sunnudagur, júní 12, 2005

Sjónvarpið: Vídeó. Sideways.

Við Vigdís höfðum það huggulegt í gær yfir vínberjum og Camembert-osti og horfðum á vídeó. Ég fann myndina á netinu, gegnum kvikmyndir.is, og fannst það bráðsniðugt. Í stað þess að rölta bæði af stað gat ég bara smellt á "nýjustu myndböndin" og lesið mig gegnum hinar og þessar umfjallanir og borið nokkra álitlega titla undir Vigdísi, mætt svo markvisst á staðinn og leyft Vigdísi að kúra áfram undir teppi (maður vill helst að hún hafi það sem huggulegast á meðgöngunni). Nema hvað, mér leist vel á nokkrar myndir, eins og t.d. Garden State, Without a Paddle, Finding Neverland og svo þessari sem ég tók Sideways. Frábær mynd. Alveg frábær. Eins konar gamanmynd, þ.e.a.s. maður veltist ekki beinlínis um af hlátri yfir stanslausu gríni heldur byggir myndin upp mjög djúpstæða samúð með sögupersónum sem við fylgjumst með takast á við grátbroslegt hlutskipti sitt (með misjafnlega góðum árangri). Þetta er hálfgerð ferðasaga þar sem tveir félagar (annar grunnhyggið kyntröll og hinn bölsýnn rithöfundur) reyna að njóta síðustu frjálsu viku sinnar saman áður en annar þeirra giftir sig (kyntröllið). Myndin er ótrúlega vel leikin og snertir mann djúpt. Sjálf tilvistarkreppan er í aðalhlutverki í myndinni (kannski ekkert ósvipað Elling eða About Schmidt) og hún virkar bæði mjög raunveruleg og nærtæk, enda eru leikurinn og persónusköpunin verulega eftirminnileg. Svo er handritið ótrúlega vel skrifað og ófyrirsjáanlegt þannig að manni finnst atburðarásin nánast eiga sér stað fyrir framan mann. Ég er nefnilega fyrir löngu búinn að fá dauðleið á því að horfa á fyrirsjáanlegar "framleiðslu"myndir, geta sett mig í stellingar strax í byrjun mynda og standa svo upp að þeim loknum engu nær. Slík "afþreying" tekur yfirleitt frá mér orku. Frekar hvíli ég mig.

Engin ummæli: