sunnudagur, mars 09, 2008

Daglegt líf: Þriggja vikna frí að baki

Nú eru þrjár vikur þegar liðnar af feðraorlofinu og aðeins ein eftir fram að páskum (sem reiknast sem vikufrí líka). Þessi tími hefur ekki nýst eins vel og ég hefði viljað. Maður sá fyrir sér tiltekt á heimilinu, að ég gæti loks farið gegnum bókhaldið og ef til vill farið í fullt af gönguferðum, sund og ef til vill á kaffihús og aðrar gæðastundir í þeim dúr með fjölskyldunni. Ég jafnvel reiknaði með að geta heilsað upp á gamla vini í fríinu. Það fór hins vegar lítið fyrir því. Fyrstu vikuna vorum við tiltölulega bundin við hemilið af því að Vigdís var lasin. Það var eitthvað tiltölulega lítilsháttar, en þrálátt. Næstu viku veiktist Signý í tvo til þrjá daga (veik í tvo, innandyra í þrjá). Í þriðju vikunni barst mér í hendur mjög krefjandi verkefni sem ég þurfti að leysa en ég var til aðstoðar hjá vinafólki við að skrifa greinargerð vegna erfiðs dómsmáls. Það tók heila tvo daga, má segja. Síðan hefur frítiminn farið að miklu leyti í að sinna almennum heimilisstörfum enda Vigdís farin að vinna - oft í löngum törnum, til dæmis um helgar. Heil helgi með Signýju og Hugrúnu krefst aga og skipulaginingar ef öllum á að líða vel. Þá er maður ekkert að slóra í tölvunni eða lesa blöðin. Það má því segja, strangt til tekið, að feðraorlofið hafi nýst vel, enda full þörf fyrir mig heima allan tímann. Við erum hins vegar brött gagnvart vikunni framundan hvað varðar afslöppun og náðarstundir enda fáir vinnudagar hjá Vigdísi (nýbúin með vinnutörn) og allir lausir við pestir (fyrir utan lítilsháttar kvef).

Engin ummæli: