mánudagur, nóvember 01, 2004
Frettnæmt: Tölvuaðstaðan batnar til muna
Í síðustu færslu ýjaði ég að því að tölvuhornið heima væri um það bil að taka stakkaskiptum. Núna er breytingin að baki. Tölvan mín er orðin að Makka og ég er kominn með ADSL sítengi. Ég kann einstaklega vel við umskiptin. Það er greinilegt að Macintosh er hannað fyrir, og af, hönnuðum því allt er svo einstaklega vel útfært og hugsað. Lyklaborðið er til dæmis með takka sem stýrir geisladiskaskúffunni og músinni er ekki stungið í samband við tölvuna heldur er það gert gegnum lyklaborðið. Báðar þessar lausnir eru augljósar, eftir á að hyggja, en snilldarlegar engu að síður. Viðmót stýrikerfisins er líka langtum smekklegra en á PC. Allir rammar á skjánum eru rúnnaðir og mjúkir, lítill skuggi fellur af þeim (til að mýkja umhverfið en frekar) og allt er sett fram í dempuðum litum (en ekki neon-litum PC). Það er eins og gert sé sérstaklega ráð fyrir því að það sé manneskja (með lífrænt auga) sem noti tölvuna, nokkuð sem PC-tölvur virðast ekki taka með í reikninginn. Mér líður sérlega vel innan um svona smekklega hannaðan búnað, fyrir utan þá gleði sem er fólgin í því að hafa uppfært og stækkað tölvuna til muna, svona í leiðinni.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli