Eins og sjá má hef ég varla minnst orði á mat undanfarna mánuði. Ástæðan er langvarandi magaverkir. Það byrjaði í raun fyrir um tveimur árum að maginn fór fyrst að trufla mig. Ég hafði ferðast um Tékkland og neytt afar germikillar fæðu, bæði hveitiklatta Knedlicky (sem fylgja öllu því sem Tékkar borða) og bjórsins illræmda. Heim kom ég með myndarlega vömb, - fyrstu ístru ævinnar. Hún olli mér engum þjáningum og minnkaði fljótt en hvarf samt aldrei alveg. Þó nokkru síðar, nánar tiltekið í vor, tók ég eftir því að þessi gamli kunningi fór að stækka á ný. Þegar vinir og vandamenn bentu furðu lostnir á bumbuna kenndi ég undir eins nautnalífinu heima um - sem einkenndist af sælkeramat við hvert tækifæri og lítilli hreyfingu. Mér varð líka hugsað til þess að nú sé maður orðinn rúmlega þrítugur og efnaskipti líkamans líklega eitthvað að breytast. Ég varð bara að passa mig örlítið meira en áður. Þegar leið á sumarið ágerðist ístran þar til ég veitti því eftirtekt að ég vaknaði ekki lengur svangur, eins og ég var vanur. Fann jafnvel ekki fyrir alvöru svengd dögum saman. Þrúgandi sumarhiti (eins og maður upplifði í sumar) dregur að vísu úr matarfíkn upp að vissu marki, en þetta var full mikið. Ég var orkulítill og hresstist lítið þó ég færi út að skokka. Með haustinu hélt þetta áfram þar til ég fann fyrir mæði við það eitt að ganga upp nokkurra hæða stiga. Þá varð ég smeykur: Gat ég verið að veikjast alvarlega af einhverjum vírus eða einhverju þaðan af verra? Þá skellti ég mér til læknis. Að sjálfsögðu snarlöguðust verstu einkennin fyrir læknisskoðun, en ég passaði upp á að mæta að minsta kosti með þrútinn magann :-). Hjá lækninum fékk ég grun minn staðfestan um að ég gæti hafa sýkst af einhverri ótilgreindri veiru. Ég fékk töflur við magakvillanum og þurfi að huga sérstaklega að mataræðinu. Svo sem engar stórfréttir. Ég einsetti mér hins vegar að fylgja þessu vel eftir. Nú fer ég varlega í grófmeti úr fæðukeðjunni eins og baunir og hnetur, borða mikið All-bran, borða vatnsríkan mat og svo framvegis. Mér líður mun betur. Á sama tíma er ég farinn að hreyfa mig meira og markvissar. Þetta skiptir allt máli.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli