þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Daglegt líf: Ruslherferð og vetrarstillur

Þegar heim kom eftir vinnu tókum við Vigdís okkur til og hreinsuðum út úr geymslunni og ruddum þaðan alls kyns gömlu skóladóti. Þetta var búið að stífla vistarverur okkar allt of lengi. Eftir drjúga fjögurra tíma törn var þetta allt skilmerkilega komið í sinn flokkaða haug, á leiðinni í endurvinnslu. Okkur var mikið létt. Ég stökk út í skokkgallanum og mætti tuttugu sentímetra nýföllnum snjó. Granaskjólið tekur sig sérlega vel út í kvöldmyrkrinu sveipað fjarlægu vetrarlandslagi sem og allur Vesturbærinn. Þetta var eins og að stíga aftur í tímann til annars og betra samfélags. Ég naut þess að skima milla garða eftir krökkum og fullorðnum að leik. Loftið var óvenju kyrrt og hreint og undirlagið dúnmjúkt.

Engin ummæli: