mánudagur, febrúar 25, 2008

Upplifun: Þursatónleikar

Ég fór á Þursatónleikana á sunnudaginn var. Maður veltir því fyrir sér hversu oft maður getur notast við orð eins og "stórkostlegur" eða "snilld" áður en þau glata merkingu sinni? Ég var eiginlega agndofa allan tímann. Fyrst var tuttugu mínútna forleikur, sem Caput-kammersveitin spilaði (samið af Ríkharði Erni Pálssyni og fléttaði í klassískan búning saman öll helstu stef Þursanna), síðan komu Þursarnir á svið og spiluðu með Caput í rúmlega einn og hálfan tíma (öll lögin í glænýrri og gríðarlega magnaðri útgáfu - og hljómurinn hreint ótrúlegur). Eftir uppklapp komu Þursarnir svo einir fram og tóku þrjú lög í gamalgrónum flutningi, eins og maður þekkir þau af plötunum - og loks eitt aukalag, annað uppklapp, en þá var stemningin pönkuð upp stórkostlega. Egill var algjörlega í essinu sínu og söngröddin var lygileg. Náunganum við hliðina á mér varð að orði að Egill ætti bara að syngja Þursana. Hann var kynngimagnaður og mikill sagnaþulur. Ég er á því að hans framlag til íslenskrar tónlistar verði seint metið til fulls.

Engin ummæli: