miðvikudagur, júní 29, 2005

Fréttnæmt: Bíltúr um Suðurland

Áður en ég held áfram frekari bloggskrifum má ég til að tjá mig um skemmtilegt ferðalag sem við Vigdís fórum í um síðustu helgi ásamt hluta af fjölskyldu hennar. Við fórum á tveimur jeppum í sunnudagsbíltúr um sunnan- og vestanvert landið, með meginviðkomu á Þingvöllum. Það hljómar mjög rútínerað og hefði líklegast orðið það ef við hefðum ekki valið okkur óhefðbundnar krókaleiðir allan daginn. Við byrjuðum sem sé á því að aka inn Hvalfjörðinn og áður en við náðum botni hans þræddum við leið þaðan gegnum fallegan dal í átt til Þingvalla. Ég man ekki hvað leiðin heitir en ég fann þó kort á netinu sem sýnir hana vel. Þessa leið hafði ég aldrei farið áður og undraðist eiginlega mjög yfir því að hún skuli ekki vera fjölfarnari enda geysilega falleg (víður dalur, stórskornar fjallshlíðar). Okkur Vigdísi leið eins og í útlöndum - sólin skein og eftir vætutíð undanfarna daga skörtuðu vel vökvaðar grasivaxnar hlíðar sínu fegursta. Þegar við komum á Þingvöll ákváðum við að gera smá nestisstopp og fórum í hvarf norður fyrir svæðið, svonefnda Uxahryggjaleið en hún leiðir mann inn í algjörar óbyggðir. Þar nestuðumst við dágóða stund og nutum útsýnis á fjallahringinn þar sem Skjaldbreið blasti við okkur, enn með snævi þakta kollhúfu. Eftir þetta var leiðinni heitið suður að Selfossi og fórum við vestur með Þingvallavatni, hinn góðkunnuga Grafning (sem ég hafði ekki farið í meira en áratug). Ég heillaðist mjög af fegurð þessarar leiðar líka. Grafningurinn liggur gegnum þröngan en aflangan og hlykkjóttan skorning svo það var ævintýri líkast að þræða sig þar gegn. Vegurinn var frábær og skemmtilegur yfirferðar. Hvað er maður eiginlega að gera með að fara stystu leið á milli borgarinnar og Þingvalla þegar afkimarnir bjóða upp á svona veislu? Eftir stutt ísstopp á Selfossi fórum við áfram suður á við, yfir brúna við Eyrarbakka og heim Þrengslin. Ég tók eftir því hvað gróðurþekjan hafði tekið mikið við sér síðan ég bjó á Suðurlandi (fyrir um 5 árum). Lúpínan er búin að ná sterkri rótfestu og þekur Árborgina meira eða minna. Hér áður fyrr blasti bara við berskjaldað sléttlendið. Viðbrigðin eru mikil. Þrengslin fannst mér hins vegar söm við sig, fáfarin og yfirgefin, en góð tilbreyting. Við náðum heim þægilega lúin rétt fyrir sjöfréttir eftir þennan aldeilis fína sunnudagsbíltúr.

Engin ummæli: