laugardagur, desember 31, 2011

Daglegt líf: Snjóhúsagerð

Hvenær fellur feikilegt fannfergi og hvenær er bara eðlileg snjókoma? Það er kannski ágætur mælikvarði á fannfergi að þegar það tekur styttri tíma að búa til snjóhús en að moka bílinn út úr stæðinu, þá hefur óeðlilega mikið fallið á einni nóttu. Í fyrradag vöknuðum við, eins og allir aðrir, við allt annað landslag en daginn á undan. Það var ópraktískt að fara út úr húsi nema rétt út á lóð. Stelpurnar fengu frí frá leikskóla og frístundaheimili, ekki vegna þess að ég kæmist ekki út úr stæðinu heldur voru aðrir bílaeigendur fastir í götunni rétt fyrir aftan stæðið. Við ákváðum bara að halda okkur heima, enda við Vigdís bæði í fríi, og helguðum daginn snjóhúsagerð. Vigdís mallaði heitt súkkulaði og bara fram sætindi á meðan og beið eftir því að við hin kæmum inn úr snjónum. Það verður ekki mikið jólalegra. Reyndar kláruðum við ekki snjóhúsið heldur bjuggum við bara til fjall/hól í miðjum garðinum og eigum enn eftir að grafa okkur inn. Það bíður betri tíma. Við vorum hins vegar dugleg að þétta hólinn með því að renna okkur á honum á sleða. Meira að segja ég sveiflaði mér upp á hann á eins og á brimbretti og mjakaðist niður hinum megin. Núna er hins vegar von á slyddu yfir áramótin og síðan frystir aftur. Það hentar okkur vel. Þá verður hóllinn orðin glerharður á nýju ári og húsið öruggt. Þá getum við loksins flutt inn.

Tómstundir: Nýtt áhugamál Signýjar

Þetta eru búin að vera fín jól. Við fjölskyldan höfum sofið út upp á hvern einasta dag, aldrei þessu vant. Stelpurnar eru vanar að vakna um áttaleytið um helgar en einhvern veginn duttu þær inn í aðra svefnrútinu. Mjög notalegt. Signý uppgötvaði líka nýtt áhugamál núna á aðventunni og um jólin. Hún fór á skauta með frístundaheimilinu tveim dögum fyrir jól. Fyrst ætlaði hún ekki að fara og talaði um að "bara horfa". Þá ákvað ég að fara með og hvatti hana til að fara inn á svellið. Með stuðningi var hún ákveðnari og skemmti sér fljótt vel. Hún náði hratt árangri með sérstakri stuðningsgrind og áður en hópurinn yfirgaf svellið var hún farin að ýta grindinni frá sér. Strax á eftir talaði hún um að fara aftur á skauta og sú tilhlökkun yfirskyggði tilhlökkunina eftir jólunum. Við skelltum okkur öll á skauta fyrsta virka dag eftir jólin og þá fékk Hugrún að prófa. Signý naut þess að vera orðin tiltölulega örugg en Hugrún var pínu svekkt yfir að vera ekki orðin jafn klár og systir sín í fyrstu tilraun. En svona er þetta bara. Þær eiga ábyggilega eftir að reyna aftur og aftur og ná góðum tökum á þessu. Það verður gaman að sjá árangurinn á árinu sem er framundan.

mánudagur, desember 26, 2011

Þversögn: Hlutverk jólasveina

Jólin eru i fullum gangi. Um daginn, þegar stormur gekk yfir landið í hryðjum, voru menn að stússast í ýmsu í undirbúningi aðfangadagskvölds. Vigdís var heima ásamt Signýju en Hugrún var til í að skjótast með mér á nokkra staði með pakka. Þetta var á hádegi og tiltölulega góður tími til stefnu. Vigdís raðaði gjöfum í poka og sorteraði vandlega þannig að einn poki átti að fara á hvern stað. Þegar hún ætlaði að setja merkimiða á pokana stoppaði ég hana af því ef ég myndi lenda í vafa gæti ég alltaf kíkt í pokana og skoðað merkinguna á þeim. Hún svaraði: "Heldurðu að þú ráðir við þetta?". Ég brosti afslappaður: "Þetta er auðvelt" og fannst hún hafa allt of miklar áhyggjur. Þá svaraði hún og skellti fram óvæntri þversögn: "Ég treysti þér ekki. Þú ert svo mikill jólasveinn!"

Þegar maður deilir út gjöfum hlýtur að vera kostur að vera jólasveinn, er það ekki?

Gleðilega hátíð.

miðvikudagur, desember 21, 2011

Skólinn: Jólaleikrit

Eins og fram kom síðast er mikið búið að vera í gangi. Fyrsta meiriháttar umstangið var í kringum jólaleikritið í Grandaskóla. Þá redduðum við Vigdís okkur pása frá vinnu til að komast og mættum með allar tiltækar myndavélar. Þetta kom ákaflega vel út hjá fyrsta bekk. Allir krakkarnir fengu hlutverk og til þess að svo yrði varð að tvískipta hópnum (stór árgangur) þannig að leikritið var leikið í tveimur hollum. Mikil vinna fyrir kennarana sem eiga hrós skilið fyrir skipulagið. Það var athyglisvert að nemendur fluttu allan texta og skiptu honum á milli sín, blaðalaust. Signý var í englahjörðinni ásamt nokkrum vinkonum sínum og flutti: "Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með þeim mönnum sem Hann hefur velþóknun á" (ég vona að ég hafi haft þetta rétt eftir :-). Signý var nýbúin að fara í klippingu og var með liðaða englalokka. Hún tók sig mjög vel út. Við kipptum Hugrúnu meira að segja með okkur úr leikskólanum þannig að þetta var fjölskylduskemmtun með piparkökum og kakói á eftir.

Þær Hugrún voru býsna uppteknar af helgileiknum um tíma og léku sér heima með leikritið á sinn hátt. Þær renndu í gegnum leikritið með brúðunum sínum. Það er ágætt að geta prufukeyrt hlutverk sín með þessum hætti. Signý á það til að gera þetta líka með hlutverk sitt í daglega lífinu, eins og í skólanum. Þá fer hún í hlutverk kennslukonu og breytir Hugrúnu í nemanda. Maður sér þá hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í skólanum (eins gott að þar sé allt með felldu :-).

Svo sungu þær jólalög í kringum uppfærslurnar sínar: Bjart er yfir Betlehem sérstaklega. Ég tók eftir því að Signý fór rangt með eitt orð í textanum "... var hún áður vitringum VINA-ljósið skæra". Ætli hún hafi verið að hugsa um VINA-súluna í Viðey? Nú er ég að vitna í Friðargönguna sem farin var á vegum leikskólans í október í fyrra í tengslum við tendrun Friðarsúlunnar. Þá kom Signý heim með skilti sem á stóð "Allir vinir". Einhvern veginn tókst henni að tengja Friðarsúluna við skilaboðin á skiltinu sínu. Friðarsúlan heitir sem sagt VINA-súlan á okkar heimili og nú virðist sem vinaljósið skíni líka frá Betlehemstjörnunni. Þetta er eiginlega ekki hægt að leiðrétta. Snýst ekki annars allur friðarboðskapur um að allir eigi að vera vinir?

föstudagur, desember 16, 2011

Fréttnæmt: Annasöm aðventa

Nú er desember búinn að vera erilsamur. Það munar talsvert um það að hafa stelpurnar á sitt hvorum staðnum og vera svo sjálfur þar að auki starfandi í þriðja skólanum. Fyrir vikið fórum við í piparkökuföndur í þrígang. Á sama tíma var Signý upptekin við það að æfa jólaleikritið (þar sem hún var engill með sannkallaða englalokka). Þegar því sleppti var stutt í afmælið hennar, sem haldið var upp á í tvennu lagi: annars vegar fjölskylduboð (síðastliðinn sunnudag) og svo krakkaafmæli (á þriðjudaginn var). Mitt á milli þessara tveggja daga dró svo til stórtíðinda þegar Signý og Hugrún eignðust lítinn frænda. Það var móðursystir þeirra, hún Ásdís, sem eignaðist myndarlegan dreng. Hún mætti reyndar í afmælið á sunnudaginn og það lá vel á henni. Síðan frétti maður af því að morguninn eftir væri drengurinn væri bara fæddur! Svona gerist þetta stundum án mikils fyrirvara. Allt gekk að óskum og Almar litli mætti stoltur með mynd af honum í leikskólann í gær. Signý og Hugrún eru líka voða spenntar fyrir því að sjá litla frænda og eiga von á að fá að kíkja á næstu dögum.

mánudagur, nóvember 28, 2011

Orðaleikur: Jólakveðja

Í stuttri heimsókn um daginn hjá ömmu Sirry (tengdó) nutum við Hugrún og Signý veitinga, eins og venja er á þeim bæ. Vigdís var á námskeiði á sama tíma og því fjarri góðu gamni. Á leiðinni út ætlaði Sirrý að kveðja stelpurnar og ég lagði áherslu á það við þær að kveðja hana nú almennilega. Stundum nota ég orðalagið að "knúsa í klessu" en ákvað að grípa ekki til þess núna. Í staðinn sagði ég bara: "knúsið hana þangað til hún segir æ-æ og ó-ó!" Það vottaði fyrir stríðni í þessari tillögu. Hugrúnu fannst þetta greinlega skemmtileg hugmynd en misskildi hana eitthvað og hefur eflaust haldið að þetta ætti að vera jólakveðja því hún sagði strax við ömmu sína þegar hún greip utan um hana: "Ég ætla að knúsa þig hæ-hæ og hó-hó!"

Upplifun: Aftur í sjónvarpinu

Nú gerðist það aftur um helgina að fjölskyldan í Granskjóli 11 birtist á skjám landsmanna, í þetta skiptið í boði Stöðvar tvö. Við fórum fjögur í sund á föstudegi, eins og við höfum gert undanfarnar vikur, en í stað þess að fara í Neslaugina (sem oftast hefur orðið fyrir valinu á föstudögum) ákváðum við að fara í Vesturbæjarlaug. Tilefnið var stórafmæli - enda 50 ár frá vígslu laugarinnar. Við sáum í hendi okkar afslappaða laugarferð, mættum snemma, á undan veislunni og ætluðum okkur að koma upp úr lauginni á tilsettum tíma og enda dvölina með kaffi og kökum. Sú varð raunin en í kaupbæti fengum við að auki fréttamenn í heimsókn. Hugrún hét hún, fréttakonan á Stöð tvö, sem súmmaði upp að sællegu fjölskyldunni í barnapottinum eftir að hafa hringsólað kringum laugina drjúga stund og tekið ýmsa tali. Viðtalið var ábyggilega tvær mínútur með Vigdísi og Hugrúnu í aðalhlutverkum. Það sem á endanum rataði í sjónvarpið var hins vegar ekki meira en örfáar sekúndur. Vigdís var fegin að hafa verið klippt út en ég var henni ekki sammála. Viðtalsbúturinn við hana var prýðilegur og hefði vel sómt sér á skjám landsmanna. Hugrún fékk hins vegar athyglina og það jafnaði að einhverju leyti út minninguna um að hafa misst af hárgreiðslunámskeiðinu fyrr í haust þegar Signý varð pínu fræg :-)

mánudagur, nóvember 21, 2011

Fréttnæmt: Jarðarför innan stórfjölskyldunnar

Nú um helgina fórum við i fjölskyldunni í jarðarför. Vigdis var að missa ömmu sína og alnöfnu, Vigdísi Einarsdóttur. Þetta var friðsæl athöfn og virðuleg enda var Vigdís eldri komin á tíræðisaldur og sjálf tilbúin að fara. Athöfnin var henni líka sæmandi að því leyti að hún bar sig ávallt vel og kvartaði aldrei. Hún hafði húmor fyrir sjálfri sér en bar hins vegar mikla virðingu fyrir öllu í kringum sig. Hún lifði með mikilli reisn fram á síðustu stundu.

Signý og Hugrún fóru með okkur Vigdísi í jarðarförina. Venjulega hefði það ekki komið til greina en þar sem um friðsæla kveðjustund var að ræða þótti okkur skynsamlegt að leyfa þeim að upplifa þessa hlið lífsins. Þær þekktu Vigdísi eldri ágætlega, voru reyndar alltaf pínu feimnar við hana af því hún var orðin svo gömul, en eiga samt góðar minningar tengdar henni. Við ræddum við þær kvöldið fyrir og fundum að þær voru tilbúnar. Þær komust ekkert í uppnám en urðu svolítið hugsi. Daginn eftir vöknuðu þær og voru greinilega tilbúnar: "Í dag setjum við langömmu í jörðina" sögðu þær og fóru yfirvegað og rólega á fætur. Þær fengu að vera heima í rólegheitum (í stað skóla og leikskóla) enda var jarðarförin rétt upp úr hádegi.

Stelpurnar tóku hlutverk sitt mjög alvarlega og hvísluðu allan tímann í kirkjunni. Ég var hissa á því hvað þær gátu verið rólegar. Þær þurftu að hreyfa sig öðru hvoru og fóru til skiptis í fangið á mér (Vigdís sat annars staðar af þvi hún var kistuberi). Þær fylgdust náið með söngtextunum þegar ég renndi fingri undir orðin enda eru báðar á fullu að læra að lesa. Þess á milli skimuðu þær um kirkjuna, fengu mig til að lyfta sér aðeins til að sjá betur glitta í kistuna og kíktu svo reglulega upp á söngvara og organistann. Þær eiga eflaust eftir að muna eftir þessu alla sína tíð.

Athöfninni lauk þannig að Ásdís gekk í fylkingarbrjósti á undan kistuberum með blómsveiginn út kirkuna - með Signýju og Hugrúnu sér við hlið. Ásdís er ólétt og kom því ekki til greina sem kistuberi en það var mat manna að þetta hafi komið einstaklega fallega út. Kynslóðir koma og kynslóðir fara.

þriðjudagur, nóvember 15, 2011

Upplifun: Gulrótasöludömur

Veðrið er búið að vera ótrúlegt að undanförnu. Það lýsir sér meðal annars í því að matjurtir úr garðinum eru enn í góðu lagi - að minnsta kosti þær harðgerustu, eins og graslaukurinn og gulræturnar. Fyrir rúmlega viku síðan (um helgina 4.-6. nóv.) nýttum við okkur það að eiga enn ferskar gulrætur í garðinum og fórum með þær á markað á Eiðistorgi. Gulræturnar voru eins ferskar og hugsast getur, tíndar upp milli tólf og eitt og komnar á markaðinn rétt fyrir tvö. Ég batt þær saman á "grasinu" í nett búnt til að leggja áherslu á "lífræna ræktun" og þannig seldum við búntin á hundrað krónur stykkið. Stelpurnar nutu þess að vera grænmetissölukonur í einn dag með uppsett hárið í snúð með hárskraut. Við gengum á milli básanna með söluvarninginn okkar í léttum kassa og vorum eins og nammisöludömur á íþróttakappleik, gengum bara á milli og seldum sölufólkinu næringu. Sölubásar voru bæði uppi og niðri og allt um kring. Gulræturnar seldust upp á skömmum tíma (ábyggilega um fimmtán búnt) og flestir höfðu orð á því hvað gulræturnar voru bragðgóðar og söludömurnar ómótstæðilega krúttlegar :-) Signý og Hugrún eignuðust nokkra hundraðkalla hvor og voru fljótar að eyða helmingnum í ís. Restin hringlaði það sem eftir var dagsins í litlum filmuboxum sem ég fann handa þeim. Þær nutu þess að heyra sönginn í peningunum. Fyrstu launin.

sunnudagur, október 23, 2011

Fréttnæmt: Óvenjulegt námskeið

Yfirliti yfir októbermánuð er ekki fullnægt fyrr en minnst hefur verið á einstaklingsframtakið. Ég tók upp á því sjálfur að fara á heldur óvenjulegt námskeið á vegum Tækniskólans sem heitir: "Pabbanámskeið: Að binda í hárið á dætrunum". Ég sá það auglýst í blöðunum rétt fyrir helgi og var ekki lengi að hugsa mig um. Mig hefur lengi langað til að gera hárinu þeirra Signýjar og Hugrúnar almennileg skil. Þær eru nefnilega ekki með auðvelt hár viðureignar. Það er mjög liðað og af einhvers konar millisídd, eins og ég kalla það, sem erfitt að er að setja í tagl eða einfalda fléttu. Ég vildi fá góð ráð og fékk þau á þessu markvissa fjögurra tíma námskeiði sem haldið var einn laugardagseftirmiðdaginn (sjá myndir hér).

Það vildi svo til Kastljósið fór á staðinn og fjallaði lítillega um þetta námskeið. Það var sýnt í sjónvarpinu strax mánudaginn eftir (sjá hér). Signý baðaði sig í athyglinni daginn eftir og upplifði það hvernig það var að vera fræg í smástund. Hugrún var hins vegar pínu svekkt og sagði bara: "Svindl". En þetta var líka ákveðin pressa sem ég hefði helst viljaði komast hjá því nú vissu allir í leikskólanum og Grandskóla hvað ég hafði verið að bralla. Allt í einu fannst mér ég þurfa að skila þeim mjög vandlega greiddum að morgni dags, án teljandi þjálfunar. Ég hafði svo sem metnað til þess og vaknaði ábyggilega hálftíma fyrr á þriðjudeginum og miðvikudeginum en komst brátt að því að þetta var allt takmörkunum háð. Þær Signý og Hugrún voru ekkert hrifnar af því að láta fikta lengi í hárinu sínu svona snemma á morgnana sérstaklega þar sem mig vantaði enn þá alla þjálfun og var kannski full lengi að fikra mig áfram. Svo upplifði ég aðeins of mikla tímapressu svona á morgnana á meðan ég er enn að ná tökum á þessu. Ég sló því slöku við fyrstu tvær vikurnar og einbeitti mér frekar að því að æfa mig örlítið um helgar þegar meiri tími gefst til þess (og tilefnið ef til vill meira, eins og leikhús, afmæli og aðrar uppákomur). Þetta tekur allt sinn tíma.

Upplifun: Töfraflautan

Október hefur verið menningarlega gjöfull mánuður það sem af er þrátt fyrir að maður hafi ekki haft fyrir því að elta stóru hátíðirnar. Það er ekki bara Borgarleikhúsið, PJ Harvey og Lion King. Um daginn bauðst mér upp úr þurru að fara á forsýningu Töfraflautunnar. Jóhanna hans Bjarts tekur þátt í uppfærslunni og gat boðið upp á miða á generalprufuna. Bjartur hnippti sem sagt í mig og ég var ekki lengi að grípa tækifærið.

Aðalsalurinn í Hörpu er mjög flottur og allt það en hljómburðurinn er magnaður! Það hríslaðist um mig gæsahúð þegar allur söngvaraskarinn lét loks vaða í lokaatriðinu. Fram að því var sýningin búin að vera fjölbreytt og misjöfn. Sum atriðin höfðuðu ekki sérstaklega til mín en önnur voru glæsileg. Papagenó fannst mér ótrúlega lifandi og skemmtilegur fuglafangari. Það er af mörgu að taka og margt sem stendur upp úr en sérstaklega fannst mér gaman að sjá þýðinguna á verkinu. Heil ópera hafði sem sagt verið þýtt á íslensku, með söngvænum stuðluðum textum. Ótrúlega vel gert.

Upplifun: Menningin í október

Október er mikill menningarmánuður á Íslandi nú í seinni tíð. Þar munar mest um Iceland Airwaves tónlistarhátíðina og RIFF, alþjóðlegu kvikmyndahátíðina. Ekki gerði ég neinn sérstakan skurk í þessum efnum í ár. Ég lét tónlistarhátíðina alveg lönd og leið og var eiginlega feginn að þurfa ekki að eltast við hljómsveitir niðri í bæ í skammdeginu (en fattaði eftir á að ég hefði þó vel getað hugsað mér að sjá Sinaed O´Connor). Kvikmyndahátíðina lét ég líka að mestu eiga sig. Ég sá enga hefðbundna kvikmynd en skellti mér þó með Jóni Má á mynd sem gerð var eftir tónlistinni á nýjustu plötu PJ Harvey. Þetta er óvenjuleg mynd að því leyti að hún er ekki samfelld mynd né heldur heimildamynd. Myndin er einfaldlega röð af tónlistarmyndböndum sem binda plötuna enn betur saman sem þematíska heild. Með myndræna þættinum verður ádeila plötunnar á Breskt samfélag nútímans enn sterkari og áhrifameiri og gerir plötuna að magnaðri upplifun. Þeir sem vilja glöggva sig á þessu geta skoðað Youtube-svæði sem kallast Let England Shake eftir heiti plötunnar. Það er ekki margt að gerast í dag í tónlistarheiminum sem hrífur mig en þetta er ánægjuleg undantekning frá því.

Talandi um menningu þá gerði ég það samt engan veginn endasleppt að undanförnu. Ég minntist nýlega á ferð í Borgarleikhúsið þar sem ég reyndar bætti um betur og keypti leikhúskort fyrir Signýju og Hugrúnu og hef þar með skuldbundið mig til að sjá minnst fjórar sýningar með þeim á árinu. Auðvitað verður Galdrakarlinn frá Oz fyrir valinu (sem mér skilst að sér algjör snilld) og svo ætla ég alls ekki að missa af sýningunni "Gói og baunagrasið". Hún verður væntanlega í sama galsafulla anda og hin sýningin sem nú er í gangi á vegum þeirra Góa og Þrastar Leó, Eldfærin. Hún var hreint út sagt stórkostlega fyndin.

En menningin er víða. Við skelltum okkur á þrívíddarsýninguna Lion King fyrir viku síðan. Signý tautaði eitthvað á leiðinni inn í salinn að henni fyndist nú skemmtilegra í leikhúsi en í bíó og var eiginlega ekkert viss um að nenna þessu. Svo hófst sýningin og mín missti hreinlega andlitið þegar hún setti upp gleraugun. Hún teygði fram höfuðið með galopinn munn. Með reglubundnu millibili teygði hún út faðminn til að ná í laufblöð og annað lauslegt á skjánum og hafði greinilega mjög gaman af. Hugrún var mun yfirvegaðri yfir þessu og lét ekki á sjá á meðan sýningu myndarinnar stóð. Hún hefur hins vegar oft talað um þrívíddargleraugun síðan. Núna síðast í dag bað hún mig um að kveikja á sjónvarpinu eftir að hún var nýbúin að pússa skjáinn með blautum þvottapoka. Hún ætlaði nefnilega að setja upp þrívíddargleraugun :-)

mánudagur, október 17, 2011

Daglegt líf: Praktískar fréttir

Það er heilmargt búið að vera í gangi í Granaskjólinu þrátt fyrir skort á bloggfærslum. Kannski er það einmitt merki þess að við höfum nóg að gera því þá hefur maður lítinn tíma til að skrifa.

Nokkrar praktískar fréttir: Vigdís skipti um vinnustað. Hún lét flytja sig yfir á Landakotið frá gamla Borgarspítalanum þar sem hún hefur unnið frá því áður en við kynntumst. Það hefur með sér í för mikla hagræðingu því núna er vinnustaðurinn í göngufæri að heiman. Fram til þessa hefur verið mikið um skutl fram og til baka. Vigdís þurfti alltaf að mæta fyrir átta en stelpurnar í leikskólann eftir átta þannig að ég hef þurft að keyra gegnum morgunumferðina og til baka aftur í Vesturbæinn áður en ég fór sjálfur í vinnuna. Þetta mun nú breytast. Vonandi felur þetta líka í sér umtalsverðan sparnað því bensínið kostar fúlgur fjár, eins og menn vita.

Önnur praktísk frétt er sú að netsambandið á heimilinu er loksins komið í lag. Ég er eiginlega enn þá að venjast þeirri tilhugsun því það er búið að vera í lamasessi svo lengi. Sérfræðingar Vodafone hafa legið yfir þessari nettengingu okkar og ekki fundið neina lausn hingað til þrátt fyrir löng símtöl og vangaveltur - þar til ég hringdi í þá um daginn og lagði inn fyrirspurn. Var ekkert viss um að þeir myndu líta á hana yfir höfuð. Svo gerðist það bara: Bingó! Einn daginn var netsambandið orðið stöðugt og gott. Þetta var eiginlega of gott til að vera satt. Það er fyrst núna sem ég þori að tala um það hér formlega, hjátrúarfullur eins og maður er, nú þegar maður býr yfir tveggja vikna reynslu af stöðugu netsambandi.

Að lokum er rétt að minnast á það að nú fer hver að verða síðastur að gæða sér á ferskum "barnagulrótum" úr garðinum. Við höfum ekki enn komist til þess að selja þær fyrir framan Melabúðina, þrátt fyrir tilskilin "leyfi" og góðan vilja. Veðrið er bara búið að vera svo rysjótt og fráhrindandi. Í dag vorum við meira að segja með tvær góðar vinkonur Signýjar í heimsókn í því skyni að selja með okkur. Þær voru fullar tilhlökkunar, en allt kom fyrir ekki. Það var ekkert huggulegt við það að selja í þessu veðri. Vinkonurnar hjálpa okkur bara seinna. Á meðan mega aðrir enn næla sér í ferskan bita úr garðinum.

mánudagur, október 10, 2011

Daglegt líf: Leiksýningar

Nú erum við búin að sækja tvær leiksýningar með stuttu millibili, báðar tær snilld. Önnur var í bókasafninu á Seltjarnarnesi, brúðuleiksýningin Pétur og úlfurinn. Þetta var opin sýning í frekar þröngum salarkynnum safnsins. Annað hvert barn úr Vesturbænum virtist vera mætt til að njóta góðs af. Það fór misjafnlega vel um okkur sem sátum á jaðrinum en sýningin var frábær - eins og venjulega (sjá Brúðuheima). Hin sýningin sem við fórum á var i Borgarleikhúsinu. Þar voru Eldfærin flutt af Þresti Leó og Góa. Sú sýning var svo sannarlega fyrir alla fjölskylduna með skírskotunum hingað og þangað fyrir þá sem eldri eru. Sýningin var skemmtilega "hrá" þannig að krakkarnir fengu á tilfinninguna að þeir Þröstur og Gói væru bara að spinna söguna jafnóðum og kynntu í leiðinni veröld leikhússins. Við keyptum leikhúskort hjá Borgarleikhúsinu í tilefni af þessu og ætlum svo sannarlega að fylgja þessu eftir og fara fljótlega á Galdrakarlinn frá Oz.

þriðjudagur, október 04, 2011

Upplifun: Rökkurdrungi og slysahætta

Við Vigdís vorum á ferðinni áðan í bíl ásamt Signýju og Hugrúnu. Það var óvenju dimmt vegna skýjafarsins. Það var tekið að skyggja og götuljósin ekki kveikt enn þá, í takt við sparnaðaráætlun Reykjavíkurborgar. Gangandi vegfarendur voru bara eins og skuggaverur og sveimuðu þvert yfir götur hér og þar. Þetta var mjög varasamt því ekki nokkur sála var með endurskinsmerki á sér, að því er virtist. Okkur var mjög brugðið við að upplifa þetta öryggisleysi. Það var myrkur, nánast eins og niðdimm nótt, og einu ljósin sem lýstu upp göturnar voru bílljósin, flöktandi fram og til baka. Ég er þeirrar skoðunar að það ætti hiklaust að kveikja fyrr á götuljósunum þegar himinninn er hulinn skýjum, hvað sem sparnaðaráætluninni líður. Er ekki hægt að taka sérstakt tillit til þess? Engu að síður var þetta holl upplifun fyrir okkur fjögur sem horfðum á og samtal okkar Vigdísar þróaðist út í vangaveltur um endurskinsmerki, sem hún Signý hafði reyndar frumkvæði að, merkilegt nokk! Greinilega búin að vera góð fræðsla hjá henni í skólanum.

Daglegt líf: Signý gerist búðakona

Signý er mjög uppátækjasöm þessa dagana. Núna er hún búin að telja undanfarna daga niður í morgundaginn vegna þess að það er dagurinn þegar hún "selur grænmeti". Þegar hún tjáði sig fyrst um þessa hugmynd sína, fyrir nokkrum dögum, sagði hún bara: "Ég hlakka svo til eftir fjóra daga" og þegar hún var spurð út í það þá svaraði hún bara "því þá er ég að fara að selja grænmeti". Hún er svo sannfærð í sinni tilhlökkun að ég get ekki annað en fylgt henni eftir og reynt að tryggja að þetta verði ánægjuleg reynsla. Planið er að draga nokkrar gulrætur upp úr garðinum okkar (við eigum feikinóg) og selja í litlum pokum fyrir gangandi vegfarendur í Granaskjólinu. Hundrað krónur pokinn, tíu litlar og sætar gulrætur með grasi og öllu. Það verður ekki ferskara. Kannski fylgir graslaukur með í kaupbæti :-)

föstudagur, september 23, 2011

Uppákoma: Kisuafmæli

Signý bauð tveimur vinkonum sínum heim í dag í tilefni þess að kisan hennar ætti afmæli. En það var svolítið vandasamt því hún á engan kött. Ekki hér heima, að minnsta kosti. Hins vegar sá hún fyrir nokkrum dögum villikött í fjörunni hér rétt hjá og lék sér aðeins við hann. Þá ákvað hún að hann skyldi vera kötturinn sinn. Eftir það hefur hún talað um hann hiklaust sem sinn eigin kött af miklum sannfærngarkrafti, þó hann gangi laus og villtur um fjöruna. Kötturin ber meira að segja virðulegt nafn: Silja Ljósbrá, kallaður Bíbí.

Núna var sem sagt komið að því að taka á móti vinkonum hennar sem gerðu ráð fyrir kisuafmæli. Ég vildi ekki að þær yrðu fyrir vonbrigðum eða fyndust þær hafa verið plataðar svo ég ákvað að taka strax fram, þegar þær voru sóttar, að hún ætti ekki "venjulegan kött" heldur "villikött" og bauð þeim í óvissuferð um fjöruna, með ferskan túnfisk í farteskinu í tilefni af "afmælinu". Þetta var auðvitað ákaflega spennandi. Við hrifsuðum með okkur ferskar "barnagulrætur" úr garðinum sem nesti og skoluðum í garðslöngunni og skoðuðum svo fjöruna í krók og kima. Eftir drjúgan rannsóknarleiðangur um fjöruna, þar sem ekki sást nokkur köttur á kreiki (aldrei þessu vant), voru þær allar sáttar við að koma aftur inn. Við skildum auðvitað túnfiskinn eftir á myndarlegri syllu fyrir kisuna, með útsýni og polli (til að baða sig í eftir matinn). Svo fórum við inn, þær fengu allar afhentar heimatilbúnar "Hello Kitty" litabækur og horfu saman á teiknimynd, allar sáttar við sinn hlut.

fimmtudagur, september 22, 2011

Daglegt líf: Kvöldsund

Ég skellti mér í sund með Hugrúnu í kvöld. Fékk að fara í kvennaklefann :-) Það er nefnilega verið að gera við gluggana í kvennaklefanum og fyrst iðnaðarmennirnir eru karlkyns þá er búið að svissa klefum, tímabundið. Þetta fannst mér mjög áhugavert að sjá. Hann var eiginlega alveg eins, fyrir utan skort á pissuskálum. Svo var eitt sturtuhengið bleikt í kvennaklefanum og nokkrar sturtanna lægri. Annað var það nú ekki.

Hugrún var hins vegar hin hressasta. Hún hitti fólk í heita pottinum sem talaði spænsku og það vakti umsvifalaust áhuga hennar. Hún sveimaði kringum þau og opinberaði síðan leyndarmál sitt, að hún kunni að segja ýmislegt á spænsku. Hún var strax fengin til þess að telja og syngja á spænsku og kunni bara vel við athyglina.

Annað gerði hún skemmtilegt. Hún setti á sig sundkúta sem merktir voru Latabæ. Hún sá þar mynd af Sollu stirðu og bar nafnið hennar fram svona: Solla styðra. Ég skrifa þetta með yfsiloni vegna þess að það rímar við orðið "glyðra".

miðvikudagur, september 21, 2011

Daglegt líf: Afmæli og Gullbrúðkaup

Afmæli og aftur afmæli. Síðustu vikur var mikið um að vera á því sviðinu. Fullt af barnaafmælum, bæði vinir Signýjar úr leikskólanum og afmæli Almars Steins og Friðriks Vals. Svo komu tvö stórafmæli. Fyrst var það langamma Signýjar og Hugrúnar (móðurmegin) hún Vigdís Einars eldri sem varð 90 ára gömul. Hún er nú lygilega vel með á nótunum og alltaf jafn virðuleg þó líkaminn sé orðinn hrumur. Svo fórum við í 50 ára brúðkaupsafmæli foreldra minna - Gullbrúðkaup, eins og það heitir. Það var á föstudaginn var, 16. september. Ég tók virkan þátt í undirbúningi óvænts atriðis sem fólst í því að rifja upp tímann sem þau eiga að baki saman, áratug fyrir áratug. Það mæltist vel fyrir. Síðan sungum við saman lag með uppáhaldstónlistarmanni pabba, Harry Belafonte: "There´s a Hole in the Bucket" sem kom út fyrir nákæmlega 50 árum síðan. Við skiptum í lið, konur og karlar, því lagið er einmitt sungið þannig í upprunalegu útgáfunni. Bara afslappað. Kvöldið var allt mjög ánægjulegt og gaman að sjá mömmu og pabba svona glöð yfir þessu öllu saman.

sunnudagur, ágúst 28, 2011

Upplifun: Fyrsta skólavika Signýjar

Fyrsta skólavikan er að baki og hún gekk eins og í sögu. Fyrsti dagurinn var svolítið skrítinn fyrir mig sérstaklega, frekar en Signýju. Ég stóð í biðröð með henni ásamt öðrum börnum og foreldrum. Við vissum ekki nákvæmlega hvað var í vændum. Ég hafði sjálfur tekið mér frí í fyrstu kennslustund í vinnunni minni því ég átti allt eins von á því að eiga einhver samskipti við kennara svona fyrsta daginn. Krakkarnir söfnuðust saman í röð og biðu í ofvæni. Við foreldrarnir skiptumst á eftirvæntingarsvipbrigðum en létum sem minnst á óöryggi. Signý hélt sig í kunnuglegum félagsskap úr leikskólanum sínum (þrír sem fylgja henni þaðan) og börnin báru saman skólatöskur í snyrtilegri röð. Svo opnuðust dyrnar og glaðlegar en rólegar raddir kennaranna sögðu: "Jæja, gaman að sjá ykkur. Þá er fyrsti dagurinn loksins byrjaður. Allir komnir í röð. Nú má litla fólkið koma inn fyrir en stóra fólkið - foreldrar og aðstandendur - verða að bíða". Svo fylgdumst við með litlu krílunum okkar rölta inn eins og ekkert væri. Signý leit ekki einu sinni um öxl þegar röðin fór af stað. Svo hurfu þau inn í þetta lokaða rými. Nokkrir vel valdir kennarar voru fengnir til að rölta um og taka myndir af þessari stóru stund í lífi barnanna. Einn var með kvikmyndavél við innganginn og gómaði barnaskarann á leið sinni inn fyrir í fyrsta skipti. Annar kennari, skólastjórinn reyndar, rölti um sposkur á svip og tók myndir af áhyggjufullum foreldrum. Síðan sagði hann að endingu í stíðnislegum tón rétt áður en hann lét sig hverfa inn aftur: "Þetta verður allt í lagi!"

Það var svolítið undarlegt spennufall sem fylgdi því að horfast í auga við tómhenta foreldra á lóðinni sem vissu ekki hvort þeir ættu að fara eða vera. Ég viðurkenndi að hingað til hafi Signý verið kvíðin (fyrir kynningu og skólasetningu nokkrum dögum fyrr) og ég hafi þá verið til taks en núna þegar ég vissi að hún ætti eftir að vera í skólanum á eigin spýtur þá var ég kvíðin en ekki hún. Ein talaði um að börnin væru vön því sem væri í vændum því það væri alltaf svo mikið prógramm í leikskólanum. Þau væru sjóaðri en maður héldi. Svo rölti maður burt og sá foreldrahópinn dreifast vandræðalega á eftir sér. Einhvern veginn held ég að þau hafi átt von á meiri aðlögun - fyrir sig kannski.

Þegar ég sótti Signýju seinna um daginn var Signý brött og dundaði sér við að mála mynd. Hún vildi ekki standa á fætur fyrir en verkinu væri lokið. Hún lét ekkert bera á þreytu en viðurkenndi þó eftir á að þetta hefði verið "erfitt" og að hún væri "þreytt". Svo var þetta auðveldara og auðveldara með hverjum deginum. Á föstudaginn var sótti ég Signýju áður en ég fór til Hugrúnar. Hún Signý var mjög kát með það að heilsa upp á yngri vini sína úr leikskólanum. Hún virtist helst vilja vera á báðum stöðum. Hugrúnu finnst hins vegar erfitt að sjá á eftir systur sinni. Nú er hún "ein" í leikskólanum og finnst það pínu erfitt hlutskipti. En það á eftir að venjast hratt.

þriðjudagur, ágúst 23, 2011

Þroskaferli: Fyrsti skóladagurinn

Á morgun er stór dagur í lífi Signýjar. Hún byrjar í grunnskóla. Við erum búin að kynnast skólanum í áföngum, mætti í viðtal og setið skólasetningu. Á morgun er hins vegar fyrsti alvöru dagurinn. Þá verður mætt samkvæmt stundaskrá og hún verður ein heilan dag í skólanum. Mér finnst þetta eiginlega nokkuð brött byrjun en kennararnir sem taka á móti henni eru ákaflega traustvekjandi og svo er hún með nokkra vini í bekknum sér til halds og trausts. Ég er hálf kvíðinn, satt að segja, en líka spenntur fyrir því að vita hvernig gengur þegar ég sæki hana á morgun.

þriðjudagur, ágúst 09, 2011

Pæling: Hvenær verður jökull að Snæfelli?

Um daginn var heiðskírt og gullfallegt veður. Ég tók eftir áberandi glitskýi rétt til hliðar við Snæfellsjökul. Þetta var mjög áberandi bæði vegna þess hve "sjálflýsandi" skýið var og að það var nánast eina skýið ofan sjóndeildarhrings, svona skemmtilega staðsett við hliðina á jöklinum sem blasir við okkur borgarbúum. Mikill fjöldi ferðamanna raðaði sér upp eftir strandlengjunni á leið minni eftir Sæbrautinni gagnteknir af undrinu - flestir uppteknir af því að góma fyrirbærið á mynd. Því miður var ég ekki með vél á mér en átti von á finna eitthvað af þessum myndum á netinu. Ég hef enga fundið enn. Myndir af glitskýjum er hins vegar gaman að gúggla.

Ég tók eftir því í leiðinni hvað jökullinn á Snæfellsnesi hefur hopað undanfarin ár. Það sést bara í klöppina langleiðina upp á topp! Hvað verður um Snæfellsjökul eftir nokkra áratugi? Hann verður væntanlega ekki svipur hjá sjón miðað við það sem nú er. Og hvað verður hann þá kallaður þegar snjóa leysir á sumrin? Þá verður hann ekki lengur jökull, samkvæmt skilgreiningunni. Verður þá bara talað um fellið sem slíkt? Lógískt væri að tala um Snæfell en ekki Snæfellsjökul. En nú er annað Snæfell fyrir austan. Til að forðast misskilning yrði að tilgreina um hvort fellið væri að ræða. Snæfell við Lónsöræfi og Snæfell á Snæfellsnesi. Þá ber nesið loksnis nafn með rentu.

Þá veltir maður fyrir sér hvað Snæfellsjökull er gamall, sem slíkur. Fellið virðist nefnilega vera upprunalegra heit (enda er nesið nefnt eftir því en ekki jöklinum). Einhvern tímann á hlýskeiði - rétt eftir landnám - var mun hlýrra en nú er og kannski ólíklegt að jökullinn hafi verið til staðar, nema í mýflugumynd, sem Snæfell.

Upplifun: Eldsvoði í nágrenninu

Við vorum að spóka okkur í garðinum, stelpurnar í uppblásnu sundlauginni í steikjandi hita, ég að lesa bók í rólegheitunum og Vigdís að búa til humarsúpu (í eldhúsinu reyndar) þegar sírenuvæl heyrðist eftir nærliggjandi götu. Signý fór strax að herma eftir hljóðunum og var hálfkvartandi yfir þeim, skildi ekkert hvernig á þeim stæði. Fleiri hljóð fylgdu á eftir og staðnæmdust í nokkurra húsa fjarlægð. Okkur var hreint ekki sama því hljóðið líktist slökkviliðinu. Okkur Vigdísi datt í hug að hringja í Ásdísi systur hennar af því hún býr uppi á fjórðu hæð nokkru vestar og hefði getað sagt okkur hvað væri á seyði. Ekki náðist í hana. Mér datt í hug að skjótast inn og kíkja á netið þegar við fundum reykjarlykt og heyrðum brothljóð í rúðu. Þetta var svolítið skuggalegt að heyra. Hljóðin og lyktin bárust vel yfir í garðinn okkar en við sáum ekkert. Við krökkluðumst inn á þessum tímapunkti og lokuðum öllum gluggum enda aldrei að vita nema stækan reyk leggi yfir svæðið. En sem betur fer þróaðist það ekki á þann veg. Netið greindi frá bruna í risíbúð á Nesveginum (samhliða Granaskjólinu) og það gekk víst vel að slökkva eldinn.

Neysla: Cocoa Puffs á raðgreiðslum

Ég kíkti í bakarí í hverfinu um daginn og var verulega sjokkeraður á verðlagningunni á aukavarningnum sem þeir selja. Þar er jú mjólk og svona ýmislegt oná brauð . En mig rak í rogastans þegar ég sá Kókópöffs á 1200 krónur! Kornflexið og Seríósið 1100! Mig minnti að þessir morgunverðarpakkar væru á bilinu 600-750 krónur og fór fljótlega á eftir að kanna það sérstaklega í Hagkaup - og það stóð heima. Það er nú ekki langt síðan maður hristi hausinn yfir því þegar þetta fór yfir fjögurhundruðkallinn, en þetta er nú einum of. Eins gott að hugsa sig tvisvar um þegar maður fer út í búð þessa dagana.

laugardagur, ágúst 06, 2011

Daglegt líf: Haustmyndir og Garðskagastopp

Fyrir utan vel heppnaða ferð með Jóni Má og fjölskyldu um Suðurnesin norðanverð þá höfum við í Granaskjólinu haldið okkur mikið til innandyra undanfarið. Suðurnesjaferðin var reyndar mjög eftirminnileg þrátt fyrir mikla rigningu. Þar stendur upp úr frábært stopp í Garðinum á lóð Garðskagavita. Þar eru tveir mjög ólíkir vitar, hannyrðasafn, byggðasafn og frábært kaffihús með útsýni yfir hafið. Þar brögðuðum við á bestu bláberjaskyrtertu í manna minnum.

Þetta hefur verið vætutíð að undanförnu eftir mjög þurrt sumar og Þá kom sér nú vel að vera með myndbandabunkann sem ég minntist á síðast. Margar þeirra vorum við að sjá í annað eða þriðja skiptið. Sem sagt, myndir í uppáhaldi, margar hverjar. Ég stikla aðeins yfir þær og stjörnumerki þær allra bestu :-)

About a Boy
A History of Violence
Festen*
Fame
Tilsammans
Thelma & Louise
Paris, Texas*
Big Lebovsky
Fargo*

Síðustu tvær eru úr smiðju Coen bræðra og sú þriðja bíður áhorfunar í bunkanum: Oh Brother Where Art Thou?

föstudagur, júlí 22, 2011

Daglegt líf: Sumarið í hnotskurn

Sumarið hefur raskað bloggfærslum undanfarna daga og þannig á það auvitað að vera. Við höfum verið mikið á flandri. Ég nota þetta orð frekar en að vísa í "ferðalög" því við höfum stundað dagsferðir út frá borginni eins og andinn hefur blásið okkur í brjóst hverju sinni. Við erum að tala um Viðeyjarferð, nestisferð í Mosó, óvissuferð í Borgarnes (sem kom okkur talsvert á óvart með andlitslyftingu), humarveislu á Stokkseyri og heimsókn upp á Laugarvatn. Núna í þessari viku hafa Signý og Hugrún lagt áherslu á að vera bara heima, orðnar þreyttar á að vera sífellt á ferðinni. Hér er líka nóg að gera, bæði inni og úti. Við förum oft í fjöruna hér rétt hjá og stefnum á nokkra hjólatúra eftir Ægissíðunni, svo að ekki sé minnst á Gróttugöngur. Signý óskaði í gær sérstaklega eftir því að fá að fara fljótlega í "gamla kirkjugarðinn" við Suðurgötuna og talar að auki reglulega um Húsdýragarðinn. Svo er alltaf gott að hanga inni öðru hvoru. Núna í dag tók ég vænan bunka af myndum á leigu, fyrir bæði þær og okkur Vigdísi, á meðan bókasafnið á Seltjarnarnesi verður í fríi næstu tvær vikur.

miðvikudagur, júlí 06, 2011

Ferðalag: Leyndir afkimar Boston - fyrri hluti

Svo ég leyfi mér nú að minnast aftur á Boston þá hef ég tekið eftir auknum vinsældum borgarinnar að undanförnu. Kannski er ég bara að ímynda mér þetta, orðinn svona meðvitaður um Boston eftir ferðalagið, en mér finnst eins og annar hver maður sé að koma frá Boston eða vera á leiðinni þangað eða, í það minnsta, þekkja vel til borgarinnar af eigin raun. Borgin virðist eiga sérstakan stað í huga margra Íslendinga, bæði búsettra hér og í Bandaríkjunum. Einhver talaði um að þegar maður býr í Bandaríkjunum og ferðast til Boston sé það nánast eins og að koma "heim". Hvort borgin minni sérstaklega á Ísland eða bara Evrópu veit ég ekki, en það segir nú margt um notalegt og afslappað andrúmsloftið sem þar er að finna. Ég get sagt, fyrir mitt leyti, að þetta er ótrúega vel lukkuð borg í alla staði. Hún er vinaleg, falleg á litinn (mikið um rauðan múrstein), allt í göngufæri í miðbænum og það sem meira er; þar hafa gangandi vegfarendur allan forgang (sem er ólíkt flestum öðrum Bandarískum stórborgum, geri ég ráð fyrir). Í borginni er merkilega samsettur arkítektúr þar sem hið gamla glampar í gljáfægðum háhýsum. Í borginni er fullt af afþreyingu, söfnum og frægum almenningsgörðum. Maturinn kom mér að auki mjög á óvart fyrir gæði og heilnæmi og jógurtísinn í Boston er engu líkur.Svo er fólkið einstaklega vinalegt. Stundum var maður beinlínis hissa á því hvað fólk lagði sig ákaft fram um að þjónusta mann, með bros á vör. Ég hafði það beinlínist á tilfinningunni að Bostonbúar væru hamingjusamari en gengur og gerist í stórborgum heimsins.

Borgin býður upp á eitt og annað sem prýðir stórar borgir. Leiðavísar og handbækur taka gjarnan söfnin og sögufrægar byggingar fyrir. En það eru litlu staðirnir sem gefa borginni jafn mikið og allar frægu byggingarnar. Ég var býsna duglegur að kanna ýmsa afkima borgarinnar og ætla að telja upp hér fyrir neðan. Þettu eru sem sagt staðir sem auðveldlega fara fram hjá ferðamönnum en voru að mínu mati óvæntir hápunktar.

Hótelið okkar (kennaranna í Brúarskóla) var Midtown Hotel. Hægt að mæla með því ef fólk sækist ekki eftir öðru en vel staðsettu hóteli með lágmarks lúxus. Til dæmis var enginn morgunmatur í boði á sjálfu hótelinu, sem er allt í lagi fyrir þá sem eru stöðugt að kanna umhverfi sitt hvort eð er. Hótelið er frábærlega staðsett og er líklega langódýrasti kosturinn í miðbæ Boston. Talandi um staðsetningu, þá er hótelið rétt fyrir utan einn glæsilegasta svæði borgarinnar: The Christian Science Center, þar sem ólikindaleg samsetning bygginga og tutttugu sentimetra djúp tjörn mynda mjög eftirminnilegt torg. Glæsilegt bæði í björtu og í næturlýsingu. Svo er hér glæsileg mynd af sjálfri tjörninni og samspili hennar við umhverfið, svona rétt til að undirstrika töframátt torgsins.

Rétt hjá hótelinu (og þessu torgi) er vinsæl verslunarmiðstöð (Prudential Center) sem dregur nafn sitt af háhýsi sem gnæfir yfir svæðinu (Prudential Tower). Hann var um tíma hæsta bygging Bostonborgar (þar til hinn frægi Hancock turn var reistur). Í Prudential turninum er víst boðið upp á útsýnispall (Skywalk) sem ég nýtti mér ekki því það kostaði einhver ósköp að fá að fara upp á þá hæð. Líklega er það þó þess virði því hann býður upp á heilhrings útsýni yfir borgina ásamt einhverjum upplýsingum. Næst besti kostur (eða sá besti að sumra mati) er að fara upp á bar sem heitir Top of the Hub og er staðsettur um það bil á sama stað (kannski hæðinni fyrir neðan) á fimmtugustu og annarri hæð. Það kostar ekki neitt, nema maður panti sér eitthvað á staðnum, sem er auðvitað huggulegast. Þar er boðið upp á lifandi tónlist - djass - og eftir að sú spilamennska hefst er rukkaðir 24 dollarar á mann fyrir sæti við borð. Barborðið er hins vegar ókeypis og það er líka leyfilegt að rölta aðeins um. Útsýni af þessum stað er magnað og mér fannst ég vera kominn í einhverja sérameríska bíómynd bara við það að vera staddur þarna inni og finna hvernig turninn "dúaði" örlítið.. Þessi upplifun var líklega hápunkturinn á "útlandaupplifuninni", ef ekki bókstaflega í metrum talið :-)

Ég rétt minntist á Hancock turninn áðan en í honum speglast skemmtilega allt umhverfið, sérstaklega ein frægasta bygging borgarinnar: The Trinity Church. Hún er opinberlega talin ein glæsilegasta bygging nýja heimsins (þá er Suður-Ameríka tekin með). Ég hefði eflaust notið þess að skoða hana betur, bæði að utan og að innan, en ég lét það ógert. Það var svo mikill asi á manni á þessum örfáu dögum sem maður hafði. Hins vegar skoðaði ég stað beint á móti kirkjunni frægu sem fer fram hjá flestum: Boston Public Library. Bókasafnið lætur ekki mikið yfir sér, þó virðulegt sé, þar sem það horfir þögult á glitrandi samspil gömlu kirkjunnar og upplitsdjarfa turnsins. En að innan er upplifunin vægast sagt mögnuð. Safnið er marmaraklætt í bak og fyrir, með aðalsal sem setur mann hljóðan. Svo lumar safnið á vel varðveittu leyndarmáli: Bakgarði þar sem hægt er að neyta veitinga í algjörri ró og spekt eins og á afskekktu klaustri. Það var sælukennd stund að fá sér morgunkaffi á þessu stað í góðra vina hópi.

Nú verð ég að hætta í bili,... held áfram með þetta fljótlega, í annarri færslu.

Daglegt líf: Sumaropnun

Í dag var fyrsti frídagur Signýjar og Hugrúnar frá leikskólanum. Hann var nýttur vel - til að sofa út, fara í Húsdýragarðinn og njóta matar í nettri garðveislu sem við Vigdís slógum upp fyrir foreldra okkar. Manni finnst sumarið vera fyrst núna að byrja og við buðum því upp á hina hefðbundnu sumarsúpu (uppskriftina má finna hér). Kannski voru einhverjir fínir sumardagar í júní, ég veit það ekki þar sem ég var fjarri góðu gamni mest allan mánuðinn. En reyndar gerði ég mér lítið fyrir og hélt sumarsúpuhefðinni á lofti á ferðalaginu og bryddaði upp á henni við gestgjafa minn í Maine. Robert og synir hans voru allir jafn ánægðir með súpuna og voru beinlínis hissa á bæði hráefnasamsetningunni og bragðinu. Maturinn mæltist sérlega vel þar - sem og hér í dag. Við áttum sérlega náðuga stund í garðinum þrátt fyrir tilhugsunina um að í næsta garði sé vettvangur sjónvarpsþáttarins Gulli byggir. Gulli sást hvergi, kannski að lagfæra annað hús í dag, eða bara að sóla sig í blíðviðrinu allt annars staðar.

föstudagur, júlí 01, 2011

Samantekt: Fuglalífið í garðinum í Maine

Maine er paradís fyrir fuglaáhugamenn. Ránfuglar steypa sér eftir fiski í ánum, Himbriminn lónir úti undan fjörugrjóti og garðfuglar koma í öllum regnbogans litum. Gestgjafinn minn í Maine, hann Robert, er með matarskammtara ("feeder") úti í garði rétt fyrir utan eldhúsgluggann. Það var unun að fá að vaska upp og fylgjast með fuglalífinu í leiðinni og sjá þá tékka sig inn og út með reglulegu millibili. Eftir nokkra daga gat ég ekki á mér setið og varð að fara að skrá þetta hjá mér. Ég var nú svo heppinn að Robert var með nöfnin á hraðbergi, svo þetta var auðsótt. Hér fyrir neðan er svo listinn yfir þá algengustu - allt fuglar sem ég sá að minnsta kosti tvisvar á þeim skamma tíma sem ég hafði eftir að ég fór að fylgjast markvisst með.

Black-capped Chickadee

Baltimore Oriole

Tufted Titmouse

Northern Cardinal

American Robin (kallaður bara Robin í Bandaríkjum)

American Goldfinch (eða bara Goldfinch í Bandaríkjunum)

Grey Catbird

Mourning Dove

Blue Jay

White-breasted Nuthatch

Þetta voru garðfuglarnir - og listinn er síður en svo tæmandi. Við þetta má svo bæta gjóðnum (Osprey) sem hafði eftirlit með Penobscot ánni sem streymdi lygn fram hjá garðinum.

Upplifun: Hugleiðing um Maine

Þegar ég ferðaðist um Maine sá ég mjög fjölskrúðugt dýralíf. Broddgeltir, hirtir, skjaldbökur, froskar og skunkar eru á hverju strái. Þetta eru dýr sem vekja athygli okkar Íslendinga þó algeng séu víða um heim, enda eigum við ekkert sem líkist þeim á okkar afskekktu eyju. Svo lenti ég í þeirra fágætu upplifun að verða fyrir aðkasti múrmeldýrs (Groundhog). Þetta er fremur stórt nagdýr (á stærð við stóran kött). Það er ekki mjög algengt á þessu svæði en það ruddist úr runna með látum, hrein eins og svín, og staðnæmdist nokkrum metrum fyrir framan mig. Það sá að ég var tíu sinnum stærri og ekkert á leiðinni burt. Það virtist hugsa sig um (í um tíu sekúndur) og lét sig svo hverfa aftur inn í runnann. Mér skilst að þetta hafi verið óvenjuleg uppifun því múrmeldýr eru að jafnaði mjög mikla mannafælur. Líklega bara að verja sitt svæði, með afdrep í þéttum og villtum runnagróðri. Þarna eru líka íkornar úti um allt (bæði venjulegir og líka þessir litlu sætu sem kallast "chipmunks" á ensku). Íkornarnir þeir eru ekkert að hafa fyrir því að fela sig, enda kvikir með endemum. Ég sá enga snáka í Maine og sem betur fer eru þeir sem þar finnast ekki eitraðir. Fuglalífið er síðan alveg sérkapituli út af fyrir sig (næsta bloggfærsla).

Þetta fylki er að mörgu leyti kjörsvæði náttúruunnenda. Maine er skógivaxnasta ríki Bandaríkjanna og mjög hálent. Árnar liðast um allt fylkið frá vestri til austurs í átt til Atlantshafsins og eru með vatni sínu bæði samgönguæðar, útivistarparadís og lífæðar fyrir gróður og dýr. Samfélagið er líka nokkuð sérstakt. Maine er nyrsta ríki Bandaríkjanna og sem slíkt er það mikið jaðarsvæði í þeim skilningi að þangað sækja margir Bandaríkjamenn sem eru búnir að fá nóg af öllu neyslusamfélaginu annars staðar í landinu. Þar hafa í gegnum tíðina sest að margir þekktir einstaklingar, gjarnan rithöfundar, sem vilja fá að vera í friði frá áreitum nútímasamfélags. Maine er tiltölulega drefibýlt ríki og samfélagið mátulega fábrotið með miklum þorpsbrag. Íbúar Maine leggja mikið upp úr því að lifa í nánu sambýli við náttúruna í stað þess að leggja hana undir sig og eru stoltir af því að geta lifað af landsins gæðum nokkurn veginn í takt við náttúruna. Þeir eru að miklu leyti sjálfum sér nógir. Maine er eitt af fátækari ríkjum Bandaríkjanna og er það er nokkuð sem íbúar fylkisins hafa valið sér. Þeir kjósa greiðan aðgang að óspilltri náttúru umfram þann fjárhagslega kost sem hlýst af stórbrotnum virkjunum og verksmiðjum. Þeir eru tilbúnir að láta af hendi fjárhagslegt ríkidæmi til að eiga náttúruna í bakgarðinum. Það er lúxus sem flestir aðrir Bandaríkjamenn þurfa að greiða háa summu fyrir að njóta í sínu fylki, benda þeir gjarnan á. Menningin á svæðinu ber óneitanlega svolítinn keim af þessu viðhorfi. Andrúmsloftið er mjög afslappað og enginn virðist vera að flýta sér. Þarna eru svo sem aðgangur að öllu því sem einkennir vestræn samfélög en þetta er dreifðara og rólegra. Nytjamarkaðir eru áberandi þáttur í þorpsbragnum ásamt bílskúrssölum (sem kallast "Yard sale") og er hægt að gera þar verulega góð kaup.

miðvikudagur, júní 29, 2011

Fréttnæmt: Útskrift Signýjar

Nú er stutt í sumarfrí í leikskólanum. Þá tekur við mánaðartími í fríi með þeim Signýju og Hugrúnu. Gaman væri að samræma sig áætlunum annarra og gera eitthvað skemmtilegt í sumar - helst eitthvað einfalt og ódýrt. Óvissuferðir í strætó? Viðeyjardvöl í góðu veðri? Göngutúrar og léttar ferðir upp á Esju eða önnur fjöll og fell? Tjaldferðir í Heiðmörkinni? Nú eða busl i lauginni okkar í gaðrinum þegar vel viðrar?

Eftir um það bil mánuð fer Signý aftur í leikskólann í um það bil tvær vikur og byrjar svo í Grandaskóla. Hún er formlega útskrifuð reyndar. Það var í vikunni áður en ég fór út. Í ljósi ferðalagsins var ég heppin að geta verið viðstaddur. Signý tók á móti rós og viðurkenningarskjali með jafnöldrum sínum í nettri og afslappaðri athöfn. Hún var mjög stolt og bar sig vel. Ég hefði ekki viljað missa af þessu. Fyrsti stóri áfanginn á langri leið.

þriðjudagur, júní 28, 2011

Heimkoma: Ferðaþreyta og svefnraskanir

Komin heim. Ég kom fyrir nokkrum dögum og hef verið merkilega þreyttur síðan, bæði eftir flugið og tímamismuninn. Það er einhvern veginn miklu erfiðara að fara "fram" í tímann en "aftur". Þegar ég var kominn til Boston bættust bara fjórir tímar við sólarhringinn (þeir eru sem sagt fjórum tímum á eftir okkur). Það skapar ekki mikinn vanda að vera orðinn dauðþreyttur fyrir miðnætti. Maður fer þá bara tiltölulega snemma að sofa og vaknar snemma daginn eftir. En á hinn veginn er agalegt að þurfa að fara að sofa löngu áður en maður er orðinn þreyttur, kominn heim og líkamsklukkan segir átta þegar klukkan á veggnum bendir á tólf. Þegar heim er komið er ekki hægt að leyfa sér það svigrúm að vaka og sofa fram eftir marga daga í röð. Morgnarnir hafa því verið níðþungir, líkamlega séð, enda þegar allir fóru í vinnuna/leikskólann á mánudaginn var kveinaði líkaminn og stundi: ÞRJÚ! Enda var ég að vakna klukkan þrjú þegar klukkan vakti okkur um sjöleytið.

Flugferðin var líka strembin. Það á nefnilega við flugið auk aðdragandans. Ég átti kvöldflug heim (21.30) frá Boston en vaknaði þann morguninn í Maine. Dagurinn byrjaði reyndar mjög glæsilega, með klukkutíma kanósiglingu á spegilsléttri Penobscot ánni eldsnemma morguns. Allt hafurtaskið beið mín hins vegar og um ellefu var ég kominn upp á rútustöð. Rútuferðin tók fjóra tíma (11-15). Ég hafði verið svo "sniðugur" þegar ég upphaflega fór til Maine að fá hótelið í Boston til að geyma heila ferðatösku (já, ég var duglegur í innkaupum) og ætlaði mér alltaf að fara beint frá Maine á flugvöllinn, skilja farangurinn minn í hólfi þar og koma svo í bæinn, eiga náðuga klukkutíma þar á kaffihúsum og bæjarrölti (rifja upp kynnin af þessari merkilegu borg) og fara svo léttur í fasi á hótelið, ná í hina töskuna mína þar, snara mér upp á flugvöll, pikka upp restina af farangrinum. Skynsamlegt plan. Svona hefur þetta alltaf gengið hjá mér. En í Maine frétti ég á síðustu stundu að flugvellirnir væru hættir að taka á móti farangri til geymslu (vegna sprengjuhættu, væntanlega). Ég þurfti því að fara með níðþunga ferðatöskuna (23 kíló) auk annars farangurs (samtals yfir tíu kíló þar að auki) alla leið niður í bæ. Þar þurfti ég að eyða drjúgum tíma í að hagræða milli taskanna tveggja. Reglurnar leyfa tvær ferðatöskur á mann, 23 kíló hvor, auk handfarangurs. En það tók mig langan tíma að koma öllu heim og saman því það endaði alltaf með því að ég hélt á tveimur handtöskum auk ferðataskanna. Auk þess var vigtin á hótelinu sem ég stólaði á biluð. Þetta var bara kaós. Á endanum gaf ég starfsmanni eina tösku auk tveggja þungra bóka sem ég hafði keypt, því yfirvigtin var annars yfirvofandi. En ég horfðist samt í augu við stóra fyrirstöðu: óheppilega samsetningu taskanna. Ferðatöskurnar og handfarangurinn voru allt hefðbundnar ferðatöskur. Ég gat ekki skellt neinni þeirra á bakið á mér eins og bakpoka. Það var því útlilokað að fara á eigin vegum upp á flugvöll með töskurnar í eftirdragi. Til þess hefði ég þurft þrjár hendur, í það minnsta. Ég þurfti því að sætta mig við að fara með leigubíl upp á flugvöll (5000 kall) í stað þess að nota neðanjarðarlestina (200 kall). Allt var þetta strembið og stressandi og óneitanlega svekkjandi. Ég komst hins vegar klakklaust upp á flugvöll á góðum tíma en þá tók við nýtt vandamál: Bílstjórinn tók ekki við korti. Ég þurfti að fínkemba flugvöllinn eftir hraðbanka til að geta borgað honum. Fyrsti hraðbankinn hafnaði kortinu (þá varð ég smá stressaður aftur) en á jaðri flugvallarins var mér bent á annan kassa, sem reyndist fær um að afgreiða mig. Að þessu aukastressi loknu komst ég loks í gegn um hliðið, en með naumindum. Ég var með bakpaka auk handtöskunnar og ferðataskanna beggja og það mátti strangt til tekið ekki fara með nema eina tösku inn í vél. En það er sem betur fer veitt smá svigrúm öðru hvoru. Ef maður blikkar afgreiðsludömurnar.

Síðan var það flugferðin. Hún var reyndar bara notaleg en þetta var hins vegar næturflug og mér gengur alltaf mjög illa að sofa í bæði rútum og flugvélum. Ég var því með talsvert mikla uppsafnaða þreytu þegar heim var komið. Eins gott að ég þurfti ekki að redda mér sjálfur heim af Leifsstöð. Mín beið myndarleg móttökunefnd (mamma, pabbi og Vigdís). Og veðrið var eins gott og það verður, bæði milt og stillt. Signý og Hugrún biðu síðan heima - fengu frí úr leiskólanum. Heimkoman var því góð, en mikið var ég syfjaður upp úr hádegi (og rotaðist að sjálfsögðu). Fór svo út að borða með Vigdísi um eftirmiðdaginn. Varð svo aftur syfjaður um níuleytið og sofnaði og hélt að með því myndi ég snúa sólarhringnum mér í hag aftur - en, eins og hendi væri veifað glaðvaknaði ég fyrir miðnætti. Líkamsklukkan var víst eitthvað að efast. Með herkjum sofnaði ég svo aftur nokkrum tímum síðar. Svona jó-jó svefn getur reynt á þolinmæðina. Miðnættin hafa verið merkilega glaðsperrt undanfarið. En núna er þetta að mestu komið, sem betur fer.

miðvikudagur, júní 22, 2011

Ferðalag: Náttúruskoðun í Maine

í dag er síðasti heili dagurinn minn í Maine. Það styttist í leiðinni í heimkomu (eldsnemma á föstudaginn). Ferðin er búin að vera drjúg. Ég hef gert ýmislegt skemmtilegt með Bob. Við fórum á kanó einn daginn, kíktum á Bar Harbour (sem er klettótt og glæsileg strönd og útivistarsvæði), höfum farið í rölt um skóglendið sem er allt í kring og einn daginn skoðuðum við okkur um í Orono Bog Boardwalk. Það er all merkilegur staður sem á sér ekki langar útivistarsögu. Fyrir um það bil tíu árum síðan var smíðuð gönguleið á plönkum um mýrlendi sem staðsett er í miðjum skógi. Gangan segir frá hvernig eitt vistkerfi rennur saman við annað þannig að blandaður skógurinn smám saman þynnist og opnast inn á bersvæði sem minnir furðumikið á túndru og þær heiðar sem við erum von að sjá á Íslandi. Bob er vistfræðingur að mennt og gat sýnt mér ýmsar merkilegar plöntur á svæðinu, meðal annars athyglisverða ránplöntu (Pitcher plant). Ég er búinn að nota myndavélina óspart og hlakka til að sýna afraksturinn heima.

Hér er dýralíf mjög fjölskrúðugt. Ég hef séð alls konar dýrum bregða fyrir en hef verið séstaklega upptekinn af litríkum fuglum allt í kring. Hér er náttúran mjög nátengd hýbýlum manna. Húsin eru einföld, lífsstíllinn rólegur og náttúran nærtæk. Það eru ekki margir staðir í Bandaríkjunum sem státa af þessari blöndu.

mánudagur, júní 20, 2011

Ferðalag: Boston í stuttu máli

Dvölin í Boston var ágætis mótvægi við skólaheimsóknirnar til New Hampshire. Borgin býður upp á svo ótalmargt og er miklu aðgengilegri og þægilegri en flestar aðrar borgir í Bandaríkjunum. Það er auðvelt að komast gangandi á milli staða í miðbænum og almenningssamgöngur er fyrsta flokks. Borgin er mjög græn og húsin flestar rauðleitar múrsteinsbygginar, líka kirkjurnar (ein þeirra mjög fræg: the Trinity Church). Á móti þessu glampa háhýsi hér og þar. Maturinn í Boston er sérlega góður. Sætabrauðið er ómótstæðilegt og ísinn sem þeir bjóða upp á er frábær. Það er mjög öflug jógúrtísmenning hér með dýrindis kurli út á sem freistandi er að éta í hvert mál. Ein verslunargatan er fræg um allan heim fyrir sjarma sinn og gæði verslana (Newbury Street) og allt um kring má finna fræga háskóla með jákvæðum áhrifum sínum á götulífið (Harvard, MIT, Berklee Music College). Svo er allt fullt af afþreyingu fyrir fjölskyldur, bæði söfn og garðar. Frábær borg í einu orði sagt sem ég hlakka til að heimsækja aftur. Reyndar vonast ég til að geta staldrað þar við á leiðinni heim á fimmtudaginn kemur.

Ferðalag: Skólaheimsóknir í New Hampshire

Eins og ég sagði í síðasta innleggi er ég staddur í útlöndum, nánar tiltekiði í Maine í Bandaríkjunum, eftir vel heppnaða viðkomu í Boston. Ég fór til Boston með skólanum til að skoða tvo mjög athyglisverða sérskóla. Annar þeirra var heimavistarskóli uppi í sveit í gríðarlega fallegu umhverfi í New Hampshire (sem er fylkið á milli Maine og Massachussetts þar sem Boston liggur). Þessi sveitaskóli er einkarekinn, einfaldur og hlaðinn bókum. Hann er mjög gamaldags og sjarmerandi. Þarna fá nemendur með tilfinninga- og samskiptavanda (Asperger, Tourette og ofvirkir) að starfa í einfaldara umhverfi en hinum venjulega skóla, með færri nemendur og nær náttúrunni þannig að þeir róast töluvert. Þarna er líka svigrúm til að taka á þeim reiðiköstum sem öðru hvoru gjósa upp án þess að það hafi einhverjar alvarlegar afleiðingar (samanborið við venjulegan skóla, þar sem umtal og viðbrögð umhverfisins magnar upp neikvæð áhrif af óæskilegri hegðun). Hinn skólinn sem við skoðuðum var líka í New Hampshire og var hefðbundnari skóli með sérstöku útibúi fyrir erfiðustu nemendurna. Það sem sá skóli hafði fyrst og fremst fram að færa var mjög skilvirkt skráningarkerfi sem gerði starfsfólkinu kleift að fylgjast mjög náið með líðan og framgangi nemenda, sem gerði þeim kleift að grípa snemma inn í þegar þeir áttu í vanda. Þá hófst viðtalsferli sem var mjög hvetjandi. Ólíkt því sem við erum vön úr okkar skólakerfi byggjast slík viðtöl ekki á skömmum eða refsingum heldur er farið í saumana á því hvaða persónu nemandinnn hefur að geyma og reynt að skoða mjög nákvæmlega hvert hann stefnir og hver áhugamálin eða hæfnissviðin eru. Með þessari umgjörð og viðtölum upplifa nemendur mikið aðhald og virðingu í sinn garð. Eins og einn nemandinn sagði: "I saw that they truly cared for me. I just didn´t know how to care for myself". Kennarar Brúarskóla voru mjög ánægðir með þessar heimsóknir og við eigum ábyggilega eftir að nýta okkar margar hugmyndir þaðan næsta vetur.

föstudagur, júní 17, 2011

Ferðasaga: Kominn til Maine

Þá er ég kominn til Maine í Bandaríkjunum. Vigdís og stelpurnar eru heima en ég í fríi í útlöndum. Hvernig stendur á þessu? Þetta byrjaði sem skólaferð. Brúarskóli (sem ég tilheyri) fór í kynnisferð til Boston til að skoða sérskóla. Þetta var fimm daga ferð. Fyrstu tveir dagarnir voru frjálsir og notaðir til að ná áttum. Næstu tveir voru "vinnudagar" með frítíma um kvöldið. Síðasti dagurinn var svo aftur frjáls. Í gær var svo brottfarardagur. Flestir fóru heim til Íslands, þó ekki alveg allir (eins og gengur). Ég bjó hins vegar svo vel að því að eiga góðan vin í nágrannafylkinu Maine þangað sem ég fór í heimsókn til að dvelja í um vikutíma. Það er ekki nema fjögurra tíma rútuferð á milli Boston og Bangor (í Maine) þar sem ég er núna í góðu yfirlæti. Eins og heima er netsamband búið að vera stopult á ferðalaginu. Tölvutíminn var dýr á hótelinu. Hérna er ég hins vegar kominn í fyrsta flokks aðstöðu og verð vonandi duglegur að skrifa um upplifun mína næstu dagana.

mánudagur, maí 30, 2011

Fréttnæmt: Netsamband

Ég hef verið í stökustu vandræðum með að halda netsambandi undanfarið. Við Vigdís ákváðum á dögunum að taka stökkið yfir í hinn glæsilega ljósleiðaravædda heim í boði Vodafone. Þeir komu á staðinn á þriðjudaginn var og aftengdu gömlu ADSL tenginguna og settu ljósleiðara í allt: Sjónvarp, síma og net. Sjónvarpið er orðið mun skarpara en áður. Við vorum með loftnetsdraug sem hvarf eins og dögg fyrir sólu með þessari nýju tækni. Síminn er bara eins og áður; hann virkar. Netið var hins vegar í lamasessi. Sambandið var stopult strax frá fyrsta degi. Auðvitað var það fínt á meðan tæknimaðurinn var á staðnum en strax um kvöldið var það farið að stríða okkur og hefur gert það alla tíð síðan. Þetta kostaði mikla símadvöl við það eitt að bíða eftir að komast að hjá símaþjónustu Vodafone. Eftir fjöldann allan af leiðbeiningum símleiðis og þreytandi biðtíma ákvað ég að varpa boltanum yfir til þeirra. Ég hringdi til þeirra fyrir hádegi úr vinnunni (þá er auðveldara að komast að) og pantaði símatíma hjá þeim, ef svo má að orði komast. Ég bara lýsti ástandinu og fór fram á það að þeir hringdu í mig um fimmleytið. Og það gerðu þeir, að sjálfsögðu, og náðu með einhverjum nýjum göldrum (og samvinnu við mig) að endurstilla "routerinn". Nú virkar þetta eins og smurt. Nýtt líf, að sjálfsögðu, í netskilningi þess orðs.

föstudagur, maí 20, 2011

Tungumál: Tungubrjótur

Ég var að spila teningaspil í vinnunni með nemendum mínum þegar út úr mér datt einhvers konar tungubrjótur:

Þá fékkst þú strax þrjú stig.

Reynið bara að segja þessa setningu án þess að fipast. Það er furðu erfitt. Ekki verður það auðveldara er við röðum orðunum öðruvísi upp:

Þá fékkst þú þrjú stig strax

Þetta er býsna óþægilegt :-)

miðvikudagur, maí 18, 2011

Pæling: Falskar minningar

Hugrún getur stundum verið gleymin. Um daginn gleymdi hún sólhatti í matvörubúð Hagkaupa á Eiðistorgi. Við vorum þá öll fjögur á ferðinni og svolitið flókið að rekja ferðir okkar aftur í tímann. Fyrir vikið fundum við hann ekki sama hvar við leituðum. Daginn eftir vorum við Hugrún hins vegar þar á ferð aftur af tilviljun. Við vorum bara að drepa tímann á bókasafninu og ráfuðum niður í anddyri Hagkaupa. Allt í einu rak ég tána í hattinn þar sem hann lá á gólfinu í versluninni. Þá mundum við eftir því hvernig hún hafði sest í smástund í leikfangabíl (knúinn krónupeningum) sem þarna er alltaf í horninu og svo hafði hún yfirgefið hann í flýti. Þannig gerast hlutirnir yfirleitt. Við brostum bæði tvö við að sjá hattinn birtast upp úr þurru. Það voru ánægjulegir endurfundir. En hún var hins vegar ekki eins ánægð í dag þegar hún fann buffið sitt í annarri verslun. Sú saga hófst í gær. Þá fór ég í lagersölu forlaganna á Granda með Signýju og Hugrúnu. Þær voru báðar með buff á höfði. Síðan fórum við í BYKO og þaðan heim. Þá var Hugrún allt í einu ekki með buffið lengur á höfðinu. Ég spurði þær systurnar út í það hvort þær myndu eftir buffinu á einhverjum stað frekar en öðrum og þær náðu að tala sig saman um það að Hugrún hefði verið með buffið á höfðinu þegar þær fóru inn í BYKO. Þær voru eiginlega alveg sannfærðar um það. Við fórum auðvitað þangað strax en fundum ekki neitt. Ég vissi að lagersalan var lokuð þegar hér var komið sögu svo við fórum bara heim eftir þetta, bufflaus.

Í dag fór ég hins vegar beint í lagersöluna eftir að ég sótti Signýju og Hugrúnu í leikskólann. Á leiðinni þangað reyndu þær að telja mér trú um að þetta væri erindisleysa því þær mundu vel eftir buffinu í BYKO. Ég batt hins vegar vonir við að finna það þar þrátt fyrir sannfæringarkraft systranna því ég mundi vel eftir því að Hugrún hafði verið svolítið kærulaus með buffið í lagersölunni. Og viti menn! Þar lá það á vísum stað. Signý og Hugrún þurftu ekki einu sinni að koma inn í söluna með mér að leita að buffinu því það var svo auðfundið. Þegar ég veifaði buffinu til þeirra glaður þar sem þær sátu í bílnum settu þær strax upp tortryggnissvip og fóru að efast um að þetta væri sama buffið. Þeim fannst það vera eittvað öðruvísi, kannski svolítið hreinlegra en buffið hennar Hugrúnar. Það hlyti einhver annar að eiga það! Hugrún gekk meira að segja svo langt að álykta að vinkona hennar úr leikskólanum (sem á eins buff og hún) hlyti að hafa verið þarna í gær! Þær gáfu sig ekki með þetta fyrr en ég stakk upp á því að við færum með buffið heim til vinkonu hennar. Þá viðurkenndi Hugrún loksins að hún ætti það.

Þetta er svolítið magnað og rímar ágætlega við félags- og sálfræðikenningar sem greina frá því hversu hæglega við skáldum inni í eyður í minningasafninu. Okkur finnst við stundum hafa gert eitthvað bara ef við höfum heyrt endurtekna frásögn af því. Vitnisburður sjónarvotta er ekki lengur talinn áreiðanleg sönnun fyrir einu eða neinu í rétti af þessum sökum. Hópar manna geta talið sjálfum sér trú um að hafa upplifað eitthvað í sameiningu, svo lengi sem þeir geta talað sig saman um það. Í þessu tilviki voru Signý og Hugrún búnar að búa til sameiginlega minningu sem reyndist röng. Það hefur ábyggilega verið óþægileg upplifun fyrir þær báðar.

sunnudagur, maí 15, 2011

Upplifun: Smá menningarreisa

Í dag var fallegur dagur og við nýttum hann til að kíkja á Hörpu, nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsið við höfnina. Kraðakið var mikið í mannþrönginni svo það er erfitt að meta áhrifamátt hússins að svo stöddu. Okkur fannst það í fljótu bragði svolítið kuldalegt og hrátt en það er ekki alveg að marka. Það er ekki alveg tilbúið enn þá.

Við fórum á kynningartónleikana með "Maxímús músíkús" með Signýj og Hugrúnu ásamt Beggu, Fannari og Guðnýju. Þetta var athyglisverð dagskrá. Sagan var um músina Maxímús sem villist inn í tónlistarhúsið og undrast yfir öllum þeim hljóðum sem þar berast um. Þetta er kynning á tónheim sinfóníuhljómsveitarinnar af sjónarhóli músarinnar. Sögumaður hélt þræðinum og talaði fyrir hönd músarinnar á meðan hljómsveitin spilaði Bolero, upphafskaflann úr 5 sinfóníu Beethovens og Fanfara for the Common man (e. Copland) ásamt íslenskum sönglögum. Vel heppnað, að mínu mati, og sniðugt að hafa sögumann inni í tónlistinni sem túlkar þennan framandi tónheim eins og hann berst músinni.

Eftir tónleikana fórum við saman á Kjarvalsstaði. Þetta var sem sagt eins konar menningarreisa. Við kíktum á sýninguna sem helguð er íslenska hestinum. Ég mæli með henni við alla. Hún höfðar sterklega til þeirra sem aðhyllast natrúarlisma í myndlist og er í leiðinni mjög skiljanleg börnum. Signý og Hugrún virtust að minnsta kosti hafa áhuga á að skoða allar myndirnar. Þetta er líka áhugaverður þverskurður íslenskrar myndlistar í gegnum tíðina því nálgunin á viðfangsefnið var mjög ólík, frá náttúrutómantí Þórarins B. Þorlákssonar til dagsins í dag.

Gullmolar: Daginn í dag - eða í Gamla daga.

Þrítugasti apríl er ekki bara afmælisdagur Hugrúnar. Hollendingar halda upp á Drottningardaginn, þjóðhátíðardag sinn, sama dag (og fyrir þá sem ekki vita geta Hugrún og Signý rakið ættir sínar þangað gegnum mig). Við ætluðum að kíkja saman á snittur og veitingar í boði Hollenska ræðismannsins en komumst að því að boðinu hafði verið flýtt um einn dag af því að ræðismaðurinn vinnur ekki um helgar! Sérkennilegt, finnst mér. Sama dag og boðið var haldið var aldeilis mikið um að vera í Englandi því einmitt þann dag voru þau William og Kate gefin saman hátíðlega. Það var því mikið rætt um drottningar þessa dagana einmitt þegar Hugrún kom heim með afmæliskórónuna sína úr leikskólanum. Þegar afmælisveislan var að baki heyrði ég í Hugrúnu syngja lagbút á meðan við Vigdís tókum til. Lagið var: "Daginn í dag, dagin í dag, gerði Drottinn Guð...." og svo framvegis. En eitthvað hafði textinn skolast til:

Daginn í dag
Daginn í dag
Gerði Drottningu,
Gerði Drottningu


Þetta var eiginlega bara vel við hæfi. Svo fórum við saman eftir afmælisveisluna niður í bæ að kaupa núðlur. Við ákváðum að veita okkur smá skyndimat á meðan Vigdís snurfusaði heimilið eftir veisluna. Ég tók sem sagt stelpurnar báðar með og var um það bil að fara að leggja bílnum á Hverfisgötunni þegar heyrðist í Signýju:

"Pabbi, varst þú til í Gamla daga?".

Hún er alltaf eitthvað að pæla og í þetta skiptið var mér svarafátt fyrst í stað. Hugtakið er svo afstætt. Ég ákvað því að gefa henni einfalt svar: "Nei, Signý. Ég var ekki til í Gamla daga". Þá svaraði hún undir eins: "Ekki ég heldur".

Auðvitað.

Hugrún bætti síðan við snarlega: "Og ekki ég heldur - og ekki mamma heldur" svona til staðfestingar. Þetta gerir hún yfirleitt. Þegar einhver byrjar að telja saman fjölskyldumeðlimi þá klárar hún dæmið og telur alla upp, svo það sé ábyggilega enginn útundan.

Við vorum sem sagt "ekki til" saman, í Gamla daga. :-)

laugardagur, maí 14, 2011

Fréttnæmt: Fjögurra ára afmæli Hugrúnar

Svo að öllu sé nú haldið til haga verð ég að rifja lauslega upp fjögurra ára afmæli Hugrúnar sem haldið var samkvæmt venju rétt fyrir mánaðamótin síðustu. Hugrún var mjög spennt dagana fyrir afmælið og kvartaði sáran undir það síðasta (alveg fram á síðasta dag) yfir því hvað það væri enn langt í afmælið. En svo kom þetta allt saman á endanum. Afmælið var tiltölulega hefðbundið en frekar opið enda ekki um neina formlega veisluboðun að ræða. Þetta bara spurðist út svo að segja. Sumir komu á laugardegi, aðrir á sunnudegi og svo var botninn sleginn í þetta á mánudegi. Það vildi svo skemmtilega til að þeir sem hrifnastir eru af pönnukökum fengu sitt á laugardegi, aðrir fengu kökur og með því næsta dag á meðan mánudagsgestir nutu góðs af léttum kvöldmat og veislurestum í eftirrétt. Margt var í boði og flest allt kökukyns, frá brauðtertum yfir í rjómatertur með viðkomu í hefðbundinni súkkulaðiköku. Hins vegar er óhætt er að fullyrða að hjónabandssælan sem Begga systir kom með hafi slegið í gegn. Sumir veislugesta voru farnir að gera ráð fyrir henni og urðu hreint ekki fyrir vonbrigðum.

Svo tóku margir gestanna eftir myndarlegu teppi í stofunni (sem ég minntist á í síðustu færslu). Við keyptum það á flóamarkaði á Eiðistorgi í miðjum aprílmánuði. Það er hnausþykkt og veitir velkomna hlýju gegnum iljarnar. Ekki veitir af í okkar gólfköldu íbúð. Það er bæði hlýlegt að sjá og notalegt viðkomu. Svo þurfum við heldur ekki lengur að dreifa inniskóm á alla okkar gesti, sem er óneitanlega hagræðing í leiðinni (inniskórnir eru samt enn í boði fyrir þá sem vilja). Mamma var kannski hrifnust allra af teppinu og kíkti strax undir það og staðfesti að þetta væri alveg sérstakt hágæðateppi. Við vorum ákaflega ánægð með þann vitnisburð því oft áður höfðum við reynt að kaupa teppi á gólfið en orðið fyrir vonbrigðum. Þetta er sko allt annað en IKEA og rúmfatalagersteppin sem við reyndum að redda okkur með á sínum tíma.

mánudagur, maí 09, 2011

Daglegt líf: Veðrabrigði

Þá er sumarið loksins komið. Gærdagurinn var nýttur að fullu til útivista, bæði sund og göngutúra. Vonandi er eitthvað allt annað framundan en það sem við fengum í slyddukenndum apríl. Reyndar var þetta ekki svo slæmur mánuður að öðru leyti. Að minnsta kosti fann ég mig knúinn til þess að blogga oftar en ég hef gert í áraraðir. Og það tókst mér án þess að minnast einu orði á afmæli Hugrúnar og töfrateppið sem sveif inn í stofuna til okkar (meira um það ásamt afmælinu næst).

föstudagur, apríl 29, 2011

Daglegt líf: Kortavesen

Páskar að baki og gott betur, stutt vinnuvika líka. Við höfðum það náðugt um páskana og óðum nánast í heimboðum dag frá degi. Það var eins gott því ég gat ekki keypt í matinn fyrir helgina (og Vigdís meira eða minna á vöktum milli matarboða). Veskið mitt týndist á miðvikudaginn fyrir páska. Það fannst reyndar aftur sama dag, á leyndum stað í bílnum, en ekki fyrr en ég var búinn að loka kortunum - sem var rétt fyrir sex. Þá var orðið of seint að ná í bankana aftur fyrir páskafrí. Fimmtudagur og föstudagurinn langi framundan. Ég hafði á bak við eyrað stutta opnun í Kringlunni á laugardaginn (milli tólf og fjögur) en sá dagur þróaðist þannig að við urðum að flýta okkur austur fyrir fjall í matarboð til að ná þangað og til baka fyrir óveður sem var í uppsiglingu. Mín kort voru því enn ónothæf þann daginn, sem og sunnudag og annan í Páskum. Kosturinn við þetta allt saman var auðvitað sá að við eyddum varla krónu alla vikuna.

Ég vaknaði hins vegar upp við vondan draum á fyrsta vinnudegi eftir Páska. Þá mundi ég skyndilega eftir því að miðasala á Costello átti að hefjast á hádegi. Nú gerist þetta allt á netinu og kortið verður að vera til taks. Ég þurfti að haska mér út í banka í kaffipásunni um tíuleytið og treysta á að kortið yrði nothæft á hádegi. Það gekk hins vegar ekki eftir. Kortið var enn í lamasessi á meðan ég horfði fram á glæsileg sæti á þriðja bekk í Hörpunni fara í súginn. Ég stormaði um stofuna mína í vinnunni og hugsaði mitt rjúkandi ráð. Þá kom mér Vigdís að sjálfsögðu í hug. Með einni símhringingu var miðanum og sætinu borgið. Eftir sjö mánuði verð ég þar, svo sannarlega, og á eftir að hlakka til allan tímann. Þetta er eins og meðganga :-)

mánudagur, apríl 25, 2011

Tónlist: Costello sóló

Ég var að tékka á tónleikaferðalagi Costellos á netinu og í ljós kom að tónleikarnir hérna eru hluti af sóló-tónleikaferð. Hann er ekki með hljómsveit sér til stuðnings svo að þetta verður líklegast ekki mikið rokk. Hins vegar hefur hann komið víða við á löngum ferli og er mjög fær í að draga fram það besta í sínum lögum með einföldum flutningi.

Með þessar upplýsingar í huga bæti ég við nokkrum linkum sem gefa gleggri mynd af því sem er framundan. Í fyrsta tenglinum eru tvö lög og ég mæli sérstaklega með seinna laginu, kassagítarútgáfa af Shipbuilding.

Rockinghorse Road og Shipbuilding

Síðan fann ég brot úr einu af hans þekktustu lögum, Veronica, auk Alison og loks eitthvað glænýtt, af nýrri plötu, National Ransom.

Ég var eiginlega hissa á því hvað var lítið í boði á Youtube af lögum með honum einum. Þetta er svolítið hrátt. Vona bara að þetta fæli ekki frá.

föstudagur, apríl 22, 2011

Matur: Lax með mangóchutney

Ég fór í fermingarveislu í gær hjá Línu Rós, sem er barnabarn móðurbróður míns. Veislan var hin huggulegasta með nokkrum skemmtilegum óvæntum "atriðum". Meðal annars tók hún Lína upp á því sjálf að syngja tvö lög og bar sig mjög vel. Það þarf hugrekki til að gera svona lagað. Svo var maturinn fyrsta flokks. Ég sveigði fram hjá kjötinu, að vanda, og fékk nákvæmar upplýsingar um það bitastæðasta á borðinu: Mangóchutneylax. Það sem kom á óvart var fyrst og fremst bragðið og síðan hve auðveld uppskriftin var.

Laxinn er látinn marínerast í sojasósu í nokkra klukkutíma. Síðan er mangóchutney smurt yfir og salthnetum sáldrað yfir. Síðan bara: Inn í ofn! Það þarf ekki salt eða pipar eða önnur krydd. Sætleikinn og kryddkeimurinn kemur frá chutneysósunni og saltbragðið úr sojasósunni. Einfalt og gott. Það hentar vel að bera þetta fram með hvítlaukssósu og salati.

fimmtudagur, apríl 21, 2011

Tónlist: Hvalrekinn Costello

Elvis Costello er að koma! Þetta las ég á dögunum og fékk strax smá fiðring. Ég er búinn að þekkja tónlist hans í yfir tuttugu ár og held mikið upp á hann sem tónlistarmann. En það er sérstaklega heppilegt að hann skuli koma akkúrat núna. Ástæðan er sú að ég lagðist yfir frábæra ævisögu hans upp úr áramótum og hef verið að stúdera feril hans og ævistarf sérstaklega undanfarið. Aðdáunin hefur að sjálfsögðu aukist á sama tíma. Þá heyrist bankað! Costello boðar komu sína til landsins. Ótrúlega ánægjulegt!

En það er ennþá mjög langt í tónleika. Þeir verða ekki fyrr en undir lok nóvembermánaðar og því nægur tími til stefnu fyrir þá sem hafa hug á að undirbúa sig að kynna sér vel það helsta sem hann lætur eftir sig. Sjálfur er ég alvarlega að spá í að nýta mér þetta sem ástæðu til að hafa reglulegan Costello-pistil hér í blogginu fram að tónleikum. Hugmyndin er að fjalla lauslega um ótrúlegan tónlistarferil Costellos með reglulegri vísun í tóndæmi af netinu. Það geri ég í þægilegum en reglulegum skömmtum og tek þetta fyrir í tímaröð.

Miðasala hefst hins vegar strax á þriðjudaginn kemur þannig að menn þurfa að vera fljótir að gera upp hug sinn varðandi miðakaup. Fyrir þá sem átta sig ekki á því hvað Elvis Costello stendur fyrir er hér hins vegar örlítið ágrip.

Costello hefur verið að gefa út plötur síðan 1977. Hann gaf út rúmlega plötu á ári fram til ársins 1986 - mikil afköst en gæðin voru slík að Costello var hampað af gagnrýnendum sem merkasta lagasmiði samtímans. Tónlistin er bæði ágeng og ögrandi en geysilega melódísk. Fjölbreytnin var alltaf í fyrirrúmi. Það var meiri stílbreyting á milli platna hjá honum en flestum tekst að þróa með sér á heilum ferli. Á milli platna var stokkið frá sóltónlist yfir í popp eða frá pöbbarokki yfir í pönk. Með tímanum fór hann meira að segja að vinna með klassískum tónlistarmönnum og lagði það á sig að læra að skrifa nótur til að geta unnið almennilega með mönnum eins og Burt Bacharach. Tónlistin varð fágaðri með tímanum en alltaf hafði hann þörf fyrir að leita til einfalda frumkraftsins í rokkinu inni á milli.

Hérna undir eru tenglar sem vísa á helstu smelli og önnur grípandi lög, ef þau kynnu að kveikja áhuga einhverra á tónleikunum framundan:

"Watching the Detectives" (1977) ( myndband).

"Pump it Up" (1978) (myndband)

"Oliver´s Army" (1979) (myndband).

"New Amsterdam" (1980) (myndband)

"Everyday I write the Book" (1983) (myndband)

"Veronica" (1989) - unnið með Paul McCartney (myndband

"Jacksons, Monk and Rowe" (1993) - unnið með Brodsky kvartettinum (myndband)

"She" (1999) (úr myndinni Notting Hill) myndband

"Toledo" (1998) - unnið með Burt Bacharach (myndband)

"45" (2002) (myndband)

mánudagur, apríl 18, 2011

Upplifun: Hávellandi í flæðarmálinu

Aftur segi ég frá fuglum. Í þetta skiptið var ég staddur við móttökustöð sorpu við Ánanaust og var að henda lífrænum úrgangi í sjóinn. Þetta geri ég öðru hvoru því það er enginn sem þjónustar þann úrgang sem auðveldast er að endurvinna (fisk, grænmeti og ávexti). Þetta fer allt í sjóinn hjá mér eftir því sem ég get komið því við. Þarna var ég búinn að klöngrast upp á varnargarðinn er ég heyrði fuglahóp ókyrrast undir niðri. Það voru Hávellur sem þar héldu sig tugum saman og syntu frá mér í flæðarmálinu. Söngur þeirra er mjög einkennandi með tónfalli sem maður fær á heilann (hér og hér má finna bæði hljóð og mynd). Þetta kom mér á óvart að sjá þær svona margar saman komnar. Venjulega sér maður eina og eina á stangli. Maður hefur getað gengið að því vísu að finna Hávellu á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi og hélt ég að þar væri um að ræða eitt eða tvö varppör. Aldrei hef ég séð fuglinn í svona stórum hópi og fannst það sérlega skrautlegt, enda fallegur fugl með löngum stélfjöðrum.

þriðjudagur, apríl 12, 2011

Daglegt líf: Skógarhöggsmaðurinn Þorsteinn

Hvellurinn á sunnudaginn var kom mér á óvart eins og svo mörgum öðrum. Ég var staddur uppi í Breiðholti í mat hjá mömmu þegar vindhviðurnar mögnuðust upp. Þarna var ég upp úr fjögur og fór sérstaka ferð niður í bæ að ná í Vigdísi (sem var að ljúka kvöldvakt á Borgarspítalanum). Á leiðinni til baka, upp Reykjanesbrautina, vorum við beinlínis hrædd. Vindurinn var svo áþreifanlegur. Hann gusaðist á móti manni gegnum vatnsrennurnar í malbikinu. Rakamagnið í loftinu var svo mikið og loftið gegnþétt þannig að maður gat beinlínis séð vindinn koma á móti. Skyndilega kom eins og leiftur í gegnum hugann tilhugsunin um flóðbylgjuna í Japan. Þetta er auðvitað hjákátlegt í samanburði en ef maður er varnarlítill gagnvart þessu beljandi votviðri í bílnum sínum við þessar aðstæður, hvernig ætli það hafi þá verið í Sendai þegar flóðbylgjan ógurlega eyddi öllu lífi?

Við komumst auðvitað klakklaust upp í Breiðholt og áttum afslappaða stund, en horfðum öðru hvoru á aspirnar allt í kring svigna eins og pálmatré. Ég var þarna staddur óviðbúinn og hefði átt að ganga betur frá garðinum heima. Þar vissi ég af lausu plasthúsi sem stelpurnar leika sér í öðru hvoru. Venjulega skorða ég það af á sérstökum stað þegar ég á von á óveðri en hafði ekki gert það í þetta skiptið. Einnig er stórt tré fyrir framan húsið sem hefur að undanförnu verið við það að gefa sig. Ræturnar eru veikbyggðar eftir að göngustígur var lagður þvert á rótakerfið húsmegin þannig að höggva þurfti á þær að hluta. Jarðvegurinn hefur verið að lyftast þeim megin í síðustu lægðum. Mér stóð alls ekki á sama þegar ég hugsaði út í þetta ofan úr Breiðholtinu.

Þegar við loksins komum heim stóð húsið í garðinum merkilega óhaggað. Vindáttin var bara svona hagstæð. Það hefði nú aldeilis getað gert usla ef það hefði lyfst af stað. Tréð var hins vegar að niðurlotum komið. Núna hafði jarðvegurinn lyfst öllu meira en áður en í stað þess að tréð rifnaði upp með látum, eins og ég hafði séð fyrir mér, lagðist það utan í nærliggjandi tré af sömu stærð. Þau dönsuðu mjúkan vangadans í rokinu saman þegar við komum heim. Veðrið var nú eitthvað tekið að skána þannig að við sinntum bara hefðbundnum kvöldverkum þegar heim kom. Ég hafði hins vegar samband við Ívar leigusala við fyrsta tækifæri, sem kom og tók stöðuna. Hann vissi af trénu og hafði dregið það að láta til skarar skríða. Það er ekkert grín að fella svona tré í miðjum garði. Hins vegar ákvað hann þá um kvöldið að láta verða af því að fella tréð, með tilheyrandi látum.

Það var komið kolniðamyrkur og enn mikið rok (með ískjöldum éljum) þegar Ívar kom aftur - hálf ellefu um kvöldið - með vélsög í annarri hendinni og heimatilbúinn krók úr steypustyrktarjárni í hinni, festan við tíu metra langan kaðal. Það var óneitanlega hressandi að taka þátt í þessu. Ég stökk upp í neðstu greinar og krækti í eins ofarlega og ég gat og togaði svo í að neðanverðu til að beina drumbunum í rétta átt á meðan Ívar sagaði. Þetta var vandaverk og auðvelt að slasa sig. En við vönduðum okkur og smám saman stóð stofninn einn eftir, snubbóttur. Hvað um hann verður veit nú enginn. Annað hvort verður hann aðgengilegur stubbur fyrir jólaseríur í desember næstkomandi eða endar sem efniviður í smíðastofunni í vinnunni hjá mér áður en langt um líður.

mánudagur, apríl 04, 2011

Pæling: Happ er best í hendi

Signý og Hugrún voru fyrr í dag að blaða gegnum auglýsingabækling sem kom inn um lúguna. Þær spáðu mikið í hlutina og töldu síðan upp allt það sem þær vildu eignast: "Ég vil eignast rólu og ég vil eignast rennibraut og....."

Minn ósjálfráði mótleikur var að segja kæruleysislega: "Og mig langar í stærra hús" og ætlaði bara að vísa þessu frá mér þannig.

Þá sagði Hugrún svolítið á móti sem vakti mig hins vegar til umhugsunar: "En þetta ER bara stærra hús!"

Og það er rétt. Í stað þess að segja "Þú gætir haft það verra" þá er það miklu meira frískandi og einfaldara að segja bara: "þú HEFUR það betra".

Upplifun: Sjokkerandi lexía í eldhúsinu

Ég fékk nett áfall á sunnudaginn var. Stelpurnar voru að hjálpa mér í eldhúsinu seinni partinn við að útbúa eftirrétt. Þetta voru bananasneiðar steiktar á pönnu eftir að þeim hafði verið dýft í kókosmjólkurjafning (ásamt hveiti og sesamfræjum, salti og sykri). Ég gleymdi mér smástund og var fullur tilhlökkunar þegar kom að steikingunni. Það vildi hins vegar ekki betur til en svo að bananinn rann af gafflinum og féll á pönnuna þegar ég hallaði mér yfir hana þannig að olían spýttist frá mér. Signý var þá mér að óvörum nýkomin upp að (við hliðna á eldavélinni) og ætlaði að sjá á pönnuna. Þið getið rétt ímyndað ykkur hættuna sem myndaðist. Höfuðið hennar rétt náði yfir barminn þar sem olían spýttist yfir andlitið á henni, að því er virtist. Hún rak upp skaðræðisóp og það var greinilegt að hún hafði brennt sig. Vigdís stökk til úr stofunni og var skelfingin uppmáluð. Ég reyndi hvað ég gat að halda ró minni og fór með hana beint inn á bað og dýfði næsta handklæði í kalt kranavatn og beint á andlitið. Ég sá fyrir mér doppótt andlit, alsett brunasárum, eða jafnvel að olían hefði hæft annað augað. Sem betur fer jafnaði Signý sig hins vegar fljótt og eftir um mínútu var hún hætt að gráta. Þá sá ég að hún var ekki hættulega brennd (en átti samt von á að sjá brunablett einhvers staðar). Þá varð ég hins vegar að skilja hana eftir með móður sinni því bananarnir lágu enn þá á kraumandi pönnunni. Nú var ég orðinn hins vegar nokkuð rólegur og hélt áfram að sinna pönnunni í smástund og kom svo til baka. Signý var hætt að gráta og sat bara hnuggin í fangi Vigdísar. Það var grafarþögn. Allir í enn í miklu sjokki. Ég spurði Signýju hvar hún hefði fundið til og hún benti á gagnaugað og þar var engan blett að sjá, sem betur fer. Spáið í heppnina! Ég hélt hins vegar áfram að steikja og kláraði mig af í eldhúsinu. Signý var nógu brött til að koma aftur inn áður en yfir lauk ásamt systur sinni. Þetta var hins vegar rosaleg lexía. Það gleymist nefnilega að börnin eru með andlitið í slettuhæð beint af pönnunni! Við fáum kannski eitthvað á upphandleg, í versta falli (þá sjaldan sem maður er berhandleggjaður) á meðan þetta lendir beint framan í þeim.

Við borðuðum bananana með vanilliuís. Matarupplifunin risti ekki djúpt því við vorum hálf lystarlaus eftir þetta allt saman.

laugardagur, apríl 02, 2011

Upplifun: Skrautleg leiksýning í trjátoppi

Ég varð fyrir mjög framandi og sérkennilegri upplifun í hverfinu í dag. Ég fór út að skokka í svölu vorloftinu og heyrði undarlegt ýluhljóð, leiftrandi eins og loftárás, eins hvellt og leysigeislarnir úr gömlu góðu vísindaskálsögunum. Það var allt í kring og aðallega fyrir ofan mig. Þetta var virkilegur hávaði - mjög áberandi. Þá fór ég að skima um eftir fuglum og tók eftir óvenju bústnum fuglum í trénu rétt fyrir ofan mig. Ekki einum heldur fleiri, hátt í tuttugu talsins. Þeir voru ívið stærri en Skógarþrösturinn en þó ekki eins miklir um sig og dúfur, gráleitir með dúsk á höfði og fullt af litum hér og þar. Vængirnir voru mynstraðir á jaðrinum og andlitið svart og hvítmynstrað í stíl, með gráan búkinn þar á milli. Mér fannst ég horfa á fugl úr fjarlægum heimi, ekki móleitan, litlausan eins og flesta íslenska, heldur skrautfugl sem tilheyrði annarri veröld. Þetta var eins og að horfa á leiksýningu mitt í gráum hversdagsleikanum, leiksýningu frá Kína. Ég gapti og fólk fór að horfa á mig þar til ég tók mig saman í andlitinu og hélt minni för áfram. Tuttugu mínútum síðar átti ég leið fram hjá svæðinu aftur þar sem fuglahópurinn hélt sig og ég heyrði langt að skvaldrið í fuglunum. Þeir eru ekki vanir því að fela sig þessir. Svo fór ég beint í tölvuna og komst að því að þetta var hin fræga Silkitoppa. Ótrúlega glæsilegur fugl.

þriðjudagur, mars 29, 2011

Daglegt líf: Burt með hárið

Nú er vorið ábyggilega komið. Ég hélt að minnsta kosti upp á tilfinninguna með því að raka af mér hárið um daginn. Ég skildi eftir snyrtilega kiwi-klippingu, eins og það er kallað, þannig að kollurinn er til þess fallinn að grípa rækilega í húfur þessa dagana, svona eins og franskur rennilás. Þetta er búið að vera tilhlökkunarefni síðustu vikurnar. Ég hef satt að segja verið ægilegur ásýndum, úfnari en Beethoven sjálfur. Vikum saman hef ég verið kominn á fremsta hlunn með að grípa í rakvélina en vetrarkuldinn hefur aftrað þeim áformum að undanförnu.

Það var reyndar ekki bara vortilfinningin sem hvatti mig áfram. Á sunnudaginn var sýnd myndin Taxi Driver. Með rakvélinni fagnaði eiginlega bæði vorinu og sýningu þessarar goðsagnakenndu myndar með gjörningnum. Það er eitthvað ofbeldisfullt við það að taka af sér hárið. Minnir mann á fangabúðir eða geðveiki. Mjög frískandi.

fimmtudagur, mars 17, 2011

Þroskaferli: Sögur og orð

Stelpurnar fóru til Beggu systur um helgina og gistu þar aðfaranótt sunnudags. Áður en ég sótti þær á sunnudeginum fór ég með þau Fannar og Guðnýju í sund og mælti mér mót við þau á Hlemmi, þaðan sem við örkuðum í Sundhöllinna. Þau höfðu aldrei farið í hana áður og fannst gaman að upplifa það sem laugin býður sérsaklega upp á: bæði stökkva og kafa.

Á meðan voru þær Signý og Hugrún í góðu yfirlæti. Signý var á fullu í því að semja sögur, sem Begga skrásetti samviskusamlega. Ein þeirra fjallað um Rósalind prinsessu í Melabúðinni sem fann bangsa úti á götu og seldi hann, en síðan reyndist sölumaðurinn eiga bangsann :-) Önnur sagði söguna af boltanum sem fór út á götu og lenti undir bíl þannig að dekkið sprakk!! Það var gaman að lesa þessar sögur á meðan við mauluðum bakkelsi sem ég tók með mér á leiðinni upp eftir. Síðan röltum við yfir til ömmu þeirra og afa (mömmu og pabba) og fengum okkur þar kvöldmat. Um tíma var svolítill galsi í bæði þeim og frændsystkinum þeirra svo við ákváðum að fara í smá keppni. Signý kallaði hátt og skýrt "þangarbindindi" og svo áttu allir að halda aftur af sér þangað til einhver einn tapaði. Þá var byrjað aftur. Hugrún var jafn spennt fyrir þessum leik og vildi stýra honum með systur sinni og hrópaði með henni: "Hrafnabindindi"!

Systurnar fengu dýrindis handsnyrtingu hjá Beggu með mismunandi naglalakki á hverri nögl. Í leikskólanum hafa þær vera mjög ánægðar með sig það sem af er vikunni. Hugrún var sérsaklega upptekin af nöglunum og var bara með handarbakið á lofti fyrsta daginn og tilkynnt öllum sem hún sá: "Ég me´ naglanakk"!

mánudagur, mars 14, 2011

Fréttnæmt: Síminn yngist upp

Lengi vel hef ég verið ákaflega óáreiðanlegur gemsanotandi. Með semingi eignaðist ég fyrsta gemsann minn fyrir um tíu árum - gefins - og notaði nokkur ár. Hafði stundum kveikt á honum, oft slökkt. Mörgum árum síðar gaf hann sig og ég fékk notaðan síma að láni og var með hann í eitt eða tvö ár þar til síminn hennar Vigdísar þótti nógu úreltur til að hún fengi sér nýjan. Þá fékk ég hann sjálfkrafa. Fínn sími: gamall Nokia. Svo eignaðist Ásdís systir hennar líka nýjan síma. Hún átti fyrir nákvæmlega eins gamlan Nokia og Vigdís og ég naut góðs af því. Þá átti ég allt í einu tvo eins! Þann fyrri notaði ég í mörg ár. Hann var farinn að verða talsvert snjáður og einn takkanna var orðinn óvirkur. Það var leiðinlegt sambandsleysi í hleðslutækinu þar að auki. Þegar rafhleðslan var farin að trufla mig, skjárinn hættur að sýna hleðslutáknið og síminn farinn að slökkva á sér fyrirvaralaust mundi ég loksins eftir hinum símanum sem ég átti einhvers staðar. Hann tók ég loks í notkun fyrir nokkrum mánuðum eftir rúmlega árs vesen með hinn. Hleðslutækið virkar núna eins og herforingi og síminn er glansandi fínn, eins og beint úr búðinni. Núna nenni ég að standa í því að hlaða hann. Hins vegar var rafhleðslan orðin slöpp eftir fyrri notkun. Það var svo sem fyrirsjáanleg þannig að ég sætti mig bara við það þar til ég uppgötvaði að síminn tæmdi sig nánast um leið og hleðslutáknið gaf til kynna að síminn væri ekki lengur fullur. Frekar slæmt. Svo lenti ég í fyndinni uppákomu um daginn sem fékk mig til að kippa þessu í liðinn:

Ég var búinn að mæla mér mót við Jón Má niðri í bæ. Báðir vorum við með gemsa og töluðum okkur ekki nákvæmlega saman til um það hvernig og hvar við skyldum hittast. Ég náði ekki í hann úr heimasímanum á leiðinni út og ákvað að sitja fyrir honum þar sem ég hef oftast hitt hann, í Eymundsson. Þá sá ég að hleðslutáknið í gemsanum var farið að láta á sjá. Ég reyndi að hringja í hann úr búðinni en síminn gaf sig undir eins. Þá kveikti ég aftur því ég vissi að hann réði að minnsta kosti við SMS og náði að senda Jóni skilaboð um að senda mér SMS með upplýsingum um það hvar ég væri staddur. Svo leið og beið og ekki hafði hann samband. Um hálftíma síðar birtist hann á glugga í dimmum vetrarnæðingnum á leiðinni upp Skólavörðustíginn. Hann hafði beðið eftir mér annars staðar og kom arkandi þvert yfir miðbæinn. Skilaboðin höfðu borist honum þar sem hann sat annars staðar og beið eftir símtali frá mér en sjáflur gat hann ekki hringt til baka eða sent mér SMS því hans sími var innistæðulaus! Frekar óvenjulegt og hefði getað verið meira truflandi en það var í raun. En það vakti mig til umhugsunar.

Ég talaði á sínum tíma við starfsmann í Vodafone um nýtt batterí í símann minn. Það leit út fyrir um tíma að ég gæti ekki notað nýja (gamla) símann minn áfram því nýju gemsarnir eru allir með öðru vísi batterí!!! Þeir selja ekki þessi gömlu lengur. Þannig er maður hálfpartinn þvingaður til að kaupa nýja vöru í sífellu. En sem betur fer er til verslun sem heitir Símabær sem sankar að sér varahlutum úr gömlum símum og á þar að auki lager af gömlum gerðum af batteríum sem hinar verslanirnar nenna ekki að sitja uppi með. Starfsmaðurinn í Vodafone benti mér reyndar á þessa verslun en með þeim varnaðarorðum að það borgaði sig líklega ekki að kaupa rafhlöðuna því hún kostaði líklega svipaði og nýr sími. Ég leyfði mér að efast um það vitandi að þetta er enn eitt trixið til að fá mann til að endurnýja það sem maður á fyrir.

Og hvað kostaði rafhlaðan? Um 2500 krónur! Og ódýrasti gemsinn á markaðnum? Um það bil átta þúsund.

Nú hef ég ekki lengur neina afsökun fyrir því að missa af SMS-skilaboðum og hafa lokað fyrir símann dögum saman. Hins vegar þori ég ekki að lofa því að ég hafi hann á mér öllum stundum. Það er allt annað mál :-)

fimmtudagur, mars 10, 2011

Upplifun: Þrír líflegir dagar

Það er alltaf svolítið fyrir þessari þrennu haft: Bolludegi, sprengidegi og öskudegi. Vigdís bjó til dýrindis bollur, vatnsdeigs, og útbjó þetta fína súkkulaðkrem sem átti að lenda ofan á þeim en var bara betra á milli, með "smá" rjóma. Svo kom sprengidagur. Signý var spenntari fyrir honum og talaði í sífellu um "rakettudag". Ég áttaði mig ekki á misskilningnum fyrr en tiltölulega seint og hafði lengi undrast yfir þessum skyndilega rakettuáhuga! Sprengidagurinn, útskýrði ég, er nefnilega dagurinn þegar maður borðar svo mikið að maður næstum því springur. En því miður stóð sú lýsing nokkurn veginn heima. Ég fékk hringingu í vinnuna upp úr hádegi á sprengidag og frétti að Signý væri veik í maganum. Hún hafði kastað upp og var eitthvað slöpp. Hún var ósköp fegin að sjá mig þegar ég kom i hádeginu og naut þess að vera í góðu yfirlæti með mér heima. Sem betur fer var þetta minna en á horfðist og hún braggaðist ótrúlega hratt og var alveg til í að fá sér aftur baunasúpu um kvöldið. Hún vildi fyrir alla muni ekki missa af öskudeginum. Hann var búinn að "malla" í nokkra daga undir niðri. Þá átti hún að vera Rósalind prinsessa (sem er með vængi, töfrasprota, kórónu og klædd myndarlegum kjól) á meðan Hugrún var búin að panta Helló Kittý. Prinsessunni var auðveldlega reddað en kisunni þurfti að klóra sig fram úr (afsakið orðaleikinn). En vinnustaðurinn minn er þess eðlis, blessunarlega, að hægt er að föndra ýmsilegt svo ég kom heim með fallega pappírsgrímu eftir forskrift af netinu. Hún sló aldeilis í gegn og gerði búlduleitar broskinnar Hugrúnar enn sætari, með bleikt trýni mitt á milli. Þannig mættu þær til leiks og skemmtu sér að vonum vel.

sunnudagur, mars 06, 2011

Daglegt líf: Tvær tímabærar heimsóknir

Veturinn heldur áfram með sama hætti, gnauðandi og dimmur. Það er eins gott að maður er ekki haldinn skammdegisþunglyndi í þessu tíðarfari. Við í Granaskjólinu erum búin að hafa það býsna notalegt og afslappað í vetur og að mestu tíðindalaust eftir afmæli pabba (sjá síðustu færslu).

Fyrir um viku síðan tók ég mig til og fór í tímabærar heimsóknir. Til dæmis til Bjarts og Jóhönnu. Fyrir næstum því hálfu ári síðan hjálpaði ég þeim að flytja, án þess að hafa tíma til að fylgja því eftir með heimsókn. Ég náði ekki einu sinni að kíkja á nýju íbúðina í flutningunum og einbeitt mér þess í stað að kveðja gömlu ibúðina. Ég sparaði mér heimsóknina í nýju íbúðina þangað til við öll í fjölskyldunni hefðum tíma saman. Sú hugsun var eins og vandratað einstigi. Mánuðirnir liðu. Það var því við hæfi að heimsóknin hæfist með eftirminnilegum ratleik um Hafnarfjörðinn. Síðan lentum við í notalegu kaffihlaðborði. Börnin voru öll dugleg að leika sér á meðan við hin spjölluðum. Börnin eru nefnilega komin á þægilegan aldur hvað þetta varðar, sem gefur tækifæri til fleiri heimsókna. En það vildi einmitt svo skemmtilega til að daginn eftir var ég staddur í Perlunni (á bókamarkaðnum). Þá hitti ég á Stellu og Kristján. Þau hafði ég, með svipuðum hætti, ekki hitt í háa herrans tíð, eða síðan síðasta vor. Þau voru nánast í bakgarðinum heima hjá sér (eiga heima í hverfinu) og buðu okkur umsvifalaust í heimsókn. Þar gat maður, á ný, setið í makindum og spjallað meðan börnin léku sér fyrirhafnarlaust. Ég meira að segja gat gefið mér tíma til að njóta þess að horfa á myndasýningu úr ferðalagi sem þau voru nýkomin úr til Indlands. Það er nú saga að segja frá því hvernig þau komust þangað (svo ég læt hana ósagða) en það var óneitanlega svolítið frískandi að sjá aftur Indland í öllu sínu veldi og deila með þeim Kristjáni og Stellu sameiginlegri upplifun af þessu ótrúlega landi, enda var ég þar á ferðinni sjálfur fyrir um tveimur árum síðan.





.

fimmtudagur, febrúar 17, 2011

Uppákoma: 75 ára afmæli pabba

Í dag var merkilegur dagur í fjölskyldunni. Pabbi varð 75 ára gamall. Við héldum upp á daginn í Blikanesinu, þar sem Bryndís systir ásamt manni sínum, Ásbergi. Mamma var með ekta "mömmumat" og bauð á þriðja tug ættingja í huggulega kvöldmáltíð. Þetta var allt mjög afslappað og enginn átti von á neinni óvæntri uppákomu. Pakkarnir sátu þægir úti í horni og fólk spjallaði saman rólega þegar stórsöngvararnir Davíð og Stefán mættu á svæðið. Þeir vinna við það að koma fram af minnsta tilefni, tveir saman, hvort sem það eru tónleikar, þorrablót, afmæli eða aðrar uppákomur. Með sínar hljómmiklu raddir vöktu þeir mikla lukku og brugðu auðvitað á leik inni á milli, eins og þeim er einum lagið. Lögin snertu öll pabba, sem talaði um það eftir á að þetta hefðu allt verið "uppáhalds lögin sín". Sérstaklega var hann hrifinn af uppklappslaginu, sem var titlað sem "óskalag". Það var "Day-o", sem sló í gegn á heimsvísu í flutningi Harry Belafonte árið 1960. Óskalagið hitti í vel í mark í afslöppuðum flutningi þeirra félaga, og svo kvöddu þeir kurteislega og héldu út í myrkrið. Gestirnir sátu eftir með bros á vör enda magnað að heyra þessar raddir í frábærum hljómburði hússins í Blikanesi. Dagurinn endaði svo á rólegu nótunum með úrvals ís og öðrum eftirréttum úr smiðju mömmu. Þegar við loks tygjuðum okkur heim um níuleytið voru allir sammála um að veislan hefði heppnast vel í alla staði. Hún var bæði heimilisleg og afslöppuð í bland við hið óvænta.

þriðjudagur, febrúar 15, 2011

Þroskaferli: Grunnskólaval

Við Vigdís fórum með Signýju í gær í heimsókn í Grandaskóla. Já, hún er um það bil komin á grunnskólaaldur, ótrúlegt að hugsa sér það! Við fórum á eigin vegum um skólann vegna þess að leikskólinn hennar er á öðru þjónustusvæði og hefur verið að fara með krakkana í Melaskóla. Við erum hins vegar búsett nær Grandaskóla. Skólinn er að mörgu leyti fýsilegri en Melaskóli. Hann er talsvert minni (um það bil 250 nemendur, samanborið við tæplega 500, líklegast) og því auðeldara að halda utan um skipulagið. Mér finnst þetta talsvert stórt atriði því ég er þeirrar skoðunar að grunnskólar Reykjavíkur séu upp til hópa óttaleg bákn og stirðbusalegar rekstrareiningar. Því smærri sem skólinn er því meiri líkur eru á að hægt sé að koma til móts við þarfir einstaklinganna. Byggingin er að minnsta kosti snotur og vinaleg og hefur ýmsa kosti smæðarinnar umfram Melaskóla, sem reyndar er einn fallegasti skóli landsins (að minnsta kosti séð að innan). Stóri kosturinn er hins vegar sá að Signý þarf ekki að fara yfir fjölfarna umferðargötu á leiðinni í skólann og tvær af hennar bestu vinkonum fara sömuleiðis þangað. Svo hef ég hlerað það frá ýmsum aðstandendum og sjálfum fóstrunum í leikskólanum að það fari sérlega gott orð af Grandaskóla. Tónlistarkennslan er óvenju vegleg og skólastjórinn er sjálfur myndlistarmaður að upplagi og er líklegur til að standa vörð um verkmenntir skólans á niðurskurðartímum. Ég hef því tröllatrú á þessu næsta skrefi okkar, sem við reyndar tökum með semingi. Það er óskaplega þægilegt að vera áfram með börnin í öryggishjúpi leikskólans. En allt fram streymir...