mánudagur, júní 13, 2005

Daglegt líf: Lokadagur í skólanum og smíðavinna í hjáverkum.

Svakaleg veðurblíðan í dag, maður. Við slúttuðum með pompi og pragt í vinnunni með því að borða saman í hádeginu og fórum svo saman í keilu. Það var ekki ýkja vinsælt að dvelja inni við í glampandi sólinni en það var bót í máli að leikurinn var ekki svo langur. Á morgun fer ég hins vegar aftur í vinnuna, eiginlega á eigin vegum. Þannig er að ég hef undanfarna daga verið uppteknari af því að nýta smíðakennarann í hörgul en að skila af mér skýrslum og taka til í stofunni. Með völundarhjálp hans er ég í óða önn að gera upp antík-mublu frá fjórða áratugnum sem eitt sinn geymdi gamaldags hljómflutningstæki. Ekta gamaldags græjuskápur. Þetta er óskaplega spennandi vinna. Ég sé fyrir mér vínylplöturnar þarna inni bak við glerhurð og græjurnar sjálfar luktar bak við smekklega renniloku. En sjón er sögu ríkari, - þegar þar að kemur. Á morgun verð ég sem sé bæði að sinna skýrslugerð, tiltekt og ýmsu snatti í tengslum við húsgagnið góða. Vonandi skín sólin bara ekki of skært á meðan.

Engin ummæli: