föstudagur, júní 24, 2005
Fréttnæmt: Saga úr náttúrukyrrð
Þrátt fyrir flutningana síðustu tvo daga tók ég mig til á miðvikudaginn og fór í útivistargöngu með Jóni Má. Við höfðum farið fyrir viku síðan upp Esjuna og fundið þá á leiðinni til baka áhugaverðan vegslóða sem lá inn dal sem hvorugur okkar hafði kannað. Það varð því úr að við heimsóttum Esjuna á ný og skoðum sérstaklega þennan slóða. Veltum því reyndar fyrir okkur hvort ekki væri áhugavert að leggja Esjuna fyrir okkur og kanna hana frá öllum hliðum í sumar! Sjáum til. Vegslóðinn reyndist okkur vel, beindi okkur langleiðina að Móskarðshnjúkum og bauð meira að segja upp á athyglisverðan hliðarslóða upp á myndarlega hæð undir rótum fjallhryggsins. Þangað ókum við og gengum síðan restina upp hlíðina. Við röbbuðum um heima og geima, eins og gengur, en hápunkturinn var þó vafalaust gljáfægður hringur sem Jón skartaði. Hann og Margrét trúlofuðu sig um síðustu helgi. Þau voru víst stödd á lítilli eyju á Breiðafirði. Staðurinn var vel við hæfi enda eru þau bæði miklir náttúruunnendur. Aðstæður gátu satt að segja ekki verið betri því á meðan þau innsigluðu sambandi sitt sveimuðu hafernir yfir þeim, mitt í kyrrðinni. Frábært! Til hamingju, Jón og Margrét! Vonandi reynast ernir öflugir sem tákn um gæfu!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli