sunnudagur, apríl 29, 2012

Eftirminnileg skírn

Á sumardaginn fyrsta vöknuðum við hress og kát. Veðrið var frábært (eins og ég kom inn á í síðustu færslu) og stelpurnar iðuðu í skinninu eftir að fá að prófa nýja leikfangið (sem ég skrifaði líka um í síðustu færslu). En ekki var minni spennan eftir skírninni sem við vorum að fara í. Jón Már og Margrét eignuðust dóttur á dögunum og við gerðum okkur leik úr því í morgunsárið að geta okkur til um nafnið. Þetta er orðið að hefð hjá okkur og furðu oft höfum við ratað á rétt nafn (sjá hér). Leikurinn í ár var með einfaldasta móti; ég spurði alla heima um nafn og skráði hjá mér það fyrsta sem þeim datt í hug. Signý sagði "Emilía" og Hugrún var henni sammála. Vigdísi datt í hug nafnið Íris Ósk. Mér datt hins vegar í hug "Sigurlaug Bára". Svolítið skemmtilegt hvað þetta voru ólíkar tillögur. Svo skellti þessu öllu saman í eftirfarandi kveðju í skírnarkortinu (ég held ég muni þetta nokkurn veginn orðrétt): Til hamingju með daginn! Við vonum að hún Emilía litla beri nafn með rentu, hvort sem hún heitir Sigurlaug Bára eða Íris Ósk... Kortinu var auðvitað laumað utan á pakkan og hann skilinn eftir á vísum stað þegar við komum inn. Skírt var í heimahúsi, enda gott að athafna sig heima hjá þeim Jóni og Margréti. Allt gekk sinn vanagang, falleg skírn og virðulegir gestir en ég verð að viðurkenna að ég man varla eftir neinum smáatriðum athafnarinnar því um mig fór undarlegur fiðringur við að heyra skírnarnafnið þegar að því kom: Sigurlaug Elfa! Hvaðan kom þetta eiginlega og hvernig gat ég verið svo nærri með ágiskunina? Er þetta hugsanaflutningur eða er undirmeðvitundin bara svona mögnuð? Þegar rætt var um nafngiftina yfir borðhaldinu (rjúkandi karrílöguð fiskisúpa) bar á góma að sú litla hefði verið skírð í höfuðið á móðurömmu sinni. Eflaust hafði ég heyrt hennar getið en var ekki meðvitaðri um það en svo að ef ég hefði verið inntur eftir því hvað hún héti þá myndi ég hafa staðið á gati. En undirmevitundin er lævís og dúkkar upp með vitneskju öðru hvoru þegar minnst varir :-) Svo er það tengingin við vatn þarna strax á eftir. Tilviljun? Kannski svipaður smekkur okkar Jóns og Margrétar? Eða kannski þekkti ég þau nógu vel til að giska á náttúrunafn því þau eru miklir unnendur útivistar. Bára er kannski ekki alveg það sama og Elfur (fljót) og eftir á að hyggja hefði ég getað gert betur því stórfljótin liðast fram hjá Klaustri þar sem Margrét er uppalin. Það er auðvelt að vera vitur eftir á ;-)

Engin ummæli: