sunnudagur, apríl 29, 2012

Eftirminnileg skírn

Á sumardaginn fyrsta vöknuðum við hress og kát. Veðrið var frábært (eins og ég kom inn á í síðustu færslu) og stelpurnar iðuðu í skinninu eftir að fá að prófa nýja leikfangið (sem ég skrifaði líka um í síðustu færslu). En ekki var minni spennan eftir skírninni sem við vorum að fara í. Jón Már og Margrét eignuðust dóttur á dögunum og við gerðum okkur leik úr því í morgunsárið að geta okkur til um nafnið. Þetta er orðið að hefð hjá okkur og furðu oft höfum við ratað á rétt nafn (sjá hér). Leikurinn í ár var með einfaldasta móti; ég spurði alla heima um nafn og skráði hjá mér það fyrsta sem þeim datt í hug. Signý sagði "Emilía" og Hugrún var henni sammála. Vigdísi datt í hug nafnið Íris Ósk. Mér datt hins vegar í hug "Sigurlaug Bára". Svolítið skemmtilegt hvað þetta voru ólíkar tillögur. Svo skellti þessu öllu saman í eftirfarandi kveðju í skírnarkortinu (ég held ég muni þetta nokkurn veginn orðrétt): Til hamingju með daginn! Við vonum að hún Emilía litla beri nafn með rentu, hvort sem hún heitir Sigurlaug Bára eða Íris Ósk... Kortinu var auðvitað laumað utan á pakkan og hann skilinn eftir á vísum stað þegar við komum inn. Skírt var í heimahúsi, enda gott að athafna sig heima hjá þeim Jóni og Margréti. Allt gekk sinn vanagang, falleg skírn og virðulegir gestir en ég verð að viðurkenna að ég man varla eftir neinum smáatriðum athafnarinnar því um mig fór undarlegur fiðringur við að heyra skírnarnafnið þegar að því kom: Sigurlaug Elfa! Hvaðan kom þetta eiginlega og hvernig gat ég verið svo nærri með ágiskunina? Er þetta hugsanaflutningur eða er undirmeðvitundin bara svona mögnuð? Þegar rætt var um nafngiftina yfir borðhaldinu (rjúkandi karrílöguð fiskisúpa) bar á góma að sú litla hefði verið skírð í höfuðið á móðurömmu sinni. Eflaust hafði ég heyrt hennar getið en var ekki meðvitaðri um það en svo að ef ég hefði verið inntur eftir því hvað hún héti þá myndi ég hafa staðið á gati. En undirmevitundin er lævís og dúkkar upp með vitneskju öðru hvoru þegar minnst varir :-) Svo er það tengingin við vatn þarna strax á eftir. Tilviljun? Kannski svipaður smekkur okkar Jóns og Margrétar? Eða kannski þekkti ég þau nógu vel til að giska á náttúrunafn því þau eru miklir unnendur útivistar. Bára er kannski ekki alveg það sama og Elfur (fljót) og eftir á að hyggja hefði ég getað gert betur því stórfljótin liðast fram hjá Klaustri þar sem Margrét er uppalin. Það er auðvelt að vera vitur eftir á ;-)

Daglegt líf: Nýtt leikfang

Sumarið fer aldeilis vel af stað. Dagarnir kringum sumardaginn fyrsta voru bjartir og fagrir (en svolítið svalir). Svo kom smá dumbungur og rigingin en það hefur nú vikið fyrir blíðviðri. Signý og Hugrún nutu þess í dag að fara í bíltúr upp í bústað til Ásdísar og Togga og þar spókuðu þær sig í rjómablíðu. Þangað fóru þær með afa sínum, Einari, og Kristínu ömmu ásamt Kristni. Við Vigdís vorum hins vegar heima að taka til og undirbúa einhvers konar veislu eða heimboð sem haldið verður í tilefni af fimm ára afmæli Hugrúnar. Hún nær þeim merka áfanga á morgun en boðið verður heim daginn eftir, fyrsta maí. Stelpurnar hafa verið duglegar að leika sér úti það sem af er vori (eða á maður kalla þetta "sumar" það sem af er?). Þær fengu skemmtilegt leikfang í sumargjöf, bíl sem kallast didicar eða "swing car" eins og hann er líka kallaður. Þetta er eins konar bíl sem knúinn er áfram af snúningsafli (ég hef ekki annað orð yfir kraftinn sem knýr hann áfram). Þær þurfa bara að snúa stýrinu ótt og títt til hliðanna og við það mjakast bíllinn áfram. Hér má sjá myndband af því hvernig hann virkar. Stórsniðugt fyrirbæri. Slagorð fyribærisins er líka skemmtilegt, en það hljómar svona: No motor, no batteries! Just add childen! :-)

