mánudagur, maí 30, 2005

Upplifun: Tónlistarstraff

Hér hefur ríkt fullmikil þögn undanfarið. Fyrir því er auðvitað góð og gild ástæða sem sett hefur svip sinn á hversdagslífið hjá okkur Vigdísi, en meira um það síðar. Í dag var svalt sólskinsveður og bíllinn sat í innkeyrslunni í allan dag. Ég hjólaði fram og til baka í og úr vinnunni og seinna um kvöldið röltum við saman í heimsókn til Ásdísar (systur Vigdísar í nágrenninu). Í millitíðinni lagði ég mig. Það var öndvegislúr sem einkenndist af draumkenndum samræðum við fuglasöng úr garðinum. Ég upplifði þetta sem einhver fegurstu hljóð sem hafa borist að mér og endurnærðist á stuttum hálftíma. Gat á þeirri stundu einhvern veginn ekki hugsað mér að eyða tíma mínum í að hlusta á tónlist í bráð, sama hversu fögur hún er. Þessi hugsun tók á sig þá mynd, einhvern veginn ósjálfrátt, að ég skyldi straffa sjálfan mig og gera mér far um að hlusta ekki á tónlist næstu dagana. Jafnvel vikurnar. Það fer alveg ótrúlegur tími í tónlist hjá mér. Hún stelur athygli frá mér þegar ég þarf að sinna ýmsum verkefnum. Hún tefur mig. Það er því kominn tími á tónlistarpásu í viku. Á þessu eru náttúrulega vissar undantekninar. Ég hlusta á það sem berst mér gegnum útvarp og sjónvarp. Ég leyfi gestum og Vigdísi náttúrulega að hafa sinn gang heima með sína tónlist. Hugsanlega set ég sjálfur tónlist á ef ég er beinlínis að vinna með hana með einhverjum hætti. En ekki til að fylla tómið. Ekkert svoleiðis.

mánudagur, maí 23, 2005

Sjónvarpið: Eurovision

Ég fór í bústaðaferð með Vigdísi um helgina og slappaði af eins og vera ber. Horfði meðal annars á Eurovisionkeppnina, sem ég viðurkenni að hafa horft á bæði með semingi og áhuga. Skrítið hvernig keppnin hefur breyst. Einhvern tímann vonaðist maður til að fleiri færu að rokka í keppninni eða að þjóðlegra áhrifa myndi gæta meira. Nú er það einmitt málið og einhvern veginn tekst mönnum að búa til klisju úr því líka. Eru þetta áhrif keppninnar sem slíkrar? Eru menn of mikið að keppa og reyna of mikið að falla í alþjóðlegt kramið? Á ekki bara að líta á þetta sem sýningu frekar en keppni? Sem keppni er fyrirbærið að minnsta kosti löngu dautt.

Uppáhaldslag? Moldovía með ömmu gömlu í broddi fylkingar.
Flottasti flytjandinn? Jakob frá Danmörku. Eini flytjandinn með ekta stjörnuhæfieika.
Tilþrifamesti dansinn? Upphafsatriðið - Ungverjaland. Virkilega glæsilegur hópdans.

sunnudagur, maí 15, 2005

Lestur: The Alchemist e. Coehlo

Nú er skammt góðra bóka á milli. Ég er nýbúinn að lesa nýjustu bók Coehlos (sjá eldri færslu) og hreifst svo mjög að ég varð að lesa fyrstu og frægustu bókina hans, Alkemistann ("The Alchemist"). Hún stóðst væntingar að mestu leyti (þær voru mjög miklar). Hrífandi fögur og full af lærdómsríkum gullmolum. Meginsagan er leit ungs fjárhirðis að fjársjóði lífs síns. Sú leit leiðir hann í ýmis ævintýri og á endanum uppgötvar hann mjög merkan sannleika um lífið. Sagan er ákaflega vel sögð og snertir marga mannlega strengi, en gerir það á afar mjúklegan og á ljóðrænan hátt. Einstöku sinnum vissi ég ekki alveg hvert höfundurinn var að fara, sérstaklega á skáldlegustu köflunum, en það skrifast eflaust á mig. Að öðru leyti var hún sögð á skýru og einföldu máli en var samt stöðugt ögrandi og áhugaverð. Frábær bók.

laugardagur, maí 14, 2005

Sjónvarp: Listahátíðin sett

Í kvöld var Listahátíð Reykjavíkur formlega sett í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Ég missti reyndar af megninu af dagsskránni og þar á meðal Hun Huur Tu barkasönghópnum frá Mongólíu, en skemmtilegur upplestur Sjón (Sjóns/Sjónar?) og Einars Márs bætti mér tapið. Lokaorð þeirra beggja voru kostuleg:

Sjón: Þegar þjóðfáninn tapar litum sínum - fer jörðin sjálf að blakta.

Einar Már: Ef listin er svarið við lífinu, hver var þá spurningin?

miðvikudagur, maí 11, 2005

Upplifun: Listasöfn

Ég fór í vikunni á tvö listasöfn, annars vegar til að sjá útskriftarsýningu Listaháskólans á Kjarvalsstöðum og hins vegar óvenjulega safnarasýningu í Gerðubergi. Þetta hristir skemmtilega upp í huganum. Á LHÍ-sýningunni hreifst ég af lógóum sem hönnuð voru fyrir hvert hverfi Reykjavíkur (Laugardalurinn með hvíta hálfkúlu, miðbærinn með Hallgrísmkirkju og Breiðholtið með "Fuglabjargið" uppi í hæðum). "Af hverju fattaði þetta enginn fyrr?" spyr maður sjálfan sig. Þarna var líka frábær stóll sem líkir eftir tilfinningunni þegar maður sest í mosagróna laut. Ótrúlega þægilegur, fullur af opum og götum, óreglulegur í laginu, íklæddur gæruskinni. Þarna var fullt af fleiri flottum hugmyndum sem vonlaust er að segja frá hér. Magnað að finna hvernig sköpunarkrafturinn safnaðist saman í eitt. Flott sýning. Nokkrum dögum síðar kíkti ég síðan upp í Gerðuberg og hafði verulega gaman af skapandi söfnum á borð við plastpokasafn með merkjum löngu liðinna verslana (mmm... gamla góða Grammið) og Godzilla safn (plastskrímsli af öllum stærðum og gerðum). Best af öllu var þó snoturt ælupokasafn frá hinum ýmsu flugfélögum. Merkilegt hvað fyrirbæri sem tengist hreinu ógeði getur orðið snyrtilegt og pent ef rétt er á haldið.

fimmtudagur, maí 05, 2005

Fréttnæmt: Sól, Sonic Youth og Oprah.

Sól og sumar. Við Vigdís skelltum okkur á Ylströndina og nutum þar veitinga á verönd. Ég fletti Mogganum og las þar pistil Svanhildar Hólm þar sem hún lýsti því hvernig Oprah togaði með leiðandi spurningum upp úr henni þau svör sem hún vildi fá í þáttinn sinn, klippti svo allt úr samhengi og sýndi aðeins lítið brot af viðtalinu. Svei, henni. Hún er greinilega fyrst og fremst andlit á mála hjá markaðsmaskínu risavaxinnar sjónvarpsstöðvar og hver svo sem hennar vilji sjálfrar er þarf hún að leggja sig fram við að fá fram eftirminnilegar yfirlýsingar í fyrirsagnastíl. Sjálfur sannleikurinn er aukaatriði. Hún hríðféll í áliti hjá mér. Þá fletti ég á næstu síðu og fann tilkynningu um að Sonic Youth sé á leið til landsins! Þetta er mesti hvalreki í tónlistarlífi hérlendis síðan Pixies kom í fyrra. Ein af alvöru frumherjum rokksins, og þeir eru enn að gefa úr frábærar plötum. Það er ástæða til að staldra hér aðeins við og velta því fyrir sér hvað tónleikahaldarar eru að gera. Megnið af því sem rekur á fjörur okkar er óttalega jukk, eftirlíkingar eða úr sér gengin ellimenni að spila í eigin "cover"-bandi. Þetta er kannski tilefni til frekari vangaveltna. Uppgjör mitt við tónleikahald landans birtist á heimasíðunni á næstu dögum.