föstudagur, mars 21, 2008

Þroskaferli: Máltaka Signýjar

Síðan ég skrifaði síðast um málþroska Signýjar, í lok janúar, hef ég ötullega skráð hjá mér þau orð sem Signý notar helst og hef reynt að góma framburðinn eins og hægt er. Nú má ég til að koma þessu á framfæri áður en það verður of úrelt (núna þróast framburðurinn og orðaforðinn mjög hratt).

Það sem helst hefur breyst á þessum tiltölulega skamma tíma er að Signý er farin að notast við nöfn í meiri mæli. Systur sína kallar hún ekki lengur "Diddí" heldur "Hunnún". Sjálfa sig kallar hún "Diddní" eða jafnvel "Þjiddní". Hún kallar mig öðru hvoru "Dinni" en þó yfirleitt bara "pabba". Vigdísi hefur hún ekki nefnt á nafn að mér vitandi. Ásdísi frænku (móðursystur) nær hún að kalla "Aþdiþ"og Togga kallar hún "Gogga". Ömmu sína Sirrý kallar hún "amma dyjí" og ömmu Randý kallar hún "amma jaddí".

Ég tékkaði eitt kvöldið á dýrunum - var með þar til gerða bók fyrir svefninn. Hún þekkti nær öll dýrin í bókinni, mörg þeirra mjög framandi, en stundum þurfti ég að hlusta vel til að átta mig á heitunum. Við sáum dódadíl í vatninu og kikk synda í fjarska. Í fjörunni skreið dabbi fram hjá dokigk, en þó ekki eins hratt og myndarleg gagaga sem skjagaði þar fram hjá. Í loftinu sveimaði dillidí og lóukaka. Enn hærra flaug ödd, en á steini var gummi hins vegar búinn að tylla sér svartur yfirlitum. Í sveitinni fundum við kíg(h) og díni. Labbi jarmaði þar ámátlega í takt við myndarlegan hanana sem galaði án afláts. Í eyðimörkinni mátti sjá hvar úladí gekk í hægðum sínum. Gíjadí kíkti á hann af sléttunni og ábi sveiflaði sér í nærliggjandi frumskógi.

(Orðskýringar fyrir þá sem vilja, í réttri röð: krókódill, fiskur, krabbi, krossfiskur, skjaldbaka, fiðrildi, leðurblaka, örn, krummi, kýr, svínið, lambið, hani, úlfaldi, gíraffi og api.)

Í þessum dúr eru mörg orð hversdagslegri orð (og ég læt núna orðskýrngu fylgja með jafn óðum). Eins og sjá má er einn og sami rauði þráðurinn sem gengur í gegnum framburðinn: vandinn við að bera fram R, T og S ásamt ýmsum tvöföldum samhljóðum. Eins og sjá hér að neðan á Signý það að auki til að éta greininn (eins og það er stundum kallað) þannig að hann hverfur í framburði:

taduda = tannbursta
ðadetta (eða jadetta) = raketta
dutl = púsl
dóli´ = stóllinn
bolli = pollur
dólit = tónlist
djogga = sokka
ljóffi´ = ljósið


Hér koma nokkur algeng sagnorð, og þar kemur í ljós hvað J kemur oft í staðinn fyrir önnur hljóð, jafnvel þar sem maður reiknar ekki því:


geja = skera
kaka = taka
leija = leiða
joga = loka
dutla niju = sulla niður
didda ajiþ = bíddu aðeins

Þegar ég klæði Signýju þá tekur hún virkan þátt með ýmsum hætti, meðal annars með því að segja mér til. Þá heyrir maður þessi orð:

dílení = stígvélin
lekkana = vettlingana (þarna renna saman á allmerkilegan hátt viðskeytið "-lingana" og E-ið ásamt hörðum tvöföldum samhljóða í forskeytinu"vett-")
liggana = lyklana
köggu = tösku
djoggana = sokkana
...fyrir utan auðvitað auðskiljanlegri hluti eins og kápu, úlpu (úppu)eða galla.

Það er ansi krefjandi að reyna að skilja framburðnn hjá Signýju stundum. Einstöku sinnum hafa tvö eða fleiri fyrirbæri sama framburinn (díll getur verið bæði fíll og bíll). Þegar ég spyr hana til baka, og ber orðið eins fram, þá horfir hún á mig eins og ég sé hálfgerður kjáni og reynir að vera skilningsrík. Það gengur bara ágætlega.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er svo sniðugt að stúdera þetta og og verður gaman fyrir hana þegar hún verður eldri ...

Hún er frábær litla skotta....
kv. BB

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir afganska pottréttinn og Heiðmerkurgönguna, hún varð þó fullblóðug fyrir minn smekk, þ.e. gangan!