu. Fyrsta skoðun var bara létt spjall. Næst er hins vegar líklegt að hún verði ómskoðuð. Þá koma einhver ný smáatriði í ljós. Eins og staðan er núna er því fátt vitað, en þetta virðist vera allt eftir bókinni. Samkvæmt útreikningum má vænta þess að barnið komi í heiminn um áramótin... líklega í byrjun janúar. Spennandi byrjun á næsta ári. Við erum að sjálfsögðu mjög lukkuleg með þetta en tökum breytingunni með yfirvegaðri ró. Okkur finnst tímasetningin mjög heppileg. Ég er kominn í trausta vinnu og okkur líður vel í litlu kjallaraíbúðinni okkar, sem vonandi rúmar okkur þrjú þegar þar að kemur. Vigdísi líður eftir atvikum vel og tekur þessu nýja hlutverki sínu af festu og ábyrgð. Það finnst mér mjög ánægjulegt. Ég nýt þess að dekra við hana á meðan, búa til mat og hlífa henni við óþarfa álagi. Hvernig sem þetta gengur, þá ætlum við að njóta þess.

miðvikudagur, júní 08, 2005

Lestur: Athyglisverð bók fra Lonely Planet

Í dag skaust ég úr vinnunni upp í Sólheimabókasafn til að ná í bók sem við þurftum að nota. Á leiðinni inn sá ég stafla af bókum til sölu. Yfirleitt er þetta rusl sem enginn vill. Stundum finnur maður hins vegar bækur um eitthvað sem fáir hafa áhuga á og er þess vegna sett í sölu. Þarna á milli úr sér genginna bóka fann ég sem sagt óvenjulega ferðahandbók frá Lonely Planet sem heitir "Travel with Children" (á hundraðkall). Hún lýsir því hvernig ábyrgðarfullt foreldrahlutverkið þarf ekki endilega að útiloka ævintýri í fjarlægum heimshornum. Þau eru óvenjuleg efnistökin í þessari bók og hún gæti reynst manni vel síðar meir. Reyndar er sú tilhugsun ekki svo langsótt - en ég vík betur að því í næsta pósti.