þriðjudagur, mars 09, 2010

Pæling: Náttúruskoðun og útúrdúrar í bústaðaferð

Eins og fram kom síðast fórum við í bústaðarferð um helgina. Við dvöldum í bústað í Svignaskarði, Borgarfirði. Ég nýtti tækifærið og skoðaði mig lítillega um. Veðrið var ekki sérlega notalegt reyndar. Það hafði skollið á með skyndivetri, bálhvasst fyrsta daginn með frosti. Á laugardeginum snjóaði. Síðan þiðnaði þetta allt saman. Upp úr krafsinu hafði ég athyglisvert myndefni sem lýsir veðrinu. Fyrst staðnæmdist ég við lítinn poll með athyglisverðar frostmyndanir. Yfirborðið hafði fokið upp á nokkur stingandi strá og frosið í taumum upp stráin eins og grýlukerti á leið upp á við.


Klakastrá
Originally uploaded by Steiniberg.


Síðan kíkti ég á nánasta umhverfi. Svignaskarð er um það bil kílómetra frá vegasjoppunni Baulu, sem er rétt fyrir sunnan Munaðarnes. Menn kannast eflaust við einkennandi bergmyndanir í Borgarfirði - klettastalla sem standa upp úr sléttlendinu vítt og breitt. Þarna er hins vegar að finna þröngt og flott gil sem fer eflaust fram hjá flestum. Það virkar mjög tilkomumikið í þeim hálfkaraða vetrarbúningi sem umhverfið var búið. Gömul brú rétt fyrir neðan þjóðveginn gerir staðinn myndrænni en ella:


Bruargil
Originally uploaded by Steiniberg.



Svo fór maður í bíltúr í Borgarnes. Mikið er það áhugaverður bær! Það er hægt að hringsóla um bæinn og skoða endalaust, enda náttúrlegt bæjarstæði mjög stöllótt og lifandi. Það sem vakti upphaflega áhuga minn var að kíkja á útíbú Laugarásvídeós. Þeir hafa verið með leigu á Borgarnesi um nokkurt skeið og var það til þess að þeir gátu hafið starfsemi í Reykjavík tiltölulega fljótlega á ný eftir brunann í fyrra. Útibúið bjargaði innbúinu! Annars vakti helst athygli mína frábær leikvöllur fyrir börn sem kallast Bjössaróló. Þetta er sögufrægur heimasmíðaður leikvöllur á fremur óaðgengilegum en afar spennandi stað. Leiktæki eru hvert öðru ævintýralegra og öll umgjörðin vönduð. Vegna veðurs gátum við ekki staldrað lengi við (það var bálhvasst) og ég náði fyrir vikið ekki almennilegum myndum til staðfestingar þessari fjálglegu lýsingu. Útsýnið frá staðnum verður því að duga! Þetta er gönguleiðin þangað :-)



Bjossarolo
Originally uploaded by Steiniberg.



Ferðin í Borgarfjörðinn (og Borgarnesið, nánar til tekið) hins vegar ekki aðeins upplífgandi náttúruupplifun og bæjarrölt. Hún var líka svolítið lærdómsrík. Við lærðum af misjafnri reynslu hvar best væri að næra sig í Borgarnesinu. Þar sem margir þurfa að staldra þar við á leiðinni norður hlýtur þetta að teljast praktískar upplýsingar. En það var þannig að við byrjuðum ferðina á því að borða afleitan mat á leiðinni í bústaðinn í Hyrnunni. Eftir á að hyggja hefði sú niðurstaða átt að vera fyrirsjáanleg. Staðurinn er erilsamur og frekar stór og ákaflega ópersónulegur. Hann hentar ágætlega stórum hópum, fullum rútum af skólaferðalöngum til dæmis. Staðurinn fyrir neðan, Shell-sjoppan, er hins vegar mikið huggulegri, afslappaðri og býður upp á töluvert betri mat. Það sannreyndum við á leiðinni heim. Verðið er kannski svipað en andrúmsloftið og gæði matarins í öðrum klassa. Ég fékk mér hrísgrjóna- og rækjufylltan pönnukökuvafning með karrísósu á meðan Vigdís prófaði djúpsteiktan fisk sem reyndist mun betri en sambærilegur fiskur á hinum staðnum. Þarna var hægt að slaka á og njóta mun betra útsýnis en af hinum staðnum (beint fyrir ofan brúna). Þetta ætlum við Vigdís svo sannarlega að hafa í minnum þegar við keyrum norður eða vestur næst - einhvern tímann í sumar, vonandi.

Engin ummæli: