laugardagur, apríl 21, 2012

Málshættirnir

Nú eru páskarnir löngu að baki. Eftir sitja málshættirnir. Tveir þeirra eru mér minnisstæðir. Annar þeirra hljómaði einhvern veginn svona: "Fiskur gleypir beitu en öngull grípur fisk". Þetta er einn af þessum óræðu málsháttum sem vísa á það hvernig tveir aðilar hafa innbyrðis áhrif, eins og "sjaldan veldur einn þá tveir deila". Í samskiptum para eða hjóna eru þessi áhrif mjög nærtæk. Semsagt: Jón rífst við Gunnu af því Gunna rífst við Jón á sama hátt og Jón laðast að Gunnu af því Gunna laðast að Jóni. Hins vegar er annar málsháttur sem gægðist úr eggi búinn að vera í huga mér reglulega undanfarna viku: "Maður ætlar engum öðrum það sem maður hefur ekki sjálfur". Hvað merkir þetta? Við ræddum málsháttinn nokkuð ítarlega í páskaboði og var fyrst starsýnt á eigingjarna merkingu málsháttarins. Við sáum í fljótu bragði hvernig gefið var í skyn að maður "gefi" helst ekki öðrum það sem maður hafi ekki sjáflur fyrir. Til dæmis er óhamingjusamur einstaklingur mjög bitur út í alla glaðværð annarra. Það má líka sjá fyrir sér einfalda gjöf og sá eigingjarni gefur bara það sem hann hefur ekki not fyrir sjálfur. En svo stendur einhverstaðar annars staðar að "sönn gjöf krefjist fórna". Sá sem er sannarlega örlátur er til í að færa öðrum það sem hann sjálfur hefur not fyrir - gefa þeim heittelskaða síðasta "Rolo molann", eins og auglýsingin sagði um árið. Sú hugsun er algjör andstæða þess sem við lásum úr úr málshættinum. Smám saman fór hins vegar önnur merking að gera sig gildandi: "Það sem maður getur ekki sjálfur (eða ræður ekki við sjálfur) ætlast maður ekki til af öðrum". Hér er um "kröfur" til annarra að ræða. Þessum málshætti er nefnilega hægt að snúa á hvolf og segja: "Það sem maður ræður við sjálfur er sjálfsagt að gera kröfur til hjá öðrum". Hver kannast ekki við að hrista hausinn yfir því þegar spurningalið í "Gettu betur" kunna ekki eitthvað sem maður sjálfur kann. Hvað hroki er það? Sá sem kann að gera við bíl finnst allir aular sem ekki kunna almennilega til verka á því sviði. Eins hneykslast íslenskufræðingur á stafsetningarvillum annarra. Er þetta ekki alltaf svona?

Engin ummæli: