föstudagur, apríl 29, 2011

Daglegt líf: Kortavesen

Páskar að baki og gott betur, stutt vinnuvika líka. Við höfðum það náðugt um páskana og óðum nánast í heimboðum dag frá degi. Það var eins gott því ég gat ekki keypt í matinn fyrir helgina (og Vigdís meira eða minna á vöktum milli matarboða). Veskið mitt týndist á miðvikudaginn fyrir páska. Það fannst reyndar aftur sama dag, á leyndum stað í bílnum, en ekki fyrr en ég var búinn að loka kortunum - sem var rétt fyrir sex. Þá var orðið of seint að ná í bankana aftur fyrir páskafrí. Fimmtudagur og föstudagurinn langi framundan. Ég hafði á bak við eyrað stutta opnun í Kringlunni á laugardaginn (milli tólf og fjögur) en sá dagur þróaðist þannig að við urðum að flýta okkur austur fyrir fjall í matarboð til að ná þangað og til baka fyrir óveður sem var í uppsiglingu. Mín kort voru því enn ónothæf þann daginn, sem og sunnudag og annan í Páskum. Kosturinn við þetta allt saman var auðvitað sá að við eyddum varla krónu alla vikuna.

Ég vaknaði hins vegar upp við vondan draum á fyrsta vinnudegi eftir Páska. Þá mundi ég skyndilega eftir því að miðasala á Costello átti að hefjast á hádegi. Nú gerist þetta allt á netinu og kortið verður að vera til taks. Ég þurfti að haska mér út í banka í kaffipásunni um tíuleytið og treysta á að kortið yrði nothæft á hádegi. Það gekk hins vegar ekki eftir. Kortið var enn í lamasessi á meðan ég horfði fram á glæsileg sæti á þriðja bekk í Hörpunni fara í súginn. Ég stormaði um stofuna mína í vinnunni og hugsaði mitt rjúkandi ráð. Þá kom mér Vigdís að sjálfsögðu í hug. Með einni símhringingu var miðanum og sætinu borgið. Eftir sjö mánuði verð ég þar, svo sannarlega, og á eftir að hlakka til allan tímann. Þetta er eins og meðganga :-)

1 ummæli:

Begga sagði...

hhahaha vonandi verður fæðingin ljúfari.

Góða skemmtun...
kv.Begga