miðvikudagur, apríl 30, 2008

Afmæli Hugrúnar

Í dag á Hugrún afmæli. Hún er þá orðin eins árs á methraða (eða er það ímyndun?). Hér eru nokkrar góðar myndir frá síðustu viku.


My creation
Originally uploaded by Steiniberg.



Á morgun stendur til að halda upp a afmælið hennar Hugrúnar. Það verður tekið á móti gestum upp úr tvö og fram að kvöldmat. Vegna þeirra þrengsla sem við búum við í kjallaranum teljum við æskilegt að tvískipta þessu, þannig að ættingjar komi á morgun, en um helgina (eftir samkomulagi) geta vinir og kunningjar litið í heimsókn. Hver veit nema fersk kaka verði einnig bökuð af því tilefni :-)

þriðjudagur, apríl 29, 2008

Daglegt líf: Kvöldrútína í mótun

Það er undarlegt að fylgjast með Signýju þessa dagana. Þegar hún er um það bil lasin, eins og til dæmis þegar hún er að veikjast, þá verður hún sérlega óróleg og ærslafull. Núna er uppi svipuð staða. Hún er ekki með hita en samt með einhvern pirring í hálsi og lystarleysi. Á sama tíma er hún óvenju ærslafull - eiginlega friðlaus. Hugrún er að sama skapi stöðugt öflugri með hverjum deginum og saman voru þær bara býsna erfiðar í dag.

Vigdís er á kvöldvakt og ég gerði mitt besta til að láta hlutina ganga upp á meðan. Það gekk ágætlega, en ekki án þreytu í höfðinu. Það er heilmikið að þurfa að fylgjast með þeim báðum: tékka reglulega á bleyjum beggja, gefa þeim lyfin (báðar á lyfjum núna), gæta þess að þær príli ekki á hættulegum stöðum (báðar duglegar á því sviði), baða þær báðar (þannig að hin fylgist á meðan með þeirri sem er böðuð), tannbursta þær, búa til mat og gefa þeim báðum (gæta að fjölbreytni í fæðuvali í leiðinni), þrífa eftir þær, gæta þess að þær leiki sér saman án þess að geta sjálfur blikkað auga (því þá er stutt í að Hugrún detti og meiði sig).

Svo þarf að svæfa þær - og það er mikil kúnst eða þolinmæðisvinna. Ég segi "eða" vegna þess að ég get valið á milli þess að setja Hugrúnu í rimlarúmið sitt á meðan ég svæfi Signýju og heyra hana öskra á meðan (=þolinmæði) eða vera með þær báðar í rúminu hjá Signýju (=kúnst). Fyrra dæmið hljóðar svona: Þá verð ég eiginlega að vera með Signýju uppi í rúminu okkar Vigdísar og halla hurðinni á milli, til að dempa hljóðin aðeins, kíkja fram öðru hvoru þar til ég finn að Signý er farin að halla augunum. Gagnvart Hugrúnu er þetta "miskunnarlausa" leiðin, en um síðir kem ég fram og sinni henni þeim mun betur. Hin leiðin er að lesa bók með þær báðar í fanginu í rúminu hennar Signýjar. Ég finn þá hvernig Signý fylgist með sögunni á meðan Hugrún fiktar í bókinni og þreifar á myndunum (ég á eina upphleypta bók sem er afbragð). Stundum finnst Signýju fullmikið til afskiptasemi Hugrúnar koma og bandar henni frá sér. Athygli Hugrúnar þverr miklu fyrr en Signýjar svo hún fær að liggja útaf smástund meðan við Signý klárum bókina. Svo þegar lestri er lokið syng ég og leyfi þá Hugrúnu að vera í rúminu sínu á meðan, rétt hjá, og gef frá mér svipuð hljóð og Hugrún ef hún færir sig upp á skaptið í áttina til okkar. Annars held ég áfram að syngja þegar hún sér að sér og fer að hlusta. Þegar Signý er orðin syfjuð tek ég Hugrúnu að mér og gef henni pela á meðan Signý sofnar við hliðina á mér.

Þessar tvær leiðir eru ólíkar. Hingað til hefur "miskunnarlausa" leiðin verið eina sýnilega leiðin í spilinu. Núna var ég hins vegar að uppgötva þessa diplómatísku. Hún er ekki eins dramatísk og hefur þann frábæra kost að Signý getur þá sofnað í rúminu sínu. Það er erfitt að flytja hana á milli ef hún sofnar hjá okkur VIgdísi. Þegar við höfum gert það er líklegt að henni bregði þegar hún rumskar og sé ekki eins tilbúin að sofa þar áfram og ef hún hefði sofnað þar. Oft höfum við setið uppi með hana hjá okkur alla nóttina, sem er huggulegt reyndar, en lýjandi líka.

sunnudagur, apríl 27, 2008

Daglegt líf: Viðgerðir og veikindasaga

Jæja, nú er svolítið strembin törn að baki. Fyrir viku síðan fór bílnum snarlega hrakandi. Ég vissi af vafasamri legu (einni þeirra sem snúa viftureiminni) sem til stóð að skipta út. Það gaus upp af bílnum óþægileg hitalykt, sem líklega tengdist þessu. Þegar ég var kominn að því að fara með bílinn í yfirhalningu fór bíllinn í verkfall. Vélin rumskaði ekki einu sinni við start. Ég reddaði mér í vinnuna með öðrum hætti og hafði svo sambandi við "heimilislækninn" (bifvélavirkjann sem sér um viðhaldið fyrir okkkur). Þetta er sami maður og gerði við kúplinguna fyrr í vetur (sem ég greindi frá í smáatriðum á sínum tíma). Hann reyndist mér afar vel og bauðst til að skutla mér heim (býr í sama hverfi og ég vinn í) og kíkti á bílinn þar. Það myndu nú ekki allir gera umhugsunarlaust! Þar lagaði hann bílinn með nokkrum handtökum, og skipti svo um leguna í leiðinni. Þetta var víst bara einhver "oxun" í leiðslum þarna undir við geyminn og þurfti aðeins að hreyfa við þeim.

Þá virtist allt komið í fínt stand á ný. Bíllinn virkar enn mjög vel. Signý og Hugrún fóru hins vegar að vera eitthvað tæpar. Signý fór að hósta heilmikið, sérstaklega útafliggjandi. Læknisheimsókn á miðvikudaginn var leiddi ekkert í ljós annað en kvef sem lá ofarlega (engin lungnabólga, eyrnabólga né hálsbólga). Við höfðum ekki áhyggjur af því. Daginn eftir fór Hugrún hins vegar að verða slöpp og fékk hita. Aftur kíktum við á læknavaktina. Þar hafði læknirinn svipaða sögu að segja, nema hvað hún var með einhverja hálsbólgu. Hægt væri að gefa henni sýklalyf en við höfðum það frekar í bakhöndinni, ef hitinn skyldi aukast. Annars myndi þetta lagast af sjálfu sér. Daginn eftir gerðist það hins vegar. Hugrún fékk þá enn meiri hita og ég fór með hana aftur á læknavaktina. Fyrri daginn hafði ekki verið tekið strok úr háls en nú var það gert, ásamt því að við mættum til leiks með þvagsýni til stiksunar (stikkprufa með litavísbendinum um sýkingar). Ekkert kom afgerandi út úr því en læknirinn vísaði okkur á Barnadeild Landspílalans til nánari athugunar, af því Hugrún hafði áður fengið blöðrubólgu. Þar var ég hins vegar heilllengi (fram yfir miðnætti) og þvagið var metið hreint. Hins vegar var hálsstrok tekið á ný, dýpra en áður. Það er víst krítískt að strokið sé tekið mjög aftarlega í hálsinum. Ekki var hún með mikla streptokokkasýkingu, en með góðum vilja mátti greina á mælinum hvernig lóðrétta línan í plúsinum var að myndast dauft gegnum mínusinn. Þetta var nóg til að hleypa henni á sýklakúr, enda var hálsinn á henni Hugrúnu sýnilega mjög bólginn. Í þetta skipti má segja að ég hafi komið þreyttur en þó ekki tómhentur heim. Í gær (laugardag) kom svo loksins að því að Signý fékk hita. Á læknavaktinni þann daginn (maður er daglegur gestur, athugið) var það bara metið sem svo að miðað við að hún eigi systur á sýklakúr og sé með einhver einkenni sjálf þá þurfi ekki að taka strok úr henni. Sýklalyfin komu fyrirhafnarlaust.

Staðan er því sú í dag að Hugrún er búin að vera á kúrnum í rúman sólarhring og ætti að vera hætt að smita (miðað er við sólarhring eftir fyrstu inntöku). Signý er hins vegar enn á gráu svæði. Við höldum henni inni, ef við getum, og getum svo farið að hitta hvern sem er á morgun - eða að minnsta kosti annað kvöld. Þó óæskilegt sé að taka inn sýklalyf of oft getum andað léttar með það að þær verða varla með hita á afmælisdegi Hugrúnar, sem er nú í vikunni. Þá getum við gert okkur glaðan dag.

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Þroskaferli: Veggstaða

Hugrún er orðin mjög dugleg við að æfa jafnvægið. Hún stendur hægt og varlega upp við vegg og stjakar sér síðan frá honum. Þannig stendur hún ofurvarlega í um 10-15 sekúndur áður en hún lætur sig síga niður aftur. Nú vantar bara herslumuninn upp á að hún nái að ganga. Annars er alveg nógu erfitt að fylgja henni eftir á fjórum fótum. Hún vippar sér auðveldlega upp í rúm til Signýjar (sem stendur 30 cm frá gólfi). Þar finnst henni skemmtilegast að vera, enda allt fullt af koddum og böngsum. Ég tala nú ekki um ef Signý er þar til staðar líka.

mánudagur, apríl 07, 2008

Þroskaferli: Framfaraskref og máltaka Hugrúnar

Enn fetar Hugrún sig áfram. Hún er langt komin með að læra að standa sjálf. Hún hefur undanfarna daga gert tilraunir með að sleppa sér þar sem hún gengur meðfram. Hún er varkár og sleppir sér helst ekki nema hún viti af mjúkri undirstöðu, eins og uppi í rimlarúmi. Þar stóð ég hana að því að standa með rimlunum og sleppa ítrekað á laugardaginn var. Hún var svo örugg með sig í eitt skiptið að hún leyfði sér að klappa fjórum til fimm sinnum áður en hún hlammaði sér á dýnuna, kampakát. Sami leikurinn er í henni þegar ég er nálægt henni, á gólfinu, þá á hún það til að standa andartak og varpa sér síðan yfir mig - í fullri trú á að ég taki af henni fallið. Eins lætur hún sig stundum hníga á kodda í sama tilgangi. Þetta er hálf skuggalegt að sjá en það er eins og hún geri sér fulla grein fyrir því hvað hún er að gera.

Tungumálið er líka allt að slípast til. Hún segir "hæ" glaðhlakkalega og bætir gjarnan við "bless" þegar fólk er farið (stundum löngu eftir á - og horfir á lófann meðan hún vinkar). Essið er eins konar blæst eff. Beff. Svo er það baðið. Ef við vorum einhvern tímann í vafa um það hvort hún segði raunverulega "bað" þá kom staðfestingin endanlega núna um helgina. Hún skreið í humátt á eftir mömmu sinni inn á baðið, og sagði skýrt og greinilega "bah, bah". Ég kom andartaki síðar til að heyra hana endurtaka. Að sjálfsögðu var hún böðuð stuttu seinna.

Svo er það söngurinn. Við eigum svona kisu sem mjálmar, talar, malar, syngur og spilar tónlist ef maður kreistir aðra framloppuna á henni. Hugrún brosir alltaf þegar ég ræsi kisuna en þegar tónlistin kemur (hvort sem það er söngurinn eða hljomsveitarspilið) þá hummar hún mjög markvisst og angurvært með. Ekki það að maður þekki lagið frá henni, en innlifunin er sönn. Á sama hátt er hún löngu farin að taka viðbragð við fréttastefunum og ýmsum lögum úr mest spilaða barnaefninu. Þá klappar hún með og dillar sér ef ég slæ taktinn. Við höfum reyndar vitað nokkuð lengi að hún hefði tónlistina í sér því undanfarnar vikur höfum við fylgst með henni taka undir í "Allir krakkar". Hún virðist bíða átekta eftir þeim stað í laginu þar sem sungið er "mamma". Hún er svo kampakát með þetta lag að það er meira að segja hægt að fá hana til að opna munninn með því einu saman ef hún er eitthvað löt við að borða. Þá tekur hún við þó nokkrum skeiðum í viðbót með bros á vör.