Á undaförnum árum hefur handritið verið mjög áberandi hluti bíómynda. Allir muna eftir við Pulp Fiction og öðrum handritslistaverkum sem komu í kjölfarið á þeirri byltingarkenndu mynd: the Sixth Sense, the Game, Fight Club, the Others, the Usual Suspects, Seven eða the Matrix. I öllum tilvikum kemur grunnhugmyndin að baki myndinni, eða handritið sem á henni er byggt, virkilega aftan að manni og fær mann til að velta vöngum lengi á eftir. Í þessum myndum liggur ekkert í augum uppi fyrr en undir lok myndar eða jafnvel eftir töluverðar vangaveltur eftir á. Þetta mætti kalla nýja kynslóð kvikmyndagerðar.
Ég velti þessu fyrir mér núna vegna þess að síðustu vikurnar hef ég óafvitandi nær eingöngu séð myndir sem falla undir þenna flokk mynda. Það byrjaði fyrir nokkrum vikum er við Vigdís tókum Gothika á vídeóspólu og stuttu seinna endurtókum við leikinn með the Butterfly Effect (snilldarpæling um tímaflakk). Í sjónavarpinu sáum við svo myndirnar Being John Malkovich og the Unbreakable. Snilldarmyndir, allar á sinn hátt. Í flestum tilvikum horfði ég á með hangandi hendi í upphafi og lét þær koma virkilega aftan að mér, með tilheyrandi heilabrotum og látum eftir á. Þá síðustu sá ég uppi í bústað núna um helgina og ég náði því varla hvað hún var á allan hátt óvenjuleg og vel heppnuð. Mæli með þeim öllum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli