miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Tónlist: The Fall. Tónleikar og lýsing

Ég var aftur að koma af tónleikum í Austurbæ í kvöld. Í þetta skiptið sá ég gömlu nýbylgjupönksveitina the Fall sem ég hélt mikið upp á fyrir um tíu til fimmtán árum. Tónleikarnir voru ágætir en samt ekkert í samanburði við Dúndurfréttir á mánudaginn var. Reyndar er ekki hægt að bera þetta tvennt saman því tónlist the Fall er mjög undarleg. Hún er geysilega þétt og hljómar svolítið eins og maður sé fastur inni á skemmtistað með þéttan hljóðmúr allt í kringum sig, fullt af áreitum og þungu bíti. Á köflum er hún einsleit en samt er heilmikið í gangi allan tímann. Það sem stelur athyglinni er hins vegar sérkennilega drafandi talrödd (sem helst minnir á fyllibyttu) og hún hnippir stöðugt í mann gegnum hávaðann. Tónlist the Fall getur því verið lýjandi á köflum en, eins og með skemmtistaðina, þá þarf ekkert sérstakt að "gerast" til að maður hangi yfir henni. Það er bara svo mikið líf í gangi að maður nýtur þess, hálf ráðvilltur, að hreiðra um sig í miðju kraðakinu.

Engin ummæli: