Það er undarlegt að fylgjast með Signýju þessa dagana. Þegar hún er um það bil lasin, eins og til dæmis þegar hún er að veikjast, þá verður hún sérlega óróleg og ærslafull. Núna er uppi svipuð staða. Hún er ekki með hita en samt með einhvern pirring í hálsi og lystarleysi. Á sama tíma er hún óvenju ærslafull - eiginlega friðlaus. Hugrún er að sama skapi stöðugt öflugri með hverjum deginum og saman voru þær bara býsna erfiðar í dag.
Vigdís er á kvöldvakt og ég gerði mitt besta til að láta hlutina ganga upp á meðan. Það gekk ágætlega, en ekki án þreytu í höfðinu. Það er heilmikið að þurfa að fylgjast með þeim báðum: tékka reglulega á bleyjum beggja, gefa þeim lyfin (báðar á lyfjum núna), gæta þess að þær príli ekki á hættulegum stöðum (báðar duglegar á því sviði), baða þær báðar (þannig að hin fylgist á meðan með þeirri sem er böðuð), tannbursta þær, búa til mat og gefa þeim báðum (gæta að fjölbreytni í fæðuvali í leiðinni), þrífa eftir þær, gæta þess að þær leiki sér saman án þess að geta sjálfur blikkað auga (því þá er stutt í að Hugrún detti og meiði sig).
Svo þarf að svæfa þær - og það er mikil kúnst eða þolinmæðisvinna. Ég segi "eða" vegna þess að ég get valið á milli þess að setja Hugrúnu í rimlarúmið sitt á meðan ég svæfi Signýju og heyra hana öskra á meðan (=þolinmæði) eða vera með þær báðar í rúminu hjá Signýju (=kúnst). Fyrra dæmið hljóðar svona: Þá verð ég eiginlega að vera með Signýju uppi í rúminu okkar Vigdísar og halla hurðinni á milli, til að dempa hljóðin aðeins, kíkja fram öðru hvoru þar til ég finn að Signý er farin að halla augunum. Gagnvart Hugrúnu er þetta "miskunnarlausa" leiðin, en um síðir kem ég fram og sinni henni þeim mun betur. Hin leiðin er að lesa bók með þær báðar í fanginu í rúminu hennar Signýjar. Ég finn þá hvernig Signý fylgist með sögunni á meðan Hugrún fiktar í bókinni og þreifar á myndunum (ég á eina upphleypta bók sem er afbragð). Stundum finnst Signýju fullmikið til afskiptasemi Hugrúnar koma og bandar henni frá sér. Athygli Hugrúnar þverr miklu fyrr en Signýjar svo hún fær að liggja útaf smástund meðan við Signý klárum bókina. Svo þegar lestri er lokið syng ég og leyfi þá Hugrúnu að vera í rúminu sínu á meðan, rétt hjá, og gef frá mér svipuð hljóð og Hugrún ef hún færir sig upp á skaptið í áttina til okkar. Annars held ég áfram að syngja þegar hún sér að sér og fer að hlusta. Þegar Signý er orðin syfjuð tek ég Hugrúnu að mér og gef henni pela á meðan Signý sofnar við hliðina á mér.
Þessar tvær leiðir eru ólíkar. Hingað til hefur "miskunnarlausa" leiðin verið eina sýnilega leiðin í spilinu. Núna var ég hins vegar að uppgötva þessa diplómatísku. Hún er ekki eins dramatísk og hefur þann frábæra kost að Signý getur þá sofnað í rúminu sínu. Það er erfitt að flytja hana á milli ef hún sofnar hjá okkur VIgdísi. Þegar við höfum gert það er líklegt að henni bregði þegar hún rumskar og sé ekki eins tilbúin að sofa þar áfram og ef hún hefði sofnað þar. Oft höfum við setið uppi með hana hjá okkur alla nóttina, sem er huggulegt reyndar, en lýjandi líka.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli