mánudagur, nóvember 22, 2004

Matur. Uppskrift: Bananabrauð

Ég var rétt í þessu að gæða mér á dýrðlegu bananabrauði með ískaldri mjólk. Brauðið er gamall kunningi úr bókinni "Af bestu lyst" og hefur reynst mér ótal oft vel enda er hráefnið alltaf til staðar (fer reyndar eftir banönunum) og er meinhollt. Hvet alla til að prófa:

1. Stappa um 4 banana og bæta stóru glasi af All-bran saman við og blanda vandlega saman. Láta þetta standa í nokkrar mínútur (til að mýkja upp kornið).

2. Í annarri skál þeytast lauslega saman matarolía (1 dl.), egg (2 stk.) og sykur (eftir smekk - bananarnir eru mjög sætir einir og sér. Uppskriftin segir 2 dl. og ég nota talsvert minna en það).

3. Hrærunum tveimur er blandað saman.

4. Blanda saman hveiti (5 dl.), lyftidufti (1,5 tsk.), salti (0,5 tsk.) og hnetum (1 dl - ég mæli með valhnetum). Þessu er blandað við deigið í liðunum að ofan.

5. Sett í smurt, aflangt kökuform. Hiti: 180 gráður C í um klukkutíma.

6. Muna að kæla brauðið áður en það er sneitt svo það verði fallegt og þétt. Borðist með vænum slurki af smjöri og glasfylli af mjólk. Jólasmákökur skemma ekki fyrir sem meðlæti. Svo má ekki gleyma heitu kakói með rjóma til hátíðabrigða.

laugardagur, nóvember 20, 2004

Í fréttum: Napurt kuldakastið

Veturinn sleppir nú loks þriggja daga frostkrumlu. Fyrir tveimur dögum náði kuldinn vel niður fyrir fimmtán stig víða í Reykjavík. Það er með því kaldara sem mælst hefur á höfuðborgarsvæðinu þó svo talsvert meiri kuldi þekkist inni til landsins (og fyrir norðan). Í gær og á miðvikudag var hins vegar "ekki nema" um tólf gráðu frost. Í dag liggur hitinn í dag líklega í kringum þægilegt frostmark. Það hefur ekki verið neinum bjóðandi að valsa um utandyra öðruvísi en dúðuðum í bak og fyrir í þessum marrandi kulda. Andadrátturinn líkist helst innvortis frostpinna. Sjálfur er ég svo heppinn að hafa ákveðið í síðustu viku, af innsæinu einu saman, að láta mér vaxa skegg. Gaman að geta nýtt líffræðilega möguleika sína til að bregðast við kulda. Lífvera í vetrarham.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Tónlist: The Fall. Tónleikar og lýsing

Ég var aftur að koma af tónleikum í Austurbæ í kvöld. Í þetta skiptið sá ég gömlu nýbylgjupönksveitina the Fall sem ég hélt mikið upp á fyrir um tíu til fimmtán árum. Tónleikarnir voru ágætir en samt ekkert í samanburði við Dúndurfréttir á mánudaginn var. Reyndar er ekki hægt að bera þetta tvennt saman því tónlist the Fall er mjög undarleg. Hún er geysilega þétt og hljómar svolítið eins og maður sé fastur inni á skemmtistað með þéttan hljóðmúr allt í kringum sig, fullt af áreitum og þungu bíti. Á köflum er hún einsleit en samt er heilmikið í gangi allan tímann. Það sem stelur athyglinni er hins vegar sérkennilega drafandi talrödd (sem helst minnir á fyllibyttu) og hún hnippir stöðugt í mann gegnum hávaðann. Tónlist the Fall getur því verið lýjandi á köflum en, eins og með skemmtistaðina, þá þarf ekkert sérstakt að "gerast" til að maður hangi yfir henni. Það er bara svo mikið líf í gangi að maður nýtur þess, hálf ráðvilltur, að hreiðra um sig í miðju kraðakinu.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Daglegt líf: Ruslherferð og vetrarstillur

Þegar heim kom eftir vinnu tókum við Vigdís okkur til og hreinsuðum út úr geymslunni og ruddum þaðan alls kyns gömlu skóladóti. Þetta var búið að stífla vistarverur okkar allt of lengi. Eftir drjúga fjögurra tíma törn var þetta allt skilmerkilega komið í sinn flokkaða haug, á leiðinni í endurvinnslu. Okkur var mikið létt. Ég stökk út í skokkgallanum og mætti tuttugu sentímetra nýföllnum snjó. Granaskjólið tekur sig sérlega vel út í kvöldmyrkrinu sveipað fjarlægu vetrarlandslagi sem og allur Vesturbærinn. Þetta var eins og að stíga aftur í tímann til annars og betra samfélags. Ég naut þess að skima milla garða eftir krökkum og fullorðnum að leik. Loftið var óvenju kyrrt og hreint og undirlagið dúnmjúkt.

Upplifun: Dúndurfréttir spila "Vegginn".

Í gær kom ég heim um eittleytið með lófana enn ylvolga eftir þungt lófatak í Austurbæ. Gat ekki sofið af innblæstri í rúman klukkutíma. Ég var að koma af "Veggnum", ásamt Vigdísi. Ég er auðvitað að tala um goðsagnakennda meistaraverkið sem Pink Floyd gáfu út 1979. Hljómsveitin Dúndurfréttir hélt upp á 25 ára afmæli plötunnar með tvöföldum tónleikum (klukkan átta og hálf ellefu) fyrir smekkfullum Austurbæ, og þvílíkur flutningur! Ég ætla ekki að reyna að lýsa upplifuninni öðruvísi en svo að mér fannst þeir ná að gæða tónlistina gjörsamlega nýju lífi á köflum. Gæsahúðin var viðvarandi allan seinni hluta tónleikanna - og það hef ég ekki upplifað árum saman.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Pæling: Nýyrðið "hryðjuverkamaður"

Ég heyrði skemmtilegt nýyrði í dag, eða öllu heldur útúrsnúning á mikið notuðu orði. Orðið "hryðjuverkamaður" hefur verið heimfært upp á ýmsa ofbeldismenn í fjarlægum heimshlutum en hingað til hef ég ekki heyrt það notað á neinn Íslending. Samt erum við óttalegir verkamenn að upplagi. Letin er áberandi þáttur hins íslenska verkamanns þar sem hann hímir á skóflunni, en hann getur samt stært sig af dugnaði sem brýst út í skorpum, eða svokölluðum "hryðjum". Ég vildi að ég hefði fattað þetta þegar ég var ungur drengur með skóflu undir kinn, bíðandi eftir átökunum.

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Fréttnæmt: Magasaga

Eins og sjá má hef ég varla minnst orði á mat undanfarna mánuði. Ástæðan er langvarandi magaverkir. Það byrjaði í raun fyrir um tveimur árum að maginn fór fyrst að trufla mig. Ég hafði ferðast um Tékkland og neytt afar germikillar fæðu, bæði hveitiklatta Knedlicky (sem fylgja öllu því sem Tékkar borða) og bjórsins illræmda. Heim kom ég með myndarlega vömb, - fyrstu ístru ævinnar. Hún olli mér engum þjáningum og minnkaði fljótt en hvarf samt aldrei alveg. Þó nokkru síðar, nánar tiltekið í vor, tók ég eftir því að þessi gamli kunningi fór að stækka á ný. Þegar vinir og vandamenn bentu furðu lostnir á bumbuna kenndi ég undir eins nautnalífinu heima um - sem einkenndist af sælkeramat við hvert tækifæri og lítilli hreyfingu. Mér varð líka hugsað til þess að nú sé maður orðinn rúmlega þrítugur og efnaskipti líkamans líklega eitthvað að breytast. Ég varð bara að passa mig örlítið meira en áður. Þegar leið á sumarið ágerðist ístran þar til ég veitti því eftirtekt að ég vaknaði ekki lengur svangur, eins og ég var vanur. Fann jafnvel ekki fyrir alvöru svengd dögum saman. Þrúgandi sumarhiti (eins og maður upplifði í sumar) dregur að vísu úr matarfíkn upp að vissu marki, en þetta var full mikið. Ég var orkulítill og hresstist lítið þó ég færi út að skokka. Með haustinu hélt þetta áfram þar til ég fann fyrir mæði við það eitt að ganga upp nokkurra hæða stiga. Þá varð ég smeykur: Gat ég verið að veikjast alvarlega af einhverjum vírus eða einhverju þaðan af verra? Þá skellti ég mér til læknis. Að sjálfsögðu snarlöguðust verstu einkennin fyrir læknisskoðun, en ég passaði upp á að mæta að minsta kosti með þrútinn magann :-). Hjá lækninum fékk ég grun minn staðfestan um að ég gæti hafa sýkst af einhverri ótilgreindri veiru. Ég fékk töflur við magakvillanum og þurfi að huga sérstaklega að mataræðinu. Svo sem engar stórfréttir. Ég einsetti mér hins vegar að fylgja þessu vel eftir. Nú fer ég varlega í grófmeti úr fæðukeðjunni eins og baunir og hnetur, borða mikið All-bran, borða vatnsríkan mat og svo framvegis. Mér líður mun betur. Á sama tíma er ég farinn að hreyfa mig meira og markvissar. Þetta skiptir allt máli.

