föstudagur, júní 17, 2005

Pæling: Verslunarleiðangraþreyta

Við skruppum i Kringluna í gær. Vigdís leitaði en fann ekkert. Ég keypti mér hins vegar létt sumarföt, tvær skyrtur og sumarjakka. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að birgja sig upp af góðum fötum. Það sló mig hins vegar, burt séð frá þessu, var hvað ég var fljótur að þreytast í Kringlunni. Það endar nú yfirleitt með því að maður yfirgefi klasann orkulítill. Í þetta skiptið hélt ég hins vegar að við myndum hafa það af því við mættum til leiks óvenju tilbúin. Við vorum búin að borða staðgóðan hádegismat, vorum léttklædd í sumarblíðunni og byrjuðum strax á því að sötra kaffi undir öðrum rúllustiganum. Eftir rúmlega hálfan tíma fór maður samt að finna fyrir þreytu og var orðinn örmagna eftir einn og hálfan. Hvað veldur? Ég hafði um tíma ekki annað að gera en velta þessu fyrir mér og komst að eftirfarandi niðurstöðu:

1) Marmaragólfið er miskunnarlaust, bæði rennislétt og hart. Það er eðlilegast fyrir liðamótin að stigið sé niður á misjafnt undirlag, jafnvel eilítið mjúkt og fjölbreytt. Þetta veldur hins vegar miklu álagi á mjög afmarkaðan hluta liðamótanna, alltaf á sama stað. Kemur fram sem vægur verkur.

2) Við hreyfum okkur löturhægt, öðruvísi en við erum vön. Þar sem við höldum stöðugt aftur af okkur hleðst upp spenna í líkamanum með tímanum.

3) Ef maður er mikið að kaupa verða hendurnar hangandi þungar og því fylgir álag á herðar.

4) Loftið sem við öndum að okkur er staðið og þungt. Enginn vindur til að fríska mann við. Ekkert svalt loft.

5) Við sjáum ekki neitt lífrænt eða óreglulegt í umhverfinu. Þetta er lýjandi fyrir hugann sem endurnærist í náttúrulegu umhverfi. Rafræn lýsing er alls ráðandi á kostnað sólargeislanna úti við sem varla ná að gægjast inn fyrir.

6) Öll áreiti eru til þess fallin að góma athyglina. Rétt eins og á listasafni með of mörgum myndum þá mettast athyglinn eftir ákveðinn tíma.

7) Fólksfjöldinn sem oftast mikill í verslunarmiðstöðvum. Endalausum augnaráðum ókunnugra maður þarf að mæta til að rekast ekki á fólkið í þröngum salarkynnunum. Einkarýmið verður fyrir stöðugu aðkasti.

8) Yfirleitt er tónlist stöðugt í gangi og sjaldgæft að hún höfði til manns. Maður getur ekki einu sinni skipt um tónlist eða slökkt á henni. Ef manni líkar tónlistin er ekki heldur hægt að hækka í henni. Hún bara suðar í bakgrunni.

Sum af þessum atriðum eiga líka við um aðra staði. Verslunarmiðstöðvar eru hins vegar þeirrar náttúru að samræma þau öll í einum polli. Klasar eru ekki endilega slæmir staðir. Þar er hægt að afgreiða marga hluti á mjög skömmum tíma. Það er bara svo vont að ílendast þar (klukkutími er nóg fyrir mig). Ég held að málið sé að mæta til leiks eins markvisst og hægt er svo maður geti flúið af hólmi um leið og þreytan læðist að.

Engin ummæli: