mánudagur, nóvember 22, 2004

Matur. Uppskrift: Bananabrauð

Ég var rétt í þessu að gæða mér á dýrðlegu bananabrauði með ískaldri mjólk. Brauðið er gamall kunningi úr bókinni "Af bestu lyst" og hefur reynst mér ótal oft vel enda er hráefnið alltaf til staðar (fer reyndar eftir banönunum) og er meinhollt. Hvet alla til að prófa:

1. Stappa um 4 banana og bæta stóru glasi af All-bran saman við og blanda vandlega saman. Láta þetta standa í nokkrar mínútur (til að mýkja upp kornið).

2. Í annarri skál þeytast lauslega saman matarolía (1 dl.), egg (2 stk.) og sykur (eftir smekk - bananarnir eru mjög sætir einir og sér. Uppskriftin segir 2 dl. og ég nota talsvert minna en það).

3. Hrærunum tveimur er blandað saman.

4. Blanda saman hveiti (5 dl.), lyftidufti (1,5 tsk.), salti (0,5 tsk.) og hnetum (1 dl - ég mæli með valhnetum). Þessu er blandað við deigið í liðunum að ofan.

5. Sett í smurt, aflangt kökuform. Hiti: 180 gráður C í um klukkutíma.

6. Muna að kæla brauðið áður en það er sneitt svo það verði fallegt og þétt. Borðist með vænum slurki af smjöri og glasfylli af mjólk. Jólasmákökur skemma ekki fyrir sem meðlæti. Svo má ekki gleyma heitu kakói með rjóma til hátíðabrigða.

1 ummæli:

Jóhanna sagði...

Var að leita að bananabrauði á netinu og fann þessa fyrir tilviljun. Heppnaðist vel. Takk fyrir mig