laugardagur, mars 01, 2008

Daglegt líf: Náðug kvöldstund

Við fengum drjúga pössun í kvöld fyrir báðar systurnar. Þær fóru í heimsókn til Beggu "frænku" og var þar sinnt af henni og börnum, þeim Fannari og Guðnýju. Þau ná afskaplega vel til Signýjar og Hugrúnar og gaman að sjá hvað allir nutu sín vel. Það verður sko lítið mál að fara þangað aftur í heimsókn með þær litlu. Heimsóknin nýttist okkur Vigdísi líka mjög vel. Við fórum í Smáralindina í bíó og fengum okkur líka að borða þar - tvö ein (óralangt síðan það gerðist síðast). Það var virkilega endurnærandi.

Myndin sem við sáum var hreint afbragð, íslenska myndinn "Brúðguminn". Við mælum bæði eindregið með henni. Hún minnti mig á "Nóa albínóa" að því leyti að hún náði að tvinna saman hádramatíska sögu og sprenghlægilega atburðarás. Útkoman er ógleymanleg. Myndatakan er listaverk út af fyrir sig, sögusviðið eftirminnilegt (Viðey að sumarlagi) og leikurinn eins og hann gerist bestur. Enginn leikhúsbragur er lengur á vönduðum íslenskum myndum. Maður man hvernig þeir áttu til að tala með ýktum framburði, eða sýna full dramatíska tilburði fyrir framan vélarnar. Það sem virkar vel á sviði á ekki endilega heima í bíó. Mér fannst það staðfestast með þessari mynd að íslenskt bíó er að vaxa upp úr leikhússkónum og er orðið samkeppnishæft á alþjóðamarkaði.

Sem sagt, frábær kvöldstund. Það sem meira er, við ætluðum að nýta boðsmiða í bíó en tókst það ekki vegna þess að miðinn var stílaður á SAM-bíóin (sem ég hélt að væru í Smáralindinni, en það er víst ekki). Miðinn rennur út 22. mars þannig að við verðum að fara í bíó aftur fljótlega. Það er ekki svo slæm tilhugsun (enda um ár síðan við fórum saman í bíó síðast).

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gott að sjá að þið nutuð kvöldsins --eins og við!!!
Þetta er nauðsynlegt....
Bið að heilsa litlu dömunum....
kv. Begga frænka -- og börn.