föstudagur, febrúar 22, 2008

Daglegt líf: Út með græjurnar!

Ég gerðist afreksmaður í gær, á heimilisvísu reyndar, og fór með um það bil einn rúmmetra af ýmsum græjum í endurvinnslu. Góði hirðirinn tók vel á móti mér þar sem ég renndi í hlað við gáminn í Sorpu með tvö sett af hátölurum (bæði pörin yfir tuttugu ára), vídeótæki (sem ég keypti þegar ég bjó á Hellu rétt fyrir aldamótin), geislaspilara (um það bil 15 ára gamlan sem nýlega þurfti að víkja fyrir DVD-tæki hemilisins) og gamlar fermingargræjur Vigdísar (nú nefni ég engan aldur, enda kann ég mig :-). Í vikunni á undan fór ég með gamla magnarann minn á sama stað (sem ég keypti þegar ég var í framhaldsskóla... sem er orðið æði langt síðan). Þessi hreinsun er liður í því að taka til í geymslunum okkar og búa til pláss. Við vorum farin að renna hýru auga til aðkeypts geymslupláss hjá Geymslum þar sem lítið herbergi (örlítið stærra en kústaskápur) kostar um fjögur þúsundkall á mánuði. Er ónotaða dótið manns þess virði? Við vorum farin að velta þessu alvarlega fyrir okkur vegna þess að sú lausn var að minnsta kosti ódýrari en að leita að stærri íbúð, til kaups eða leigu.

Öll þessi atburðarás á reyndar rætur sínar að rekja til vikunnar strembnu, sem ég nefndi nýlega. Þið munið: Bíllinn gaf sig fyrir nokkrum vikum. Ég minntist ekki á það þá en strax sama kvöld heyrðust sprengingar í hátalarakerfinu í stofunni. Þvílík læti. Vigdís rak um neyðaróp um leið enda sá hún glitta í eld eða neista í magnaranum. Ég slökkti strax á fjöltengisrofanum með einni lipurri hreyfingu og sá að það rauf þetta ískyggilega ferli sem virtist vera í uppsiglingu. Gúmmíkennd brunalykt lá yfir græjunum. Ég prísaði mig sælan fyrir að hafa notað svona fjöltengi, og því að hafa verið á staðnum, annars veit maður ekki hvernig hefði farið! Tilhugsunin um að magnarinn væri allur orkaði svolítið sterkt á mig líka. Hann hafði fylgt mér og þjónað lengi. Þetta voru því ákveðin straumhvörf hjá mér og fékk mig í leiðinni til að fjarlægja hátalarana, enda höfðu þeir strítt mér svolítið gegnum tíðina (og voru vita gagnslausir án magnara).

Viku seinna gerðist það að vídeótækið neitaði að hlýða mér. Sjaldan er ein báran stök. Mér tókst sem sagt ekki að taka upp "Einu sinni var", sem ég hafði alltaf ætlað mér að safna á spólu. Þá var ég harðákveðinn í að sýna tækinu enga linkind. Þetta tæki var búið að vera leiðinlegt að undanförnu, eða allar götur síðan jarðskjálftinn á Hellu henti sjónvarpstæki ofan á það og beyglaði kassann. Það ískraði í því þegar maður spólaði fram og til baka og spóluskúffan vildi stundum stjórna því hvaða spólur færu inn og út. Að öðru leyti virkaði það vel - nema stundum. Mér einum tókst að halda tækinu góðu, með lagni, en var orðinn leiður á að dekstra dauðan hlut til lengdar. Það fór því sömu leið og hin tækin.

Að sjálfsögðu þakkaði ég tækjunum kærlega fyrir góða þjónustu áður en ég yfirgaf þau í köldum gámnum.

Engin ummæli: