þriðjudagur, apríl 12, 2011

Daglegt líf: Skógarhöggsmaðurinn Þorsteinn

Hvellurinn á sunnudaginn var kom mér á óvart eins og svo mörgum öðrum. Ég var staddur uppi í Breiðholti í mat hjá mömmu þegar vindhviðurnar mögnuðust upp. Þarna var ég upp úr fjögur og fór sérstaka ferð niður í bæ að ná í Vigdísi (sem var að ljúka kvöldvakt á Borgarspítalanum). Á leiðinni til baka, upp Reykjanesbrautina, vorum við beinlínis hrædd. Vindurinn var svo áþreifanlegur. Hann gusaðist á móti manni gegnum vatnsrennurnar í malbikinu. Rakamagnið í loftinu var svo mikið og loftið gegnþétt þannig að maður gat beinlínis séð vindinn koma á móti. Skyndilega kom eins og leiftur í gegnum hugann tilhugsunin um flóðbylgjuna í Japan. Þetta er auðvitað hjákátlegt í samanburði en ef maður er varnarlítill gagnvart þessu beljandi votviðri í bílnum sínum við þessar aðstæður, hvernig ætli það hafi þá verið í Sendai þegar flóðbylgjan ógurlega eyddi öllu lífi?

Við komumst auðvitað klakklaust upp í Breiðholt og áttum afslappaða stund, en horfðum öðru hvoru á aspirnar allt í kring svigna eins og pálmatré. Ég var þarna staddur óviðbúinn og hefði átt að ganga betur frá garðinum heima. Þar vissi ég af lausu plasthúsi sem stelpurnar leika sér í öðru hvoru. Venjulega skorða ég það af á sérstökum stað þegar ég á von á óveðri en hafði ekki gert það í þetta skiptið. Einnig er stórt tré fyrir framan húsið sem hefur að undanförnu verið við það að gefa sig. Ræturnar eru veikbyggðar eftir að göngustígur var lagður þvert á rótakerfið húsmegin þannig að höggva þurfti á þær að hluta. Jarðvegurinn hefur verið að lyftast þeim megin í síðustu lægðum. Mér stóð alls ekki á sama þegar ég hugsaði út í þetta ofan úr Breiðholtinu.

Þegar við loksins komum heim stóð húsið í garðinum merkilega óhaggað. Vindáttin var bara svona hagstæð. Það hefði nú aldeilis getað gert usla ef það hefði lyfst af stað. Tréð var hins vegar að niðurlotum komið. Núna hafði jarðvegurinn lyfst öllu meira en áður en í stað þess að tréð rifnaði upp með látum, eins og ég hafði séð fyrir mér, lagðist það utan í nærliggjandi tré af sömu stærð. Þau dönsuðu mjúkan vangadans í rokinu saman þegar við komum heim. Veðrið var nú eitthvað tekið að skána þannig að við sinntum bara hefðbundnum kvöldverkum þegar heim kom. Ég hafði hins vegar samband við Ívar leigusala við fyrsta tækifæri, sem kom og tók stöðuna. Hann vissi af trénu og hafði dregið það að láta til skarar skríða. Það er ekkert grín að fella svona tré í miðjum garði. Hins vegar ákvað hann þá um kvöldið að láta verða af því að fella tréð, með tilheyrandi látum.

Það var komið kolniðamyrkur og enn mikið rok (með ískjöldum éljum) þegar Ívar kom aftur - hálf ellefu um kvöldið - með vélsög í annarri hendinni og heimatilbúinn krók úr steypustyrktarjárni í hinni, festan við tíu metra langan kaðal. Það var óneitanlega hressandi að taka þátt í þessu. Ég stökk upp í neðstu greinar og krækti í eins ofarlega og ég gat og togaði svo í að neðanverðu til að beina drumbunum í rétta átt á meðan Ívar sagaði. Þetta var vandaverk og auðvelt að slasa sig. En við vönduðum okkur og smám saman stóð stofninn einn eftir, snubbóttur. Hvað um hann verður veit nú enginn. Annað hvort verður hann aðgengilegur stubbur fyrir jólaseríur í desember næstkomandi eða endar sem efniviður í smíðastofunni í vinnunni hjá mér áður en langt um líður.

Engin ummæli: