Eins og fram hefur komið hef ég verið í vandræðum með tölvuna undanfarið. Það skýrir að hluta til langavarandi þögn. Nú er hins vegar komið að mánaðarmótum og kannski tímabært að líta aðeins um öxl á þá atburði sem standa upp úr í mars...
Þrennt stóð upp úr: frábærir tónleikar í Salnum, ferming Fannars (systursonar) og meiðsli.
Ég fór á tónleika með Beggu systur 10. mars síðastliðinn í Salnum. Þau Jóhanna Guðrún og Ingó voru með dúettaprógramm af ýmsu tagi. Sumt var mjög "svalt" (Johnny Cash dúettar og Nick Cave, svo eitthvað sér nefnt) og annað var poppað og grípandi (lög úr Grease eða Dirty Dancing). Allt steinlá meira eða minna. Þau tvö bættu hvort annað upp mjög skemmtilega. Hann er einstaklega öruggur á sviði og á gott með að tala við salinn og slá á létta strengi á meðan hún er með einstaka rödd og lyftir gæðunum á næsta plan. Hann náði sem sagt að taka stífnina svolítið úr Jóhönnu Guðrúnu en hún neyddi hann til að taka á honum stóra sínum sem söngvara til þess eins að standa uppi í hárinu á henni. Og það getur hann svo sem. Það eiga þau hins vegar sameiginlegt að vera geysilega músíkölsk bæði tvö og geta leikið sér svolítið með tónlistina. Útkoman var því frábær í líflegu og áhugaverðu prógrammi. Sem er eins gott því mér skilst að tónleikarnir hafi verið teknir upp (og aðrir tvennir tónleikar haldnir í kjölfarið að auki). Ég er eiginlega er illa svikinn ef þau ætla ekki að herja á innanlandsmarkað með sumrinu. Með því að gefa plötuna úr í byrjun sumar yrðu þau eflaust eftirsótt á sveitaböllum og árshátíðum langt fram eftir ári. Það getur ekki annað en gengið upp því sérstaða prógrammsins er algjör og vinsældir þeirra sem söngvara í algjöru hámæli um þessar mundir. Það verður spennandi að sjá hvað setur.
Svo er það ferming Fannars (sonar Beggu, fyrir þá sem ekki vita). Það var sunnudaginn 21. mars og var haldið í sal sem mamma hafði aðgang að gegnum vinnuna. Í fermingum koma jafnan saman tveir fjölskylduvængir sem ekki hafa stöðug samskipti sín á milli. Útkoman er oft vandræðaleg og stíf en í þetta skipti er ég á því að veislan hafi verið með afslappaðra móti. Það var eitthvað heimilislegt við staðsetninguna. Maturinn hitti í mark og allir lögðu sig fram um að eiga góða stund saman. Það tókst ljómandi vel, að mínu mati. Við gáfum Fannari Japönskunámskeið sem mér skilst að hann hafi verið kampakátur með auk þess sem ég hvatti Villa bróður til að bæta við áhugaverðri japanskri teiknimynd í einskonar Disney-heimi þeirra Japana. Hún er hugsuð sem kynning á japönskum hugarheimi auk þess sem hægt er að horfa á hana bæði á ensku og japönsku (með enskum texta).
Svo er það meiðslin sem ég varð fyrir rétt fyrir páskafrí. Ég meiddi mig í baki og var verulega áhyggjufulur yfir því að hafa mögulega skaðað mig varanlega á hrygg. Með tímanum útilokaði ég þann möguleika og fannst líklegast að ég hefði brákað rifbein. Úrskurður læknis eftir vandlega þreifingu á beinagrindinni bakatil var hins vegar sakleysislegri: Bakvöðvarnir voru aumir eftir höggið. Annað ekki. Sársaukinn við það eitt að hósta var hins vegar svipaður - stingandi!
En hvað kom fyrir? Ég skammast mín of mikið fyrir það til að greina frá hér en ef einhver vill fá nánari skýringu má ganga eftir því í eigin persónu. Því mun fylgja saga af fáránlegum fíflaskap.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli