mánudagur, apríl 04, 2011

Upplifun: Sjokkerandi lexía í eldhúsinu

Ég fékk nett áfall á sunnudaginn var. Stelpurnar voru að hjálpa mér í eldhúsinu seinni partinn við að útbúa eftirrétt. Þetta voru bananasneiðar steiktar á pönnu eftir að þeim hafði verið dýft í kókosmjólkurjafning (ásamt hveiti og sesamfræjum, salti og sykri). Ég gleymdi mér smástund og var fullur tilhlökkunar þegar kom að steikingunni. Það vildi hins vegar ekki betur til en svo að bananinn rann af gafflinum og féll á pönnuna þegar ég hallaði mér yfir hana þannig að olían spýttist frá mér. Signý var þá mér að óvörum nýkomin upp að (við hliðna á eldavélinni) og ætlaði að sjá á pönnuna. Þið getið rétt ímyndað ykkur hættuna sem myndaðist. Höfuðið hennar rétt náði yfir barminn þar sem olían spýttist yfir andlitið á henni, að því er virtist. Hún rak upp skaðræðisóp og það var greinilegt að hún hafði brennt sig. Vigdís stökk til úr stofunni og var skelfingin uppmáluð. Ég reyndi hvað ég gat að halda ró minni og fór með hana beint inn á bað og dýfði næsta handklæði í kalt kranavatn og beint á andlitið. Ég sá fyrir mér doppótt andlit, alsett brunasárum, eða jafnvel að olían hefði hæft annað augað. Sem betur fer jafnaði Signý sig hins vegar fljótt og eftir um mínútu var hún hætt að gráta. Þá sá ég að hún var ekki hættulega brennd (en átti samt von á að sjá brunablett einhvers staðar). Þá varð ég hins vegar að skilja hana eftir með móður sinni því bananarnir lágu enn þá á kraumandi pönnunni. Nú var ég orðinn hins vegar nokkuð rólegur og hélt áfram að sinna pönnunni í smástund og kom svo til baka. Signý var hætt að gráta og sat bara hnuggin í fangi Vigdísar. Það var grafarþögn. Allir í enn í miklu sjokki. Ég spurði Signýju hvar hún hefði fundið til og hún benti á gagnaugað og þar var engan blett að sjá, sem betur fer. Spáið í heppnina! Ég hélt hins vegar áfram að steikja og kláraði mig af í eldhúsinu. Signý var nógu brött til að koma aftur inn áður en yfir lauk ásamt systur sinni. Þetta var hins vegar rosaleg lexía. Það gleymist nefnilega að börnin eru með andlitið í slettuhæð beint af pönnunni! Við fáum kannski eitthvað á upphandleg, í versta falli (þá sjaldan sem maður er berhandleggjaður) á meðan þetta lendir beint framan í þeim.

Við borðuðum bananana með vanilliuís. Matarupplifunin risti ekki djúpt því við vorum hálf lystarlaus eftir þetta allt saman.

Engin ummæli: