föstudagur, september 19, 2003

Þórsmerkursmekkleysa
Ég fór í Þórsmörk fyrir um viku síðan, á fimmtudaginn ellefta sept. Þetta var svona nýnemaferð fyrir FÁ-inga þar sem til stóð að busa þá og fleira. Ég álpaðist þangað með frænda mínum sem á við þá fötlun að stríða að vera Asperger (skylt einhverfu) og mitt hlutverk var að hafa auga með honum. Það var út af fyrir sig heilmikil vinna sem ég fer ekkert nánar út í hér. Hins vegar finnst mér verulega frásagnarvert að hafa upplifað skemmtiatriði nemendafélagsins á kvöldvökunni. Nemendafélagið stjórnaði sem sé kvöldinu af yfirvegun og kúlheitum á meðan ólgandi nýnemar allt í kring reyndu að finna sig í hópnum. Atriðin voru öll fremur ósmekkleg eins og reyndar mátti búast við. Sjálfboðaliðar lentu í leikjum þar sem þeir þurftu að borða einhvern viðbjóð (tveggja vikna gamalt þurrt skyr eða súkkulaðihjúpaðan hákarl) eða standa vandræðalega fyrir framan félagana og syngja einsöng. Gott og vel. Svona er þetta. Hins vegar fóru þeir yfir strikið með því að hafa berstrípunarkeppni milli kynjanna! Hvort lið (tveir strákar og tvær stelpur) átti að leggja föt sín á gólfið og mynda með þeim sem lengstan taum. Það lið vann sem var áræðnara í að afklæðast fyrir framan jafnaldrana, fyrst peysan, svo bolurinn, buxurnar og svo framvegis. Sniðugar reglur, verð ég að viðurkenna, en vafasamur húmor. Næsta atriði var hins vegar öllu verra. Þá áttu fjórir strákar úr nemendafélaginu að taka þátt í atriðinu. Það þýddi, fyrirsjáanlega, að þeirra hlutverk gat ekki verið sérlega slæmt. Jafnmargra sjálfboðaliða var krafist úr salnum og áttu þeir allir að vera kvenkyns. Svo settust drengirnir á stóla og tóku fram banana sem þeir héldu uppréttum í klofstað. Framhaldið segir sig sjálft. Sú sem stæði sig "best" átti að vinna. Ein stúlka hætti við. Gott hjá henni. Þegar fundin var önnur í hennar stað hélt leikurinn áfram. Þær sátu hins vegar vandræðalegar í drjúga stund fyrir framan reðurtáknið á meðan "lýðurinn" hvatti ákaft. Þegar sú fyrsta reið á vaðið fylgdu hinar fylgdu ákaft eftir. Atriðið vakti mikla lukku meðal nemenda og gott ef hópurinn hristist ekki saman við þetta atlæti. En hvaða höft voru rofin með þessu? Hvaða tilfinning situr eftir þegar hópurinn heldur galvaskur til baka til borgarinnar eftir þessa innvígsluathöfn, - þessa upphitun? Hver eru skilaboðin?

Steini

fimmtudagur, september 04, 2003

Skólinn er að byrja og erill vetrarins leggst yfir. Myrkrið fellur mér vel í geð. Ég er upptekinn þessa dagana við að sjá myndir á Kvikmyndahátíðinni bresku og skrifa grein um Gaia-kenninguna (fyrir vísindavefinn). Í lok vikunnar tekur maður námið með trukki. Í miðjum september er planið svo að leita að næstu íbúð og flytjast búferlum um mánaðarmótin.

Steini flakkari