mánudagur, mars 08, 2010

Daglegt líf: Þriggja ára afmæli Togga

Við skruppum í bústaðaferð um helgina í tilefni af þrítugsafmæli Togga (hennar Ásdísar). Fóstrurnar vissu upp á hár hvað var í vændum, meira að segja hjá henni Hugrúnu. Hún var búin að greina frá því að hún væri á leið upp í sumarbústað, að þar væri "heitur pottur", að hann Toggi ætti afmæli. Hann væri "þriggja" ára.

Ég sagði henni Vigdísi frá þessu á leiðinni úr bænum og hún hló að sjálfsögðu góðlátlega að þessari glöggu athugun og frásögn Hugrúnar. Þá heyrðist úr aftursætinu, skýrt og skorinort: "Pabbi! Mamma! Þetta er ekki fyndið!" Aftur var það Hugrún. Maður gleymir því stundum hvað þær heyra vel og hlusta vel.

Í afmælinu í sumarbústaðnum fór vel um alla. Þar var margt um manninn. Einhverju sinni mátti ég til að endurtaka þessa sögu af Hugrúnu í veislunni, enda hún skammt undan, og minntist í kjölfarið á Togga sem "afmælisbarnið" í því samhengi. Það fannst Hugrúnu hins vegar skjóta verulega skökku við að kalla hann "barn" og ákvað að leiðrétta mig: "Hann er ekki afmælisbarn. Hann er þri...." og svo staldraði hún við andartak áður en hún leiðrétti sig "...hann er 4 ára".

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

HAHAhahahaha
Við erum búin að hlægja okkur
máttlaus af þessari yndislegu
frásögn .

Þær systur eru magnaðar...
Og Hugrún ætlar ekki að verða
eftirbátur Signýjar á þennan hátt...

Knús til ykkar
Begga frænka