laugardagur, apríl 21, 2012

Málshættirnir

Nú eru páskarnir löngu að baki. Eftir sitja málshættirnir. Tveir þeirra eru mér minnisstæðir. Annar þeirra hljómaði einhvern veginn svona: "Fiskur gleypir beitu en öngull grípur fisk". Þetta er einn af þessum óræðu málsháttum sem vísa á það hvernig tveir aðilar hafa innbyrðis áhrif, eins og "sjaldan veldur einn þá tveir deila". Í samskiptum para eða hjóna eru þessi áhrif mjög nærtæk. Semsagt: Jón rífst við Gunnu af því Gunna rífst við Jón á sama hátt og Jón laðast að Gunnu af því Gunna laðast að Jóni. Hins vegar er annar málsháttur sem gægðist úr eggi búinn að vera í huga mér reglulega undanfarna viku: "Maður ætlar engum öðrum það sem maður hefur ekki sjálfur". Hvað merkir þetta? Við ræddum málsháttinn nokkuð ítarlega í páskaboði og var fyrst starsýnt á eigingjarna merkingu málsháttarins. Við sáum í fljótu bragði hvernig gefið var í skyn að maður "gefi" helst ekki öðrum það sem maður hafi ekki sjáflur fyrir. Til dæmis er óhamingjusamur einstaklingur mjög bitur út í alla glaðværð annarra. Það má líka sjá fyrir sér einfalda gjöf og sá eigingjarni gefur bara það sem hann hefur ekki not fyrir sjálfur. En svo stendur einhverstaðar annars staðar að "sönn gjöf krefjist fórna". Sá sem er sannarlega örlátur er til í að færa öðrum það sem hann sjálfur hefur not fyrir - gefa þeim heittelskaða síðasta "Rolo molann", eins og auglýsingin sagði um árið. Sú hugsun er algjör andstæða þess sem við lásum úr úr málshættinum. Smám saman fór hins vegar önnur merking að gera sig gildandi: "Það sem maður getur ekki sjálfur (eða ræður ekki við sjálfur) ætlast maður ekki til af öðrum". Hér er um "kröfur" til annarra að ræða. Þessum málshætti er nefnilega hægt að snúa á hvolf og segja: "Það sem maður ræður við sjálfur er sjálfsagt að gera kröfur til hjá öðrum". Hver kannast ekki við að hrista hausinn yfir því þegar spurningalið í "Gettu betur" kunna ekki eitthvað sem maður sjálfur kann. Hvað hroki er það? Sá sem kann að gera við bíl finnst allir aular sem ekki kunna almennilega til verka á því sviði. Eins hneykslast íslenskufræðingur á stafsetningarvillum annarra. Er þetta ekki alltaf svona?

föstudagur, apríl 13, 2012

Þroskaferli: Skilaboð Signýjar

Signý er á fullu að æfa sig í lestri þessa dagana og Hugrún fylgist náið með. Núna er Signý farin að færa sig upp á skaftið. Hún er farin að skrifa alls kyns skemmtilegar smásögur sem hún myndskreytir eftir kúnstarinnar reglum. Stundum er vandasamt að lesa út úr þessum sögum því hún er ekki farin að setja bil á milli orða enn þá. En skemmtilegastar eru orðsendingarnar og skilaboðin sem hún skilur stundum eftir hér og þar. Um daginn fékk hún vinkonu sína í heimsókn . Hún var nýbúin að taka mjög vandlega til í herberginu og hafði áhyggjur af því að allt færi á hvolf í ný. En þá skrifaði hún bara á miða (og límdi á hurðina) "Það er verið að mála herbergið". Svo keyptum við pitsur um daginn vegna þess að við fengum óvæntan gest og höfðum ekki tíma til að sinna matseld. Þá var mín kampakát og skellti miða á útidyrahurðina: "Pitsuveisa" (með broskalli og blöðrum, auðvitað).