miðvikudagur, mars 31, 2010

Fréttnæmt: marsyfirlit

Eins og fram hefur komið hef ég verið í vandræðum með tölvuna undanfarið. Það skýrir að hluta til langavarandi þögn. Nú er hins vegar komið að mánaðarmótum og kannski tímabært að líta aðeins um öxl á þá atburði sem standa upp úr í mars...

Þrennt stóð upp úr: frábærir tónleikar í Salnum, ferming Fannars (systursonar) og meiðsli.

Ég fór á tónleika með Beggu systur 10. mars síðastliðinn í Salnum. Þau Jóhanna Guðrún og Ingó voru með dúettaprógramm af ýmsu tagi. Sumt var mjög "svalt" (Johnny Cash dúettar og Nick Cave, svo eitthvað sér nefnt) og annað var poppað og grípandi (lög úr Grease eða Dirty Dancing). Allt steinlá meira eða minna. Þau tvö bættu hvort annað upp mjög skemmtilega. Hann er einstaklega öruggur á sviði og á gott með að tala við salinn og slá á létta strengi á meðan hún er með einstaka rödd og lyftir gæðunum á næsta plan. Hann náði sem sagt að taka stífnina svolítið úr Jóhönnu Guðrúnu en hún neyddi hann til að taka á honum stóra sínum sem söngvara til þess eins að standa uppi í hárinu á henni. Og það getur hann svo sem. Það eiga þau hins vegar sameiginlegt að vera geysilega músíkölsk bæði tvö og geta leikið sér svolítið með tónlistina. Útkoman var því frábær í líflegu og áhugaverðu prógrammi. Sem er eins gott því mér skilst að tónleikarnir hafi verið teknir upp (og aðrir tvennir tónleikar haldnir í kjölfarið að auki). Ég er eiginlega er illa svikinn ef þau ætla ekki að herja á innanlandsmarkað með sumrinu. Með því að gefa plötuna úr í byrjun sumar yrðu þau eflaust eftirsótt á sveitaböllum og árshátíðum langt fram eftir ári. Það getur ekki annað en gengið upp því sérstaða prógrammsins er algjör og vinsældir þeirra sem söngvara í algjöru hámæli um þessar mundir. Það verður spennandi að sjá hvað setur.

Svo er það ferming Fannars (sonar Beggu, fyrir þá sem ekki vita). Það var sunnudaginn 21. mars og var haldið í sal sem mamma hafði aðgang að gegnum vinnuna. Í fermingum koma jafnan saman tveir fjölskylduvængir sem ekki hafa stöðug samskipti sín á milli. Útkoman er oft vandræðaleg og stíf en í þetta skipti er ég á því að veislan hafi verið með afslappaðra móti. Það var eitthvað heimilislegt við staðsetninguna. Maturinn hitti í mark og allir lögðu sig fram um að eiga góða stund saman. Það tókst ljómandi vel, að mínu mati. Við gáfum Fannari Japönskunámskeið sem mér skilst að hann hafi verið kampakátur með auk þess sem ég hvatti Villa bróður til að bæta við áhugaverðri japanskri teiknimynd í einskonar Disney-heimi þeirra Japana. Hún er hugsuð sem kynning á japönskum hugarheimi auk þess sem hægt er að horfa á hana bæði á ensku og japönsku (með enskum texta).

Svo er það meiðslin sem ég varð fyrir rétt fyrir páskafrí. Ég meiddi mig í baki og var verulega áhyggjufulur yfir því að hafa mögulega skaðað mig varanlega á hrygg. Með tímanum útilokaði ég þann möguleika og fannst líklegast að ég hefði brákað rifbein. Úrskurður læknis eftir vandlega þreifingu á beinagrindinni bakatil var hins vegar sakleysislegri: Bakvöðvarnir voru aumir eftir höggið. Annað ekki. Sársaukinn við það eitt að hósta var hins vegar svipaður - stingandi!

En hvað kom fyrir? Ég skammast mín of mikið fyrir það til að greina frá hér en ef einhver vill fá nánari skýringu má ganga eftir því í eigin persónu. Því mun fylgja saga af fáránlegum fíflaskap.

fimmtudagur, mars 18, 2010

Fréttnæmt: Tímamót að vori

Nú er aldeilis vor í lofti. Einstaklega fallegt veður - enda á ég afmæli í dag. Ég lít alltaf á þetta sem tímamót, ekki bara í mínu lífi heldur verða tilfinnanleg straumhvört í veðurfari líka. Veturinn er á bak og burt og vorið boðar komu sína. Afmælið mitt er eins og Lóan, boðberi vorsins, nema það að ég er á undan :-)

Mér finnst talan 38 að sumu leyti skuggaleg ef maður veltir því mikið fyrir sér en ásættanleg af því hún er svo yfirveguð. Hér er staldrað við í passlegri fjarlægð frá fertugsaldrinum. Annað en 37 ára aldurinn sem er óstöðugur - enda prímtala. Mér fannst einhvern veginn alltaf erfitt að muna hvað ég var gamall á liðnu ári, jafnvel þó 3 plús 7 séu tíu.

Gamall? Nei, mér finnst ég ekkert hafa elst síðan ég var 28. Hins vegar er alltaf lengra og lengra síðan ég fæddist.

miðvikudagur, mars 17, 2010

Fréttnæmt: Tölvuleysi

Nú er ég búinn að vera tölvulaus í nokkra daga. Ég fór með hana í yfirhalningu hjá vini mínum og gaf honum svigrúm til að sinna henni eftir eigin hentugleikum. Það þarf bara að uppfæra stýrikerfi og ýmis grunnforrit. Fyrir vikið hef ég ekki getað skrifaði tölvupóst eða sinnt blogginu sem skyldi. Núna er hins vegar róleg stund í vinnunni...

(Tímabundið innskot: Hef bætt smá klausu við síðustu færslu, praktískar upplýsingr um veitingar í Borgarnesinu)

þriðjudagur, mars 09, 2010

Pæling: Náttúruskoðun og útúrdúrar í bústaðaferð

Eins og fram kom síðast fórum við í bústaðarferð um helgina. Við dvöldum í bústað í Svignaskarði, Borgarfirði. Ég nýtti tækifærið og skoðaði mig lítillega um. Veðrið var ekki sérlega notalegt reyndar. Það hafði skollið á með skyndivetri, bálhvasst fyrsta daginn með frosti. Á laugardeginum snjóaði. Síðan þiðnaði þetta allt saman. Upp úr krafsinu hafði ég athyglisvert myndefni sem lýsir veðrinu. Fyrst staðnæmdist ég við lítinn poll með athyglisverðar frostmyndanir. Yfirborðið hafði fokið upp á nokkur stingandi strá og frosið í taumum upp stráin eins og grýlukerti á leið upp á við.


Klakastrá
Originally uploaded by Steiniberg.


Síðan kíkti ég á nánasta umhverfi. Svignaskarð er um það bil kílómetra frá vegasjoppunni Baulu, sem er rétt fyrir sunnan Munaðarnes. Menn kannast eflaust við einkennandi bergmyndanir í Borgarfirði - klettastalla sem standa upp úr sléttlendinu vítt og breitt. Þarna er hins vegar að finna þröngt og flott gil sem fer eflaust fram hjá flestum. Það virkar mjög tilkomumikið í þeim hálfkaraða vetrarbúningi sem umhverfið var búið. Gömul brú rétt fyrir neðan þjóðveginn gerir staðinn myndrænni en ella:


Bruargil
Originally uploaded by Steiniberg.



Svo fór maður í bíltúr í Borgarnes. Mikið er það áhugaverður bær! Það er hægt að hringsóla um bæinn og skoða endalaust, enda náttúrlegt bæjarstæði mjög stöllótt og lifandi. Það sem vakti upphaflega áhuga minn var að kíkja á útíbú Laugarásvídeós. Þeir hafa verið með leigu á Borgarnesi um nokkurt skeið og var það til þess að þeir gátu hafið starfsemi í Reykjavík tiltölulega fljótlega á ný eftir brunann í fyrra. Útibúið bjargaði innbúinu! Annars vakti helst athygli mína frábær leikvöllur fyrir börn sem kallast Bjössaróló. Þetta er sögufrægur heimasmíðaður leikvöllur á fremur óaðgengilegum en afar spennandi stað. Leiktæki eru hvert öðru ævintýralegra og öll umgjörðin vönduð. Vegna veðurs gátum við ekki staldrað lengi við (það var bálhvasst) og ég náði fyrir vikið ekki almennilegum myndum til staðfestingar þessari fjálglegu lýsingu. Útsýnið frá staðnum verður því að duga! Þetta er gönguleiðin þangað :-)



Bjossarolo
Originally uploaded by Steiniberg.



Ferðin í Borgarfjörðinn (og Borgarnesið, nánar til tekið) hins vegar ekki aðeins upplífgandi náttúruupplifun og bæjarrölt. Hún var líka svolítið lærdómsrík. Við lærðum af misjafnri reynslu hvar best væri að næra sig í Borgarnesinu. Þar sem margir þurfa að staldra þar við á leiðinni norður hlýtur þetta að teljast praktískar upplýsingar. En það var þannig að við byrjuðum ferðina á því að borða afleitan mat á leiðinni í bústaðinn í Hyrnunni. Eftir á að hyggja hefði sú niðurstaða átt að vera fyrirsjáanleg. Staðurinn er erilsamur og frekar stór og ákaflega ópersónulegur. Hann hentar ágætlega stórum hópum, fullum rútum af skólaferðalöngum til dæmis. Staðurinn fyrir neðan, Shell-sjoppan, er hins vegar mikið huggulegri, afslappaðri og býður upp á töluvert betri mat. Það sannreyndum við á leiðinni heim. Verðið er kannski svipað en andrúmsloftið og gæði matarins í öðrum klassa. Ég fékk mér hrísgrjóna- og rækjufylltan pönnukökuvafning með karrísósu á meðan Vigdís prófaði djúpsteiktan fisk sem reyndist mun betri en sambærilegur fiskur á hinum staðnum. Þarna var hægt að slaka á og njóta mun betra útsýnis en af hinum staðnum (beint fyrir ofan brúna). Þetta ætlum við Vigdís svo sannarlega að hafa í minnum þegar við keyrum norður eða vestur næst - einhvern tímann í sumar, vonandi.

mánudagur, mars 08, 2010

Daglegt líf: Þriggja ára afmæli Togga

Við skruppum í bústaðaferð um helgina í tilefni af þrítugsafmæli Togga (hennar Ásdísar). Fóstrurnar vissu upp á hár hvað var í vændum, meira að segja hjá henni Hugrúnu. Hún var búin að greina frá því að hún væri á leið upp í sumarbústað, að þar væri "heitur pottur", að hann Toggi ætti afmæli. Hann væri "þriggja" ára.

Ég sagði henni Vigdísi frá þessu á leiðinni úr bænum og hún hló að sjálfsögðu góðlátlega að þessari glöggu athugun og frásögn Hugrúnar. Þá heyrðist úr aftursætinu, skýrt og skorinort: "Pabbi! Mamma! Þetta er ekki fyndið!" Aftur var það Hugrún. Maður gleymir því stundum hvað þær heyra vel og hlusta vel.

Í afmælinu í sumarbústaðnum fór vel um alla. Þar var margt um manninn. Einhverju sinni mátti ég til að endurtaka þessa sögu af Hugrúnu í veislunni, enda hún skammt undan, og minntist í kjölfarið á Togga sem "afmælisbarnið" í því samhengi. Það fannst Hugrúnu hins vegar skjóta verulega skökku við að kalla hann "barn" og ákvað að leiðrétta mig: "Hann er ekki afmælisbarn. Hann er þri...." og svo staldraði hún við andartak áður en hún leiðrétti sig "...hann er 4 ára".

fimmtudagur, mars 04, 2010

Fréttnæmt: Athyglisverð myndlistarsýning fyrir barnafjölskyldur

Nú er að koma helgi og tímabært að minna fólk, einkum barnafólk, á merkilega sýningu sem klárast einmitt um þessa helgi. Verið er að sýna í Gerðubergi myndskreytingar íslenskra barnabóka (með bækurnar sjálfar til hliðsjónar). Þetta er grípandi sýning fyrir bæði börn og foreldra. Ekki veit ég nákvæmlega hvenær húsið er opið en þó veit ég fyrir víst að bókasafnið, sem er til húsa í sömu byggingu, er opið báða helgardagana frá eitt til fjögur. Tilvalið að kíkja með fjölskyldunni. Sjálfur rataði ég þangað um síðustu helgi fyrir tilviljun á leiðinni á bókasafnið. Sem betur fer voru Signý og Hugrún með í för og nutu góðs af. Við mættum á svæðið rétt fyrir hálf fjögur og næstum því misstum af opnun bóksafnsins því myndverkin á neðri hæðinni voru svo skemmtileg.