laugardagur, mars 29, 2008

Þroskaferli: Ýmsir frasar

Enn af Signýju. Hún hefur hingað til látið alveg vera að bera fram óskir á formlegan hátt. Þegar hún vill ís þá segir hún einfaldlega: "Pabbi! ÍS!". Eða kannski: "Ég ís". En núna í kvöld þegar ég tók fram ísboxið þá sagði hún: "Má ég fá ís?". Það kom mér svo þægilega á óvart hvað hún gerði þetta kurteislega og vel að ef ég hefði ekki verið með boxið í höndunum þá hefði ég skutlast eftir því á augabragði. Þetta er spennandi enda er alltaf eitthvað nýtt sem kemur fyrir á hverjum degi. Ég bíð enn eftir því að hún biðji mig að halda á sér án þess að segja: "Ég hada mig", sem mér finnst alltaf hljóma jafn skuggalega.

Eitt er hún þó farin að segja rétt, sem lengi hefur verið beðið eftir; hún er farin að nota orðið "hvar" þegar hún leitar upphátt að hlutum. Við persónugerum hlutina stundum þegar við leitum að þeim og ég ber fram spurninguna: "Hvar ertu? Hvar ertu dudda?" og þá hefur hún iðulega sagt í sama spurnartón: "Ettu? Ettu dudda?" Mér fannst það alltaf mjög sætt hvað hún gat sett mikinn spurnartón í þetta litla orð. Núna hins vegar er setningin loksins fullmótuð: "Ka ettu?" Þetta er allt að koma.

Og þá má ég til að bæta við leitinni í dag að júgursmyrslinu, sem ég þurfti til að bera á sár. Signý tók þátt, auðvitað, og við gengum um íbúðina í leit að júgursmyrslinu: "Hvar ertu júgursmyrsl?" og hún tók undir: "Ka ettu lóuditl". Essin geta stundum verið erfið en hún lét þau ekki trufla sig þarna.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er svo skemmtilegur tími .... Njótið hans og þetta er stórsnjallt...skráið hann því núna er tækifærið því svona hefur tilhneigingu til að gleymast....

Kv. Begga