laugardagur, nóvember 13, 2004

Lestur: Arabs and Israel

Sama dag og tilkynnt var um andlát Arafats lauk ég við náttborðslesninguna mína frá því í haust: Arabs and Israel for beginners eftir Ron David. Bókin er ótrúlega sjokkerandi og skilur mann eftir agndofa. Ef eitthvað er hæft í því sem fram kemur í henni (vitnað er í henni stöðugt í heimildir sem ég á eftir að kynna mér nánar) þá er saga Ísrael smánarblettur á mannkyninu. Þeir hafa fyrirgert allri samúð alþjóðasamfélagsins eftir hörmungarnar í seinni heimstyrjöldinni, svo hrottaleg er saga þeirra í miðausturlöndum. Ég hvet alla þá sem ég þekki til að kynna sér þessa bók eða aðrar sambærilegar. Muna bara að hafa hana annars staðar en á náttborðinu því það er frekar ónotalegt að láta hana stugga við sér rétt fyrir svefninn.

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Kvikmyndir: Handritið í aðalhlutverki

Á undaförnum árum hefur handritið verið mjög áberandi hluti bíómynda. Allir muna eftir við Pulp Fiction og öðrum handritslistaverkum sem komu í kjölfarið á þeirri byltingarkenndu mynd: the Sixth Sense, the Game, Fight Club, the Others, the Usual Suspects, Seven eða the Matrix. I öllum tilvikum kemur grunnhugmyndin að baki myndinni, eða handritið sem á henni er byggt, virkilega aftan að manni og fær mann til að velta vöngum lengi á eftir. Í þessum myndum liggur ekkert í augum uppi fyrr en undir lok myndar eða jafnvel eftir töluverðar vangaveltur eftir á. Þetta mætti kalla nýja kynslóð kvikmyndagerðar.

Ég velti þessu fyrir mér núna vegna þess að síðustu vikurnar hef ég óafvitandi nær eingöngu séð myndir sem falla undir þenna flokk mynda. Það byrjaði fyrir nokkrum vikum er við Vigdís tókum Gothika á vídeóspólu og stuttu seinna endurtókum við leikinn með the Butterfly Effect (snilldarpæling um tímaflakk). Í sjónavarpinu sáum við svo myndirnar Being John Malkovich og the Unbreakable. Snilldarmyndir, allar á sinn hátt. Í flestum tilvikum horfði ég á með hangandi hendi í upphafi og lét þær koma virkilega aftan að mér, með tilheyrandi heilabrotum og látum eftir á. Þá síðustu sá ég uppi í bústað núna um helgina og ég náði því varla hvað hún var á allan hátt óvenjuleg og vel heppnuð. Mæli með þeim öllum.

mánudagur, nóvember 08, 2004

Fréttnæmt: Bústaðaferð á Suðurlandi

Við Vigdís fórum aftur í sumarbústað núna um helgina. Í þetta skiptið héldum við okkur á Suðurlandi og leigðum glæsilegan nýjan bústað sjúkraliða í Kiðjabergi. Veðrið var hins vegar ekki upp á marga fiska, nema ef vera skyldi flugfiska, því rakinn í loftinu var svo mikill að umhverfið hvarf í þoku og rigningu. Það mældist 30 mm rigning á svæðinu og það þýðir, samkvæmt minni upplifun, stöðug rigning nær allan sólarhringinn. Fyrir vikið fór maður ekkert út úr húsi að ráði og kom hálf dasaður heim að þessu sinni.

föstudagur, nóvember 05, 2004

Pæling: Lifandi visindi fyrir skola

Mér datt í hug í morgun þegar ég blaðaði gegnum Lifandi vísindi, einu sinni sem oftar, að blaðið væri kjörið kennsluefni í grunn- og framhaldsskólum landsins. Það er myndrænna en gengur og gerist og tekst að gera vísindi mjög aðlaðandi á allan hátt. Mér datt í hug hvort það væri ekki sniðugt að fá útgefendur til að vinna markvisst með Námsgagnastofnun. Hægt væri að taka fyrir tilteknar greinar og einfaldlega búa til spurningar og svör út frá þeim. Þessu yrði safnað saman í aðgengilegu gagnasafni. Efni greinanna yrði auk þess tengt öðrum fáanlegum heimildum og ítarefni á íslensku (auk annarra skyldra greina í öðrum tölublöðum blaðsins). Það sem er sérstaklega áhugavert, út frá kennslufræðilegum sjónarhóli, er að nemandinn gæti með þessu móti tekið blað af handahófi og valið sér þá grein sem höfðar til hans/hennar. Kjörið sem frjáls verkefnavinna.

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Daglegt lif: Frí, vinna og kosningar.

Frá og með deginum í dag kemst ég í þriggja daga vetrarfrí (fram að helgi). Aftur tilheyrum við sérkennarar á Dalbrautinni minnihlutahópi kennara því á meðan aðrir kenna fáum við þetta ljúffenga frí. Það ætla ég svo sannarlega að nota til að vaka fram eftir í nótt og fylgjast með kosningunum. Svo vill einmitt til að Vigdís var að vinna á næturvakt síðustu nótt (og er á kvöldvakt á morgun) þannig að við gerum okkur drjúga sjónvarpsstund með einhverju góðgæti. Rétt áðan leitaði ég að Ben / Jerry ís úti í búð (sem ég kallaði hálf vandræðalega Tomma og Jenna ís) til að maula eitthvað verulega amerískt, en tímdi því ekki. 100 ml pakkning kostar rúmlega tvöhundruð kall! Það gerir rúmar 2000 krónur lítrinn, takk fyrir. Nei takk, það er að segja. Þegar heim kom beið mín svo kjörseðill mitt í þessu aðdraganda kosninganna í Bandaríkjunum sem ávarpaði mig svona: "Samþykkir þú miðlunartillögu ríkissáttasemjara?". Ósjálfrátt hugsa ég með mér að þar sem ég er nýbyrjaður í kennslunni þá sé ég mjög sáttur við launin (þau eru um 70% hækkun frá laununum á sambýlinu) og hef því engan áhuga á verkfalli sjálfur en þar sem ég er á undanþágu sem sérkennari er mér einnig sama þó ég haldi áfram í verkfalli því það bitnar ekki í sjálfu sér á mér. Ég hef því hvorki ástæðu til að vera með læti út af launum né verkfalli. En því er ekki að neita að miðlunartillaga er ekki nein framtíðarlausn. Nei eða já?

mánudagur, nóvember 01, 2004

Pæling: Skaðleg áhrif teiknimynda: Happy Tree Friends

Ég er með eina áleitna spurningu sem gaman væri að fá viðbrögð við. Í skólanum eru krakkarnir nýbúnir að uppgötva teiknimyndaseríu á netinu sem heitir Happy Tree Friends. Þetta er afar sæt sería sem endar alltaf með blóðbaði og viðbjóði. Minnir sérstaklega á Itchy og Scratchy úr Simpson þáttunum. Í þessari teiknimynd er safnað saman öllum hugsanlegum dauðdögum og pyntingum þannig að viðbjóðurinn er kjarni þáttanna. Ná krakkar að yfirfæra hörmungar saklausra nammikarla á lifandi dýr og fólk? Getur efni sem er mjög óraunverulegt á yfirborðinu haft áhrif á samband manns við raunveruleikann?

Til umhugsunar vísa ég á tvær síður á netinu, önnur með faglegri umfjöllun og hin með nokkrum sýnishornum.

Frettnæmt: Tölvuaðstaðan batnar til muna

Í síðustu færslu ýjaði ég að því að tölvuhornið heima væri um það bil að taka stakkaskiptum. Núna er breytingin að baki. Tölvan mín er orðin að Makka og ég er kominn með ADSL sítengi. Ég kann einstaklega vel við umskiptin. Það er greinilegt að Macintosh er hannað fyrir, og af, hönnuðum því allt er svo einstaklega vel útfært og hugsað. Lyklaborðið er til dæmis með takka sem stýrir geisladiskaskúffunni og músinni er ekki stungið í samband við tölvuna heldur er það gert gegnum lyklaborðið. Báðar þessar lausnir eru augljósar, eftir á að hyggja, en snilldarlegar engu að síður. Viðmót stýrikerfisins er líka langtum smekklegra en á PC. Allir rammar á skjánum eru rúnnaðir og mjúkir, lítill skuggi fellur af þeim (til að mýkja umhverfið en frekar) og allt er sett fram í dempuðum litum (en ekki neon-litum PC). Það er eins og gert sé sérstaklega ráð fyrir því að það sé manneskja (með lífrænt auga) sem noti tölvuna, nokkuð sem PC-tölvur virðast ekki taka með í reikninginn. Mér líður sérlega vel innan um svona smekklega hannaðan búnað, fyrir utan þá gleði sem er fólgin í því að hafa uppfært og stækkað tölvuna til muna, svona í leiðinni.