sunnudagur, apríl 29, 2012

Daglegt líf: Nýtt leikfang

Sumarið fer aldeilis vel af stað. Dagarnir kringum sumardaginn fyrsta voru bjartir og fagrir (en svolítið svalir). Svo kom smá dumbungur og rigingin en það hefur nú vikið fyrir blíðviðri. Signý og Hugrún nutu þess í dag að fara í bíltúr upp í bústað til Ásdísar og Togga og þar spókuðu þær sig í rjómablíðu. Þangað fóru þær með afa sínum, Einari, og Kristínu ömmu ásamt Kristni. Við Vigdís vorum hins vegar heima að taka til og undirbúa einhvers konar veislu eða heimboð sem haldið verður í tilefni af fimm ára afmæli Hugrúnar. Hún nær þeim merka áfanga á morgun en boðið verður heim daginn eftir, fyrsta maí. Stelpurnar hafa verið duglegar að leika sér úti það sem af er vori (eða á maður kalla þetta "sumar" það sem af er?). Þær fengu skemmtilegt leikfang í sumargjöf, bíl sem kallast didicar eða "swing car" eins og hann er líka kallaður. Þetta er eins konar bíl sem knúinn er áfram af snúningsafli (ég hef ekki annað orð yfir kraftinn sem knýr hann áfram). Þær þurfa bara að snúa stýrinu ótt og títt til hliðanna og við það mjakast bíllinn áfram. Hér má sjá myndband af því hvernig hann virkar. Stórsniðugt fyrirbæri. Slagorð fyribærisins er líka skemmtilegt, en það hljómar svona: No motor, no batteries! Just add childen! :-)

Engin ummæli: