Elvis Costello er að koma! Þetta las ég á dögunum og fékk strax smá fiðring. Ég er búinn að þekkja tónlist hans í yfir tuttugu ár og held mikið upp á hann sem tónlistarmann. En það er sérstaklega heppilegt að hann skuli koma akkúrat núna. Ástæðan er sú að ég lagðist yfir frábæra ævisögu hans upp úr áramótum og hef verið að stúdera feril hans og ævistarf sérstaklega undanfarið. Aðdáunin hefur að sjálfsögðu aukist á sama tíma. Þá heyrist bankað! Costello boðar komu sína til landsins. Ótrúlega ánægjulegt!
En það er ennþá mjög langt í tónleika. Þeir verða ekki fyrr en undir lok nóvembermánaðar og því nægur tími til stefnu fyrir þá sem hafa hug á að undirbúa sig að kynna sér vel það helsta sem hann lætur eftir sig. Sjálfur er ég alvarlega að spá í að nýta mér þetta sem ástæðu til að hafa reglulegan Costello-pistil hér í blogginu fram að tónleikum. Hugmyndin er að fjalla lauslega um ótrúlegan tónlistarferil Costellos með reglulegri vísun í tóndæmi af netinu. Það geri ég í þægilegum en reglulegum skömmtum og tek þetta fyrir í tímaröð.
Miðasala hefst hins vegar strax á þriðjudaginn kemur þannig að menn þurfa að vera fljótir að gera upp hug sinn varðandi miðakaup. Fyrir þá sem átta sig ekki á því hvað Elvis Costello stendur fyrir er hér hins vegar örlítið ágrip.
Costello hefur verið að gefa út plötur síðan 1977. Hann gaf út rúmlega plötu á ári fram til ársins 1986 - mikil afköst en gæðin voru slík að Costello var hampað af gagnrýnendum sem merkasta lagasmiði samtímans. Tónlistin er bæði ágeng og ögrandi en geysilega melódísk. Fjölbreytnin var alltaf í fyrirrúmi. Það var meiri stílbreyting á milli platna hjá honum en flestum tekst að þróa með sér á heilum ferli. Á milli platna var stokkið frá sóltónlist yfir í popp eða frá pöbbarokki yfir í pönk. Með tímanum fór hann meira að segja að vinna með klassískum tónlistarmönnum og lagði það á sig að læra að skrifa nótur til að geta unnið almennilega með mönnum eins og Burt Bacharach. Tónlistin varð fágaðri með tímanum en alltaf hafði hann þörf fyrir að leita til einfalda frumkraftsins í rokkinu inni á milli.
Hérna undir eru tenglar sem vísa á helstu smelli og önnur grípandi lög, ef þau kynnu að kveikja áhuga einhverra á tónleikunum framundan:
"Watching the Detectives" (1977) ( myndband).
"Pump it Up" (1978) (myndband)
"Oliver´s Army" (1979) (myndband).
"New Amsterdam" (1980) (myndband)
"Everyday I write the Book" (1983) (myndband)
"Veronica" (1989) - unnið með Paul McCartney (myndband
"Jacksons, Monk and Rowe" (1993) - unnið með Brodsky kvartettinum (myndband)
"She" (1999) (úr myndinni Notting Hill) myndband
"Toledo" (1998) - unnið með Burt Bacharach (myndband)
"45" (2002) (myndband)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli