mánudagur, apríl 07, 2008

Þroskaferli: Framfaraskref og máltaka Hugrúnar

Enn fetar Hugrún sig áfram. Hún er langt komin með að læra að standa sjálf. Hún hefur undanfarna daga gert tilraunir með að sleppa sér þar sem hún gengur meðfram. Hún er varkár og sleppir sér helst ekki nema hún viti af mjúkri undirstöðu, eins og uppi í rimlarúmi. Þar stóð ég hana að því að standa með rimlunum og sleppa ítrekað á laugardaginn var. Hún var svo örugg með sig í eitt skiptið að hún leyfði sér að klappa fjórum til fimm sinnum áður en hún hlammaði sér á dýnuna, kampakát. Sami leikurinn er í henni þegar ég er nálægt henni, á gólfinu, þá á hún það til að standa andartak og varpa sér síðan yfir mig - í fullri trú á að ég taki af henni fallið. Eins lætur hún sig stundum hníga á kodda í sama tilgangi. Þetta er hálf skuggalegt að sjá en það er eins og hún geri sér fulla grein fyrir því hvað hún er að gera.

Tungumálið er líka allt að slípast til. Hún segir "hæ" glaðhlakkalega og bætir gjarnan við "bless" þegar fólk er farið (stundum löngu eftir á - og horfir á lófann meðan hún vinkar). Essið er eins konar blæst eff. Beff. Svo er það baðið. Ef við vorum einhvern tímann í vafa um það hvort hún segði raunverulega "bað" þá kom staðfestingin endanlega núna um helgina. Hún skreið í humátt á eftir mömmu sinni inn á baðið, og sagði skýrt og greinilega "bah, bah". Ég kom andartaki síðar til að heyra hana endurtaka. Að sjálfsögðu var hún böðuð stuttu seinna.

Svo er það söngurinn. Við eigum svona kisu sem mjálmar, talar, malar, syngur og spilar tónlist ef maður kreistir aðra framloppuna á henni. Hugrún brosir alltaf þegar ég ræsi kisuna en þegar tónlistin kemur (hvort sem það er söngurinn eða hljomsveitarspilið) þá hummar hún mjög markvisst og angurvært með. Ekki það að maður þekki lagið frá henni, en innlifunin er sönn. Á sama hátt er hún löngu farin að taka viðbragð við fréttastefunum og ýmsum lögum úr mest spilaða barnaefninu. Þá klappar hún með og dillar sér ef ég slæ taktinn. Við höfum reyndar vitað nokkuð lengi að hún hefði tónlistina í sér því undanfarnar vikur höfum við fylgst með henni taka undir í "Allir krakkar". Hún virðist bíða átekta eftir þeim stað í laginu þar sem sungið er "mamma". Hún er svo kampakát með þetta lag að það er meira að segja hægt að fá hana til að opna munninn með því einu saman ef hún er eitthvað löt við að borða. Þá tekur hún við þó nokkrum skeiðum í viðbót með bros á vör.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

æðislegt...gaman að fylgjast með þeim.....
Litlu snillingarnir.... knús frá okkur
kv. Begga og börnin.